c

Pistlar:

18. október 2014 kl. 13:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Aukin bjartsýni í sjávarútvegi

Mun fleiri stjórnendur telja núverandi aðstæður góðar í atvinnulífinu en að þær séu slæmar. Þetta er meðal þess sem kom fram í nýjustu könnun Capacent sem gerð var fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann og kynnt var í byrjun mánaðarins. Vaxandi bjartsýni þykir meðal annars endurspeglast í auknum fjárfestingum sjávarútvegsfyrirtækja en á næstu tveimur árum er von á skipum fyrir um 28 milljarða króna. Með nýjum skipum fylgir aukið hagræði og minni mengun, meðal annars vegna minni olíunotkun.

Fjárfestingar í sjávarútvegi hafa ekki verið nægjanlegar á undanförnum árum enda hafa fyrirtækin lagt kapp á að greiða niður skuldir sem hækkuðu mikið við fall krónunnar í kjölfar hrunsins. Það hefur borið þann árangur að heildarskuldir sjávarútvegsins hafa lækkað um ríflega 150 milljarða síðan 2009. Afborganir umfram nýjar langtímaskuldir nema 121 milljörðum síðastliðin 6 ár.

Uppsöfnuð fjárfestingaþörf

Af þessu hefur einnig leitt að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í sjávarútvegi er umtalsverð og er skipaflotinn að miklu leyti úr sér genginn. Því skiptir miklu að sátt sé um framkvæmd og umfang skattheimtu á sjávarútveginn og hún þurfi að vera fyrirsjáanleg, gagnsæ og skilvirk. Mikilvægt er að eyða óvissu sem ríkt hafi um álagningu veiðigjalda. Ef það verður ekki gert verða neikvæð áhrif á fjárfestingar og hagræðingu í greininni sem dregur úr framleiðni og skerðir lífskjör.

Þessi viðhorfsbreyting skiptir miklu máli því nú eins og áður þarf sjávarútvegurinn að glíma við margvíslegar áskoranir sem rekstrarumhverfið býður uppá. Nú síðast horfur á verulega minni loðnuafla. Það erfiðasta er auðvitað náttúran sjálf, þó ekki eins og áður vegna gæfta því með nútímavæðingu fiskiskipaflotans geta sjómenn landsins nú veitt hvenær sem er við öruggustu skilyrði sem bjóðast. Það verður ekki nógsamlega brýnt hve gríðarleg breyting hefur orðið á öryggismálum sjómanna og við sem erum komin aðeins á miðjan aldur munum vel hörmungar sjóslysa. Þá mátti með reglulegu millibili sjá myndir af heilu áhöfnunum á forsíðu dagblaðanna, já jafnvel oftar en einu sinni á vetri. Á þetta er minnst hér því það er eins og sumir telji þetta sjálfsagðan hluti og tengi það ekki við þá breytingu sem hefur orðið á rekstri sjávarútvegsins með kvótakerfinu. Viðhorf til sjávarútvegs hefur áður verið gert að umtalsefni á þessum vettvangi

Framleiðni í greininni tvöfaldast

Í nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins um sjávarútveginn kemur fram að framleiðni í greininni hefur hátt í tvöfaldast frá árinu 1997. Ef framleiðni einstakra atvinnugreina á Íslandi er skoðuð má sjá að framleiðni er mest í fiskveiðum, tvöfalt meiri en meðaltal allra atvinnugreina. Fjármálaþjónusta og tryggingar koma þar á eftir en fiskiðnaður er í þriðja sæti.

framleiðni

Það þarf ekki að hafa mörg orð um hve mikilvægt er að framleiðni sá góð í sjávarútvegi, grunnatvinnugrein landsmanna. Margoft hefur verið bent á af aðilum á borð við McKinsey að framleiðni á Íslandi er lág samanborið við önnur lönd og hún væri enn lakari ef ekki væri fyrir góða framleiðni í sjávarútvegi. Þetta skiptir landsmenn miklu máli því framleiðnivöxtur er undirstaða bættra lífskjara. Til langs tíma geta raunlaun t.d. ekki hækkað umfram framleiðni. Við höfum ekki séð viðlíka framleiðniaukningu í neinni annarri atvinnugrein á Íslandi og hefur þó afstaða stjórnvalda stundum orðið til að hægja á þróuninni, meðal annars með því að koma í veg fyrir fjárfestingar með ofurskattlagningu.

Þriðjungur hagnaðar til ríkisins

Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir að sjávarútvegurinn greiði sitt. Í áðurnefndri greiningu efnahagssviðs SA kemur einnig fram að íslenskur sjávarútvegur greiddi um þriðjung af hagnaði sínum til ríkisins á árinu 2013 á meðan aðrar atvinnugreinar greiddu almennt um 20%. Íslenskur sjávarútvegur nýtur sérstöðu á alþjóðavettvangi því það er nánast ófrávíkjanleg regla að sjávarútvegur njóti ríkisstyrkja annars staðar. Ísland er eina landið innan OECD þar sem skattar á sjávarútveg eru meiri en ríkisstyrkir. Þetta kom m.a. fram í máli Ólafs Garðars Halldórssonar, hagfræðings, sem kynnti niðurstöðurnar á Sjávarútvegsdeginum sem fór fram í Hörpu fyrr í mánuðinum. Ólafur Garðar benti t.d. á að sjávarútvegsstyrkir alls í heiminum hafa verið metnir um 35 milljarðar Bandaríkjadala, þar af tæpir 9 milljarðar í Evrópu.

Í skýrslu Ólafs Garðars kom fram að sérstakt veiðigjald hefur aukið skattbyrði sjávarútvegsins verulega en veiðigjöld voru yfir 6% af heildaraflaverðmæti á árunum 2012 og 2013 eftir að sérstaka veiðigjaldið var lagt á. Þetta er umtalsverð hækkun en fyrir þann tíma var veiðigjaldið oftast í kringum 1% af heildaraflaverðmæti.

Til að skilja mikilvægi sjávarútvegs þá var beint framlag sjávarútvegs 10% af VLF árið 2013. Framlag sjávarklasans, þ.e. sjávarútvegs og tengdra greina, var metið 26% af VLF árið 2010. Ísland er og verður háð þessari undirstöðuatvinnugrein, við skulum ekki gleyma því.    

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.