c

Pistlar:

22. október 2014 kl. 21:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Verslun á Íslandi í vörn

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu smásöluverslunar á Íslandi, sérstaklega fataverslun. Þrátt fyrir aukna neyslu þá virðist verslun vera að dragast saman á sumum sviðum. Þetta fer ekki hátt enda hefur oft ríkt heldur undarleg afstaða til verslunar í þjóðfélaginu, kannski eitthvað sem við sækjum aftur til hörmangara eða einokunarverslunar fortíðarinnar.

Fyrir stuttu stóð Landsbankinn fyrir morgunfundi um verslun og þjónustu. Þar kom meðal annars fram að nú sex árum eftir fall fjármálakerfisins er einkaneysla íslenskra heimila langt undir sögulegu meðalatali. Ný úttekt Hagfræðideildar Landsbankans, sem var kynnt á fundinum, leiddi í ljós ekkert þróað ríki er með minni einkaneyslu sem hlutfall af landsframleiðslu. Jafnvel þó að einkaneysla verði að endurspegla framleiðni og framleiðslu í hverju landi þá má hafa af þessu áhyggjur. Þróttmikil verslun er nauðsynleg til að tryggja landsmönnum ríkulegt og gott vöruúrval á samkeppnishæfu verði. Ef þar hefir orðið misbrestur er ástæða til að skoða málið vandlega. Sérstaklega ef um er að ræða ójafna samkeppni við útlönd.

Ójöfn samkeppni og nýjar ógnanir

Jón Björnsson, forstjóri hjá Festi sem meðal annars á Krónuna, Elko og Intersport kom inn á þetta á fundinum en hann fjallaði um ójafna samkeppni íslenskra smásala við verslun í útlöndum. Jón benti meðal annars á að fatnaður bæri mun hærri tolla og skatta en í nágrannalöndunum. Barnafatnaður á Íslandi bæri t.d. 40% hærri opinber gjöld en í Bretlandi. Jón hefur reiknað út að ef tollur á fatnað yrði afnuminn og ef með því tækist að ná þriðjungi af fataverslun Íslendinga í útlöndum inn í landið, mætti auka tekjur ríkisins um einn milljarð króna.

verslun

Fleiri erindi voru forvitnileg. Jón Diðrik Jónsson, fjárfestir, fjallaði einnig um tækifæri og ógnir (fyrir smásala) sem fælust í aukinni netverslun. Netið breytti miklu og enn meiri breytingar væru í farvatninu. Hann benti m.a. á að búist væri við að á næstu fimm árum myndi allt að 20% af því fjármagni sem smásalar verja til markaðssetningar verða tengd samfélagsmiðlum. Sífellt mikilvægara væri fyrir smásölufyrirtæki að búa yfir þekkingu á markaðnum. Þá sagði hann að samkeppni innlendrar verslunar við netverslun væri ekki á samkeppnisgrundvelli. Við höfum séð gríðarlega aukningu í netverslun frá Kína (Alibaba) sem getur orðið erfitt fyrir innlenda verslun að keppa við eins og Jón Diðrik benti á. 

Verðmætasköpun í verslun

„Verslun er verðmæt atvinnugrein og í vel rekinni verslun er fólgin mikil verðmætasköpun. Heil stórveldi eins og Feneyjar og Flórens fyrir bráðum þúsund árum voru byggð eingöngu á verslun. Engin framleiðsla en gífurleg verðmætasköpun. Og versluninni fylgdu tengsl við aðra heimshluta og tengslunum fylgdi mikil menningarleg gerjun, listir og menning blómstruðu. Endurreisnin hófst í Flórens og Feneyjum, í skjóli blómlegra viðskipta."

Þannig hóf Sigurður Gísli Pálmason ræðu sína í 25 ára afmælisveislu Kringlunnar sem haldin var fyrir rúmum tveimur árum síðan. Ég hef leyft mér áður að vitna til þessara orða hans. Velgengni verslunarmiðstöðva hér á landi, Kringlunnar og síðar Smáralindar, er til marks um hve mikilvæg verslun er í öllu mannlífi og að sjálfsögðu efnahagslífinu öllu. Verslun er því atvinnugrein sem ber að gefa gaum og tryggja þarf að eðlileg samkeppnisskilyrði séu fyrir hendi.

Staðreyndin er sú að verslun hefur líklega gert hvað flestar íslenskar fjölskyldur efnaðar enda oftar en ekki um að ræða lítil fjölskyldufyrirtæki í upphafi. Af því má vera ljóst að verðmætasköpun leiðir ekki endilega til jöfnuðar, það sést hvað best í verslun. Að mati Sigurðar Gísla er frjáls verslun einmitt sú atvinnugrein sem er örlátust á tækifæri til handa þeim sem byrja með tvær hendur tómar. Adam Smith orðaði hlutverk verslunar með eftirfarandi hætti: „Gefðu mér það sem ég vil fá og þú skalt fá það sem þú vilt." Þessi gagnkvæmni hefur verið lykilþáttur í verslun í gegnum aldirnar. Færa má fyrir því sannfærandi rök að næst á eftir akuryrkjunni hafi verslun verið mikilvægust í því að móta samfélög manna eins og þau eru í dag. Enda er það klassísk hagfræðikenning að auðlegð þjóða stafi fyrst og fremst af viðskiptum og verkaskiptingu. Um þetta fjallar Bretinn dr. Matt Ridley en nýlega kom út bók hans, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist: How Prosperity evolves), á íslensku. Ridley bendir þar á:

,,Meira felst í vöruskiptum en gagnkvæmni. Ef litið er framhjá aflúsun getum við spurt okkur hve margar athafnir í lífinu borgi sig að framkvæma fyrir einhvern sem framkvæmir sömu athöfn þess í stað. „Ef ég sauma nýjan kjól fyrir þig í dag getur þú saumað nýjan kjól fyrir mig á morgun." Ekki væri mikill ávinningur af þessu og engin arðsemi. „Ef ég sauma föt á þig veiðir þú í matinn." Þetta færir hins vegar ávinning og hefur þann undursamlega eiginleika að skiptin þurfa ekki einu sinni að vera sanngjörn. Í virkum vöruskiptum er ekki nauðsynlegt að tveir einstaklingar bjóði fram jafnverðmæta hluti. Verslun fylgir oft ójöfnuður en báðir aðilar hafa þó ávinning. Fæstir virðast átta sig á þessu atriði."

Um bók Ridley verður fjallað nánar síðar hér í pistli.    

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.