c

Pistlar:

8. október 2014 kl. 18:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fátæktin er okkar fylgikona

 

Fátæktin var mín fylgikona

frá því ég kom í þennan heim,

við höfum lafað saman svona

sjötigi vetur, fátt í tveim, -

hvort við skiljum nú héðan af

hann veit, er okkur saman gaf.

Þannig orti Jón Þorláksson á Bægisá (1744-1819) um fátækt sína og dró ekki af sér í lýsingum. Og ekki ástæða til. Það kann hins vegar að koma mörgum á óvart að fátæktin er enn í dag okkar fylgikona. Þó með þeim breytingum að hennar er helst getið í opinberum skýrslum en síður í ljóðum eða kveðskap. Við fyrstu sýn þá virðast íslensk ljóðskáld alveg hætt að fjalla um fátækt. Hugsanlega bendir það til þess að fátækt sé þeim ekki jafn hugstæð og áður. Einnig er mögulegt að hún sé ekki eins sár og aðkallandi og fyrr á tímum þegar hungurvofan knúði dyra hjá hinum fátæku. Hver sem skýringin er þá hefur umfjöllun um fátækt færst meira inn á fræðasvið og hagskýrslugerð. Það er væntanlega til vitnis um að málin séu tekin föstum tökum á Íslandi.

Hér hafa að undanförnu birst nokkrar greinar um fátækt, og þá í margvíslegu samhengi. Að þessu sinni verður tæpt á þeim skýrslum sem hafa verið teknar saman undanfarin ár hér á landi og hvaða fróðleik þær hafa að geyma. Hluti af allri þessari umræðu er skilgreiningarvandi en ekki er hægt að horfa framhjá því að stjórnmálaleg afstaða hefur alltaf nokkuð með það að gera hvernig um fátækt er fjallað.

En rannsóknir eru til alls fyrst. Af reglubundnum könnunum sem snerta lífskjör hér á landi er rétt að benda fyrst á árlegar tekjuathuganir Þjóðhagsstofnunar, vinnumarkaðs- og neyslukannanir Hagstofu Íslands og þjóðmálakannanir Félagsvísindastofnunar. Þær mörkuðu upphafið að ákveðnum þekkingargrundvelli um tekjur og lífskjör. Meiriháttar lífskjarakönnun var í fyrsta sinn gerð hér á landi, árið 1988, en sú könnun var liður í samnorrænu verkefni. Félagsvísindastofnun nýtti upplýsingar úr þessum könnunum til að taka þátt í norrænu verkefni um þróun fátæktar á Norðurlöndum tímabilið 1971--1993 (Den nordiska fattigdomens utveckling och struktur, TemaNord 1996:583).  Þá þegar voru efasemdir um hve marktækar tekjuathuganir Félagsvísindastofnunar væru.

Helstu niðurstöður kannana Félagsvísindastofnunar fyrir árin 1986-95 eru birtar í þessari norrænu skýrslu. Þar kemur fram að miðað við að fátæktarmörk séu dregin við 50% af fjölskyldutekjum hafi um 10% þjóðarinnar verið undir þessum mörkum árið 1986. Þetta hlutfall hafi síðan farið lækkandi í um 8% árið 1989 en hækkað eftir það í um 12% árið 1995. Þessar tölur verða ekki bornar með beinum hætti saman við tölur frá öðrum Norðurlöndum. Norrænu tölurnar sýna að því að virðist fyrst og fremst að fjöldi undir fátæktarmörkum helst að miklu leyti saman við hagsveifluna í hverju landi, ekki síst atvinnuástandið. Þetta kemur fram í skýrslu forsætisráðherra árið 1996 um þróun og umfang fátæktar á Íslandi, sem var unnin samkvæmt beiðni Jóhönnu Sigurðardóttur. Einn helsti kostur þeirrar skýrslu er sú viðleitni sem þar má finna til að skilgreina fátækt. Þar segir meðal annars: ,,Fyrir marga er fátæktin skammvinn. En á sama tíma eru sterk tengsl milli þess að vera fátækur á einu tímabili og á næsta tímabili." Þó að þetta sé mótsagnakennt þá má án efa finna í því sannleikskorn.

Fá­tækt verður félagsleg staðreynd á Íslandi

Bent hefur verið á hér í pistlum að svo virðist sem fræðileg umræða um fátækt nái sér ekki almennilega á strik fyrr en efnahagslegar framfarir voru orðnar verulegar. Þannig má leiða líkur að því að hin fræðilega umræða hafi færst yfir á nýtt stig þegar Harpa Njáls félagsfræðingur gaf út bók sína Fá­tækt á Íslandi við upp­haf nýrr­ar ald­ar, árið 2003. ,,Meg­inniðurstaðan er sú að fá­tækt er staðreynd á Íslandi," sagði Harpa við þetta tilefni og fullyrti um leið að 7 til 10% landsmanna lifi og búi við fátækt. Þessi framsetning og ekki síst umræða forseta Íslands fyrir kosningarnar 2006 sætti nokkurri gagnrýni á hægri væng stjórnmálanna. Þar var tali um aukna fátækt mótmælt á sama tíma og kaupmáttur hárra sem lágra jókst. Hin hlutfallslega fátækt hafði haldið innreið sína í umræðunni á Íslandi.

Fátæktarmörkin hækka

Skömmu áður eða 2005 var birt skýrsla sem þáverandi forsætisráðherra lét gera að beiðni fjölmargra þingmanna af vinstri væng stjórnmálanna. Skýrslan leiddi í ljós að 6,3 til 6,6% íslenskra barna bjuggu við fátækt á árinu 2004. Tala sem er umtalsvert hærri í dag ef tekið er mið af nýrri skýrslum eins og vikið verður að á eftir. Í skýrslunni er bent á að samkvæmt aðferðafræði OECD (sem skýrsluhöfundar studdust við) miðast fátæktarmörkin við ráðstöfunartekjur heimilanna. Af því leiðir að vegna mikillar hækkunar tekna árin á undan höfðu fátæktarmörkin hækkað um nálægt 50% að raunvirði milli áranna 1994 og 2004 sem þýðir væntanlega að kaupmáttur fátækra hefur eflst verulega, sem og annarra landsmanna á þessum tíma.  Það segir okkur væntanlega að sú umtalsverða aukning sem varð á þjóðartekjum á þessum tíma hefur skilað sér til flestra landsmanna. Í skýrslunni má finna eftirfarandi skilgreiningu á fátækt barna: ,,Í fátækt felst að foreldrar hafa ekki efni á að veita börnum sínum þau lífsgæði sem vilji er til og nauðsynleg eru talin."

Fækkaði hrunið fátækum?

Hrunið hafði sem gefur að skilja mikil áhrif á umræðu um fátækt. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gerði samning við Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands undir stjórn Stefáns Ólafssonar um gerð tveggja skýrslna sem kanna áttu áhrif fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar. Skýrslurnar voru kynntar sem ,,óháð rannsókn" þó allir viti að Stefán var hugmyndafræðilegur leiðbeinandi stjórnarinnar sem fékk hann í verkið. Hvað um það, þá eru niðurstöðurnar forvitnilegar en varla kemur neinum á óvart að þær eru óður til velferðarkerfisins. Þar segir meðal annars: ,,Niðurstöður sýna að tekist hefur að beita velferðarkerfinu á markvissan hátt til að milda áhrif kreppunnar á lægri og milli tekjuhópa."  

Í seinni skýrslunni, sem kom út í september 2012, er fullyrt að heldur færri séu undir hlutfallslegum fátæktarmörkum árið 2010 en var fyrir hrun (fór úr rúmlega 10% 2006-8 í 9,2% árið 2010), en það er algengasti mælikvarði á fátækt í nútímanum segir í skýrslunni. Sérstaklega áberandi er að hlutfall eftirlaunafólks sem er með tekjur undir 60% fátæktarmörkum lækkaði mjög mikið, eða úr 18-19% árin 2006 og 2007 niður í 4,6% árið 2010, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands eins og kemur fram í skýrslunni. En hún staðfestir líka að fátækt mælist nú minni vegna kjaraskerðingar tekjuhærri hópa. ,,Að hluta felur þessi mæling þó aukna erfiðleika allra vegna kjaraskerðingarinnar, því miðtekjurnar lækkuðu að raungildi, en fátækt er mæld sem frávik frá miðtekjum. Velferðarkerfið lyfti um 16% heimila upp fyrir fátæktarmörk árið 2006 en sá hópur hafði stækkað upp í um 25% árið 2010. Með því hefur mikilli aukningu fátæktar verið afstýrt, en veruleg hætta var á því í kjölfar hrunsins." Já, sælt er sameiginlegt skipbrot, hrunið fækkaði hinum hlutfallslega fátækum vegna þess að hinir efnameiri töpuðu mestu.

Horfa frekar til farsældar en kaupmáttar

Í október sama ár gáfu síðan Hjálparstarf kirkjunnar og Rauði krossinn í Reykjavík út skýrsluna: Farsæld - baráttan gegn fátækt. Með skýrslunni er reynt að búa til umræðuvettvang um fátækt, miklu frekar en að hún rúmi sjálfstæðar niðurstöður. Þar segir þó: ,,Umræða um fátækt er iðulega tengd kaupmætti einstaklinga og fjölskyldna en minna er horft til annarra gæða sem eru ekki síður mikilvæg forsenda farsældar. Þá eru vissir samfélagshópar eins og einstæðir foreldrar eða öryrkjar gjarnan skilgreindir sem fátækir með villandi hætti. Þannig verður samtalið ómarkvisst og lausnirnar sem bent er á ekki í samræmi við vandann sem við er að etja."  

Aftur og aftur komum við að skilgreiningarvanda þegar rætt er um fátækt. Það er ekki séríslenskt vandamál, hin alþjóðlegu viðmið eru í stöðugri þróun, ekki síður en þau íslensku. Í pistli hér á síðasta ári var bent á að frá árinu 2010 hefur verið notast við MPI vísitöluna sem vísar í mælikvarða til greiningar á fátækt. Með nýju vísitölunni var reynt að taka fleiri atriði með í reikninginn en tekjur. Þannig er reynt að ná utan um fátæktarviðmið, meðal annars með því að horfa til næringar og menntunar. Vísitalan kallast „The Multidimensional Poverty Index (MPI)" og hefur verið þróuð af Oxford háskólanum og UNDP, Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna. MPI leysti af hólmi Human Poverty Index sem tók meira til tekjuviðmiða og kom fyrst fram 1997.

Greining á fátækt með MPI viðmiðum hefur staðfest að sárafátækt er á hröðu undanhaldi í heiminum. Þau atriði sem MPI útreikningar á fátækt byggjast á eru næring, barnadauði, aldur og viðvera í skóla, orkugjafar til eldunar, vatn, hreinlæti, aðgengi að rafmangi og aðgangur að húsnæði. Það er sannarlega gleðilegt ef þessi nýju viðmið sýna okkur betur hið sanna ástand heimsins, ekki síst ef það er að batna þrátt fyrir allt.

Skýrsla sem segir að hrunið hafi aukið á fátækt

En víkjum aftur hingað heim til Íslands. Það sem af er þessu ári hafa komið tvær skýrslur um fátækt. Fyrst má nefna skýrslu Barnaheill - Save the Children á Íslandi frá því í apríl. Skýrslan er samstarfsverkefni Save the Children samtakanna í Evrópu um fátækt barna í álfunni. Skýrslan tekur til landanna 28 í Evrópusambandinu auk Íslands, Noregs og Sviss. Það er niðurstaða skýrslunnar að á Íslandi hafi hættan á fátækt og félagslegri einangrun barna aukist um 2,8% frá 2008 - 2012 og því séu um 16% barna á Íslandi í þessum hópi. Þar segir: ,,Þó að staðan á Íslandi sé að mörgu leyti góð hefur fátækt og ójöfnuður barna á Íslandi aukist frá hruni. Mörg börn búa við óviðunandi aðstæður hvað varðar húsnæði og er húsnæðiskostnaður mjög hár hlutfallslega af tekjum þeirra sem minnst hafa. Tekjur heimila, bæði hvað varðar laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Ójöfnuður er ekki einungis einn orsakavaldur fátæktar, heldur einnig afleiðing.  Börn sem alast upp við fátækt eru líklegri til að búa áfram við fátækt sem fullorðnir einstaklingar og fátæktin flyst á milli kynslóða."

Hér erum við því komin með skýrslu sem segir að fátækt og ójöfnuður hafi aukist frá hruni, sem virðist stangast á við niðurstöður Stefáns Ólafssonar. Um sumt í aðferðafræði skýrslunnar má efast. Það er til dæmis skílgreining á fátækt að komast ekki í ferðalag í sumarleyfi.

Skömmu síðar kom skýrsla Rauða krossins, Hvar þrengir að? Könnun á hvaða hópar í samfélaginu eigi helst undir högg að sækja. Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir niðurstöðum könnunar sem Rauði krossinn á Íslandi lét gera á  vormisseri 2014. Meginmarkmiðið var að kanna hvaða hópar á Íslandi standa höllustum fæti. Í þeirri skýrslu er talsverðri vinnu varið í að skilgreina fátækt en megin niðurstaða hennar er sú að tíundi hver Íslendingur búi við fátækt. Skýrslan vinnur gagnlega samantekt og veigrar sér ekki við að fara yfir ,,þriðju kynslóðar öryrkja" umræðuna. Þó ekki sé um sjálfstæða tölfræðilega rannsókn að ræða þá auðgar hún tvímælalaust umræðuna.  

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.