c

Pistlar:

17. janúar 2015 kl. 15:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Eru landsmenn þreyttir á stöðugleikanum?

Í íslenska hagkerfinu er fágætur stöðugleiki um þessar mundir. Hægt er að hafa margvíslegar skoðanir á því hvað veldur honum og hve traustur hann er, en stöðugleiki ríkir eigi að síður. Segja má að nú þegar ársverðbólgan er innan við 1% og við sjáum verðhjöðnun á ýmsum sviðum sé umræðan dálítið ráðvillt. Einstaka fjölmiðlar hafa meira að segja séð ástæðu til að gera frétt um að verðhjöðnun sé nú ekki svo góð - eins og líklegt sé að slíkt fyrirbæri fari að festa sig í sessi hér á landi! Innan launþegahreyfingarinnar koma ummæli á þá veru að stöðugleikinn sé nú bara svona og svona: „Það sem ég hef heyrt er að fólk er orðið frekar þreytt. Fólk kaupir ekki þetta stöðugleikatal stöðugt. Stöðugleiki er í raun krafa um stöðnun fyrir verkafólk og það er ekki í boði,“ sagði framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins fyrir stuttu í viðtali við Ríkisútvarpið. Er stöðugleiki í íslensku hagkerfi virkilega orðin svo sjálfsagður að við getum leyft okkur að tala svona?

Í febrúar næstkomandi verða 25 ár liðin frá þjóðarsáttarsamningunum en margir horfa til þeirra sem einhverrar merkilegustu hagstjórnaraðgerðar sem hér hefur verið reynd. Og engin vafi er á að þeir voru grundvöllur efnahagslegs stöðugleika á næstu árum. Slíkur stöðugleiki var einnig  markmið kjarasamningasamninganna fyrir rúmu ári. Þó að öll markmiðin hafi gengið eftir virðist niðurstaðan ekki vera grundvöllur langrar sáttar. Og það þrátt fyrir að launþegar hafi fengið raunverulega kjarabót en þeir sem efast um gildi lágrar verðbólgu ættu að skoða greiðsluseðla vertryggðra lána sinna í heimabankanum. Höfuðstólinn lækkar skarpt þessi misserin og munar um minna. Skuldastaða heimila og fyrirtækja batnar og fólk getur gert skynsamari og raunhæfari áætlanir. Er slíkur stöðugleiki „þreytandi“? Finnst fólki virkilega þess virði að setja allt upp í loft vegna óviss krónuávinnings sem getur horfið á svipstundu í kjölfar nýrrar holskeflu verðbólgu?

Bæta þarf kaupmátt þeirra sem hafa lægstu launin

Vissulega eru lægstu launin of lág á Íslandi, um það þarf ekki að deila. Þau geta hins vegar aldrei hækkað að raungildi nema í stöðugu hagkerfi þar sem framleiðniaukning á sér stað. Það verður líka að hafa í huga að það er fólkið sem er á lægstu laununum sem á mest undir að verðbólgan sé stöðug. Verðbólguskot heggur fyrst í þeirra kjör þannig að krónutöluhækkanir einar og sér auka ekki kaupmátt þessa hóps.

Samtök atvinnulífsins (SA) tala nú fyrir hóflegum launahækkunum til að tryggja stöðugleika. En verkalýðsfélög innan ASÍ benda á samninga um meiri launahækkanir en þeir sjálfir sömdu um í fyrra. Því verður ekki trúað fyrr en á reynir að menn kjósi að fara aftur í ferli víxlhækkana launa og verðlags þar sem verðbólga mælist í tveggja stafa tölu og jafnvel hærri.

Í Morgunblaðinu í dag er bent á að árleg launahækkun upp á 3,5% skilar 4% kaupmáttaraukningu, meiri kaupmætti en ef launahækkanir yrðu 30% í takti við kjarasamning lækna. Síðarnefnda leiðin myndi skila 2% kaupmáttaraukningu en vegna mikillar verðbólgu myndi gengið falla umtalsvert og leiða til hækkunar á verðtryggðum lánum heimilanna. Mikil nafnlaunahækkun myndi því skilja heimilin eftir í mun lakari stöðu.

Þetta kemur fram í samanburði sem Samtök atvinnulífsins (SA) hafa gert á tveimur mismunandi sviðsmyndum. Í annarri er það gefið að nafnlaunahækkanir verði 3,5% á ári næstu þrjú árin og í hinni að læknasamningarnir gangi yfir línuna og uppsöfnuð nafnlaunahækkun verði 30% á þremur árum.

Læknasamningur á línuna jafngildir 500 milljarða hækkun lána

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að niðurstaðan af samanburði þessara sviðsmynda er að uppsafnaður kaupmáttur af launahækkunum í takti við læknasamning verði 2%, þrátt fyrir 30% launahækkun á tímabilinu. Þetta birtist í mynd sem birt er hér með og finna má í Morgunblaðinu í dag. Á sama tímabili myndi 3,5% árleg launahækkun skila 4% kaupmáttaraukningu í lok tímabilsins.læknasamningur

Mikill munur er á verðbólguáhrifum. Uppsöfnuð verðbólga í læknasviðsmyndinni er 28% á samningstíma en 7% í tilviki 3,5% árlegra hækkana. Í samanburðinum er aðeins litið til kaupmáttar launa en ekki ráðstöfunartekna. Mikilli verðbólgu samhliða miklum launahækkunum fylgir mikil hækkun verðbóta og vaxta, að því er fram kemur. Hækkun verðlags um 28% hækkar verðtryggð lán heimilanna um 500 milljarða króna samanborið við um 120 milljarða hækkun miðað við 7% verðlagshækkun. Þetta er meðal annars gjaldið fyrir óraunhæfar launahækkanir.

Tökum ekki eftir stöðugleikanum

Um hver áramót eru yfirleitt miklar fréttir af hækkun verðlags og þjónustu. Hugsanlega tekur fólk ekki eftir þegar þessar fréttir berast ekki, svo sjálfsagður verður stöðugleikinn þegar við njótum hans. Árið 1990 voru verðlagshækkanir um 15% á milli ára, minna en menn höfðu séð árin á undan en allir sáttir um að þessu yrði að breyta. Á því ári voru einmitt svonefndir þjóðarsáttarsamningar gerðir. Þau tímamót sem þeir mörkuðu voru að ná verðlagshækkunum hér á landi niður á það stig sem menn þekktu bara af afspurn í nágrannalöndunum. Verðbólgan árið 1991 varð 6,8% og næstu tvö árin þar á eftir í kringum 4%. Ólíklegt er að nokkurn hafi dreymt um að sitja með verðbólgu af því tagi sem nú þekkist í kjölfar þjóðarsáttarsamninganna. Þess grætilegra er, ef menn kasta því fyrir róða af því að þeir eru þreyttir á stöðugleikanum.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.