c

Pistlar:

25. janúar 2015 kl. 15:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hagur heimilanna vænkast umtalsvert

Í síðustu viku birtust nokkrir hagvísar sem benda til þess að hagur heimilanna í landinu hafi vænkast umtalsvert á síðastliðnu ári. Þannig komu fram upplýsingar um hraðan vöxt kaupmáttar launa á árinu, talsverða hækkun verðs íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, aukningu í vinnuaflsnotkun og minnkandi atvinnuleysi. Ljóst er að staða heimilanna nú í upphafi árs 2015 hefur ekki verið betri síðan fyrir hrun bankakerfisins 2008. Greiningaraðilar telja að hagur heimilanna vænkist enn frekar í ár.

Fyrir  nokkrum dögum gerði pistlaskrifari sér það að leik að grípa nokkra umræðupunkta sem birtust í blöðum dagsins en fóru samt ekki hátt í umræðunni. Svona litu punktarnir út:

  • Aukning kaupmáttar launa á milli ára sú mesta sem mælst hafði frá árinu 1998.
  • Olíuverð óvenju lágt
  • Álverð að hækka
  • Viðskiptakjör að batna
  • Loðnan byrjuð að veiðast
  • Síldin mun ekki drepast í Kolgrafarfirði þetta árið
  • Kolmuni byrjaður að veiðast
  • Ekkert lát á aukningu ferðamanna
  • Umtalsverð veltuaukning í byggingariðnaði
  • Umtalsverð framleiðniaukning  í mjólkuriðnaði á síðasta ári samfara aukinni sölu
  • Á tímabilinu hefur atvinnuþátttaka aukist um 0,1 prósentustig,
  • Atvinnuleysi lækkað um 0,3 stig
  • Hlutfall starfandi aukist um 0,3 stig.
  • Skuldir einstaklinga og fyrirtækja að lækka

Nú er það svo að aldrei verður séð fyrir hvað vekur mestan áhuga í umræðunni hverju sinni en ljóst er að ef þessir þættir hefðu verið á hinn veginn þá hefði umræðan verið meira áberandi. Nú þýðir þetta ekki að öll vandamál Íslendinga séu fyrir bý. Öðru nær, að mörgu þarf að hyggja og það sem áunnist hefur getur verið fljótt að glatast. Þess mikilvægara er að leggja sanngjarnt og skynsamlegt mat á stöðuna eins og hún er núna og hvernig rétt er að halda á málum á næstunni. Sem fyrr bíða miklar áskoranir.

Greiningardeild Íslandsbanka gerði stöðu mála að sérstöku umtalsefni í Morgunkorni sínu síðasta föstudag. Þar var bent á að laun hækkuðu á síðasta ári um 5,8% frá árinu 2013 samkvæmt launavísitölu Hagstofa Íslands sem birt var fyrr í vikunni. Er þetta viðlíka hækkun launa og var 2012 en öllu minni hækkun en bæði árin 2011 og 2010.visitala

En mest um vert er þó samspil kaupmáttaraukningar og verðbólgu. Um það segir í Morgunkorni: „Atvinnutekjur íslenskra heimila voru 1.030 ma.kr. árið 2013, og í því sambandi skilaði ofangreind hækkun launa heimilunum umtalsverðri fjárhæð. Það sem skiptir heimilin hins vegar ekki síður máli er að verðbólgan var lítil á síðasta ári, eða 2,0% að jafnaði, sem gerði það að verkum að hækkun launa í fyrra skilaði meiri kaupmáttarauka en sést hefur hér á landi síðan 2007. Var kaupmáttaraukningin 3,7% en þess má geta að á árinu 2007 jókst kaupmáttur launa um 3,8% og var það þá mesta aukning kaupmáttar launa á milli ára sem mælst hafði frá árinu 1998.”

Kröfugerð miðast við tvísýnu

Já er ekki ástæða til að stoppa við. Íslensk heimili hafa ekki upplifað meiri kaupmáttaraukningu um árabil. Er það ekki eftirtektarverð staðreynd, nú þegar mikil óvissa ríkir með gerð komandi kjarasamninga og kröfugerð miðast við að ráðast út í þá tvísýnu sem felst í víxlhækkun launa og verðlags. Treysta þeir sem fara fram með slíka kröfugerð sér til þess að lofa umbjóðendum sínum kaupmáttaraukningu eins og þeirri sem unnt hefur verið að ná fram í stöðugleika eins og hefur ríkt síðasta ár? Að þessu var vikið í pistli hér í síðustu viku.

Kaupmáttur launa var í lok síðastliðins árs orðinn svipaður og hann var þegar hann var mestur á þensluskeiðinu fyrir hrun bankanna 2008. Hafði hann þá aukist um 15,6% frá því að hann var minnstur eftir hrunið. Segja má að hér sé um markverðan árangur að ræða, a.m.k. ef borið er saman við þá kaupmáttaraukningu sem verið hefur í flestum nálægum ríkjum á sama tíma eins og greiningardeildin bendir á.

Spáin sem gæti ræst!

Hér í lokin verður birt spá greiningardeildar Íslandsbanka. Ekki endilega vegna þess að það sé líklegt að hún rætist því margir eru svartsýnir á þá þróun sem samningar á vinnumarkaði eru að taka. Spáin er hins vegar áminning um það hvernig mál geta þróast á næstunni:

„Við spáum því að hagur heimilanna komi til með að halda áfram að batna á þessu ári. Spáum við því að laun muni hækka um 6,6% yfir þetta ár og að verðbólgan verði 2,0% samkvæmt okkar nýjustu verðbólguspá sem birt var nú um miðjan janúar. Kaupmáttur launa mun því aukast talsvert á árinu gangi þessi spá eftir, þó aukningin verði heldur minni en yfir þetta ár. Einnig reiknum við með því að húsnæðisverð hækki umtalsvert í ár þó við væntum einnig hægari hækkunar þar en á síðasta ár. Raunverð íbúða mun halda áfram að hækka samkvæmt okkar spá. Eiginfjárstaða heimilanna í húsnæði mun því styrkjast enn frekar á þessu ári gangi spáin eftir.”

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.