c

Pistlar:

20. september 2014 kl. 15:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bólu-Hjálmar og velferðarkerfið

Ríkur og fátækur


Ríkur búri ef einhver er,

illa máske þveginn,

höfðingjar við síðu sér

setja hann hægra megin.


Fátækur með föla kinn

fær það eftirlæti,

á hlið við einhvern hlandkoppinn

Þannig orti Hjálmar Jónsson, betur þekktur sem Bólu-Hjálmar, (1796-1875). Kvæðið heitir ,,Ríkur og fátækur". Bólu-Hjálmar orti mikið um niðurlæginguna sem fylgdi því að vera fátækur enda stórlindur (og jafnvel grálindur) maður. Wikipedia segir hann frægan fyrir níðkveðskap og að hafa verið óvæginn og illskeyttur. Um það má deila en vissulega var Bólu-Hjálmar hvassyrtur og hlífði ekki samferðamönnum sínum enda taldi hann sig ekki metinn að verðleikum. Það sést ágætlega í kvæði hans ,,Umkvörtun", þar sem hann kvað um heimasveit sína, Akrahrepp í Skagafirð. Hann hóf kvæðið með þessu erindi:

Eftir fimmtíu ára dvöl

í Akrahrepp, ég má nú deyja

úr sulti, nakleika, kröm og kvöl.

Kvein mitt ei heyrist, skal því þegja.

Félagsbræður ei finnast þar,

af frjálsum manngæðum lítið eiga,

eru því flestir aumingjar,

en illgjarnir þeir sem betur mega.

Bolu_hjalmar

Líklega verður að telja þennan kveðskap Bólu-Hjálmars til gagnrýni á fátæktarmál þess tíma. Hann bjó við þröngan kost en líklega er nú ofsagt að hann hafi búið við ,,sult, nakleika, kröm og kvöl." En vissulega var velferðarkerfi þess tíma eitthvað til að kvarta yfir, enda ansi langt frá því kerfi sem við þekkjum núna. Og hlutirnir áttu sannarlega eftir að breytast.

Velferðarkerfið kemur til sögunnar

Með nokkrum einföldunum má segja að velferðarkerfi nútímans eigi rætur að rekja til almannatryggingakerfisins, sem Ottó von Bismarck ,,járnkanslarinn" kom á í Þýskalandi á seinni hluta 19. aldar. Líklega um svipað leyti og Bólu-Hjálmar var að gefa upp öndina, saddur lífdaga.  Það var þó ólíkt því kerfi sem þróaðist á Norðurlöndum á uppgangstímum eftirstríðsáranna. Á þetta var bent í skýrslu sem sænski félagsvísindamaðurinn Joakim Palme vann í lok síðustu aldar. Hann starfaði þá hjá Institut for socialforskning í Stokkhólmi. Skýrslan, "Norræna kerfið og breytingar á félagslegri vernd í Evrópu", var gerð að tilhlutan Norðurlandaráðs og var rækilega sagt frá henni í Morgunblaðinu á þeim tíma. Er hér stuðst við þá frásögn. Skýrsla Palmes er einkum miðuð við Norðurlöndin að Íslandi undanskildu en hann tekur þó dæmi frá Íslandi eftir því sem efni standa til. Af skýrslu hans mátti ráða að íslenska velferðarkerfið var mörgu leyti ólíkt norræna kerfinu.

Palme benti á að framan af hafi ekkert verið við norrænu kerfin sem benti til þess er síðar varð. Norðurlönd voru heldur sein til að koma á víðtæku velferðarkerfi og fram að fyrri heimsstyrjöldinni voru bæturnar lægri en í nágrannalöndunum. Það átti þó eftir að breytast og ekki síst sökum þess það, að áhersla var lögð á að gera konum kleift að taka þátt í atvinnulífinu. Það einkenndi lengi vel  þróunina á Norðurlöndum að þar er einstaklingurinn en ekki fjölskyldan hornsteinn velferðarkerfisins. Segja má að með tekjutengingarbótakerfinu hafi verið horfið frá því og velferðarkerfið meira samofið inn í fjölskyldugerðina. Að mörgu leyti skiljanleg nálgun en hún býður líka þeirri hættu heim að þjóðfélagsmyndunin sé rekin í gegnum velferðarkerfið og hlutverk einstaklingsframtaksins minnki um leið.

Átti að draga úr fátækt

Í rannsókn sinni velti Palme fyrir sér hver væri tilgangurinn með svo víðtæku kerfisbyggingu eins og Norðurlöndin höfðu ráðist í. Jú, eins og annars staðar var tilgangurinn að draga úr fátækt en norræna kerfið lagði (og leggur enn) einnig grundvallaráherslu á að jafna aðstöðu þegnanna og kynjanna. Ekki bara að veita fólki neyðaraðstoð heldur var því smám saman sett ýmis félagsleg markmið. Kerfið var hugsað fyrir hinn breiða fjölda, ekki aðeins fyrir lítinn hóp þurfandi eins og gamals fólks og einstæðra mæðra. Með öðrum orðum, markmiðið var ekki eingöngu að glíma við fátækt eins og þá sem Bólu-Hjálmar upplifið heldur jafna stöðu fólks.

Í niðurstöðum sínum bendir Palme á, að norræna reynslan bendi til, að kerfi, sem miðað sé við allan þorra fólks og ekki aðeins lítinn hóp, sé í raun árangursríkara til að hjálpa þeim sem þess þurfa en kerfi sem eiga eingöngu að vera eins og öryggisnet fyrir þá illa settu. Hann bendir ennfremur á, að þar sem Norðurlöndin standi vel hvað varðar baráttu við fátækt og jafnrétti miðað við nágrannalöndin, þá megi segja, að velferðarkerfin hafi þjónað tilgangi sínum bærilega.

Dregur úr viljanum til að vinna

Það felur þó ekki í sér, að ekki megi koma auga á agnúa í kerfunum og þá verður að ræða en ekki fela, eins og Palme telur að oft hafi verið tilhneiging til og rakið er í áðurnefndri Morgunblaðsgrein. Höfuðgagnrýnin að mati Palmes er, að sökum félagsbóta og hárra skatta hafi velferðarkerfið dregið úr viljanum til að vinna. Hann bendir hins vegar á, að það sé þó erfitt að sjá þess tölfræðilegan stað því þrátt fyrir atvinnuleysi hafi atvinnuþátttaka verið mikil, einkum vegna atvinnuþátttöku kvenna. Nær sé að líta á hvernig opinber útgjöld hafi verið notuð til að bæta forsendur hagvaxtar og hvaða áhrif útgjöld á sviði menntunar, heilsufars, húsnæðismála, umhverfis og skyldra þátta hafi haft á hagvöxt.

Til að gera langa sögu stutta má segja að velferðarkerfið hafi þanist úr þar til það fékk alvarlega gagnrýni frá frjálshyggjumönnum. Sú gagnrýni beindist að óskilvirkni kerfisins sem þeir töldu ekki ná tilgangi sínum. Þvert á móti færi kerfið illa með fé og kæmi í veg fyrir verðmætasköpun. Sagnfræðingurinn Niall Fergusson lýsir þessari gagnrýni ágætlega í bók sinni "Peningarnir sigra heiminn" en þar rekur hann hvernig rausnarlegt velferðarkerfi dregur úr þjóðum. Frjálshyggjumenn töldu að fyrir fullfrískt fólk ætti auðsældin að vera gulrót og fátæktin vöndurinn sem knýr það til sjálfsbjargar. Velferðarkerfið tekur hins vegar vöndinn í burtu.

Á þeim tíma, þegar Palme skrifaði skýrslu sína, var það atvinnuleysi, vaxandi fjöldi ellilaunaþega og vinnandi fólk, sem vék þá æ yngra af vinnumarkaðnum, sá vandi sem Norðurlöndin áttu við að glíma. Og þá engu síður en aðrar Evrópuþjóðir. Palme taldi að þessi vandi orsakaði þrýstingi á velferðarkerfið og gerir uppstokkun og endurskoðun nauðsynlega. Til viðbótar þessari skilgreiningu má segja að sívaxandi fjöldi innflytjenda hafi sett enn nýjar áskoranir á velferðarkerfið og líklega eru þeir helsta uppspretta óánægju kjósenda á Norðurlöndum með þróun mála. Nú sem áður er spurningin hvernig hægt sé að koma því svo fyrir, að velferðarkerfið sé hvetjandi en ekki letjandi þannig að það sökkvi ekki undan eigin þunga.    

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.