c

Pistlar:

31. janúar 2015 kl. 14:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Merk bók um horfna atvinnuhætti

Fyrir stuttu var hér umsögn um bók Óskars Jóhannssonar, Kaupmaðurinn á horninu, en hún kom út fyrir síðustu jól. Árið áður kom út æskuminningabók Óskars, Bernskudagar, sem greinir frá uppvaxtarárum hans í Bolungarvík og í Ísafjarðardjúpi. Í lokin er sagt stuttlega frá því er hann kom til Reykjavíkur 1940 þegar hernámið var að taka á sig mynd. Bók Óskars um kaupmannsárin var upplýsandi og áhugaverð en æskusaga hans er sérlega áhrifarík. Í raun er ótrúlegt að fá svona frá fyrstu hendi lýsingar á þeim erfiðleikum sem alþýða manna varð að þola vestur á fjörðum og það ekki fyrir svo löngu síðan. Óskar er einstaklega minnugur og hafði þar að auki skráð niður minningarbrot endrum og eins. Einnig styðst hann við bréfaskriftir ættingja. Sagan hans er því einstök heimild um þjóðlífið á Íslandi fram að seinni heimsstyrjöld. Bernskudagar er gefin út af litlu forlagi og virðist því miður hafa farið framhjá mörgum. bernskudagar

Óskar er fæddur í Bolungarvík 1928. Hann missir föður sinn aðeins fjögurra ára og er átakalegt að lesa frásögn hans af því. „Pabbi lést úr krabbameini seint í ágúst 1932 eftir að hafa legið heima í eina herberginu í litla húsinu okkar á fjörukambinum í Bolungarvík í tæplega eitt ár. Enginn var spítalinn, engir peningar fyrir læknishjálp og engin von um bata.” Þar með stóð móðir Óskars uppi sem ekkja 27 ára gömul með sex börn á aldrinum eins til tíu ára. Allir urðu að vinna sitt. Tæplega sex ára að aldri fór Óskar að vinna fyrir sér á sumrin, í sveit hjá ókunnu fólki. Öll sumur var hann í sveit þar sem unnið var alla daga vikunnar. Annað þekktist ekki.

Um þetta segir Óskar: „Ég tók þátt í lífsbaráttu sem þjóðin hafði með svipuðum hætti búið við mann fram af manni, öldum saman. Strit frá vöggu til grafar, stanslaus ótti og barátta við hungur, kulda, myrkur og sjúkdóma ásamt barnadauða sem engin ráð fundust við.” Fyrir vikið vantaði framan og aftan á barnaskólagöngu Óskars. Hann varð því að láta sér nægja að sækja sinn lærdóm að mestu utanskóla, sem dugði honum þó vel síðar á ævinni en hann var um árabil í ábyrgðarstörfum fyrir kaupmenn í Reykjavík ásamt talsverðum umsvifum í verslunarrekstri.

Óskar segir af glöggskyggni frá þeim atvinnuháttum sem hann kynnist í æsku en margt hafði verið að breytast og var að breytast. Stundum undrast maður þó enn hve gamaldags vinnubrögð voru enn við lýði norður í Ísafjarðardjúpi þegar Óskar er að alast upp. Hafa verður í huga að Íslendingar voru seinni til en flestar aðrar vestrænar þjóðir að taka upp sérhæfingu, verkaskiptingu og þéttbýlisbúsetu sem því fylgir. Það birtist með skýrum hætti í frásögn Óskars. En þegar þessi þróun komst af stað gekk hún mjög hratt fyrir sig. Það er ljóst að sagan úr sveit í bæ gerðist á fyrri helmingi tuttugustu aldar og er líkast til afstaðin með öllu. Þeir fólksflutningar sem áttu sér síðar stað voru fremur á milli þéttbýlisstaða, frá þeim smærri til þeirra stærri. Það er barátta sem við Íslendingar erum en að heyja og sést kannski best í hinu svokallaða Fiskistofumáli.

Lifir gamla búskaparhætti

Það tímabil sem Óskar rekur hér í bernskusögu sinni var mótandi fyrir framhaldið í atvinnusögu þjóðarinnar. Á hálfri öld, 1900–1950, flutti helftin af þjóðinni búferlum úr sveitunum og til þéttbýlisstaða hringinn í kringum landið. Eins og áður sagði lifir Óskar gamla búskapahætti og tiltekur meira að segja að hann hafi líklega verið með síðustu Íslendingum til að hafa þann starfa að „sitja hjá” kindum.

Það er eitt einkenni frásagnar Óskars að honum liggur ekki illt orð til nokkurs manns. Frásögnin er upplýsandi og reiðilaus. Hann segir frá hlutunum eins og þeir voru, tiltekur að fólk hafi ekki kvartað á þessum tíma. Einfaldlega vegna þess að það var tilgangslaust. Lífsbaráttan var svo hörð að það mátti ekki út af bregða. Þrátt fyrir allt virðist fólk hafa staðið saman. Til marks um það er frásögn af fyrstu jólunum eftir að faðir Óskars deyr. „Þessi fyrstu jól eftir að pabbi dó urðu ógleymanleg, ekki síst vegna þess að Bjarni Eiríksson kaupmaður og Halldóra Benediktsdóttir kona hans buðu mömmu með allan hópinn heim til sín á annan jóladag. … Þótt ég hafi aðeins verið fjögurra ára gleymi ég ekki jólunum hjá þessu góða fólki sem bætti sjö manna fjölskyldu við jólaborðið hjá sér.” Óskar tiltekur að Bolungarvík hafi skorið sig úr, þar hafi aldrei verið óvinsælir kaupmenn.

Óskar fæðist í sjávarþorpi en vinnur samt mest við landbúnaðarstörf. Hann lifir miklar breytingar. Eftir 1880 fór fólk að flykkjast til sjávarsíðunnar, störfum við fiskveiðar fjölgaði með skútuöld og síðar vélvæðingu bátaflotans og tilkomu togaraútgerðar. Vinna í landi fór einnig vaxandi með auknum afla og fjölbreyttari sjávarútvegi. Þessir hlutir voru að breytast í Bolungarvík sem var að þróast yfir í þann útgerðarstað sem kunnur varð, meðal annars af umsvifum Einars Guðfinnssonar sem kallaður var „ríki.”

Hröð þéttbýlismyndun

Á sama tíma og Óskar lifir sína bernskudaga við strit fyrir vestan eru miklar breytingar að eiga sér stað á samfélagsmynstrinu. Á Íslandi voru rúmlega 40% þjóðarinnar búsett í þéttbýli með fleiri en 200 íbúa um 1920. Þrjátíu árum seinna, eða um 1950, hafði sama hlutfall hækkað í 75%. Óskar fylgir straumnum og flyst til Reykjavíkur um það leyti sem herinn er að setjast hér að. Gaman er að lesa frásögn hans af komunni til Reykjavíkur og upplifun sveitadrengsins sem nokkrum dögum áður hafði farið í fyrsta skiptið í bíó. Hann er fljótur að læra tökin, er úrræðasamur og athugull (e. street smart). Braggar og hermenn móta bæjarlífið og uppgangur ríkir með margvíslegum afleiðingum. Allt er að breytast og það er kannski sú vissa sem frásögn Óskar færir okkur, að það eitt er víst að allt breytist!

Í inngangi Bernskudaga segir Óskar: „Ótrúlegar breytingar hafa orðið í lífi þjóðarinnar á okkar dögum. Þótt ekki sé langt síðan er ég smeykur um að ungt fólk í dag eigi bágt með að skilja hvernig fólk gat lifað við þær aðstæður sem upp á var boðið í mínu ungdæmi. Það bjargaði okkur að við vissum ekki að annað væri til.”

Frásögn Óskars er áhrifarík, hreinskilin og upplýsandi. Hún minnir okkur á að það er ótrúlega stutt síðan stór hluti landsmanna bjó við kröpp kjör og erfiða lífshætti. Þetta er saga sem þarft er að rifja upp og frásögn Óskars mikilsverð. 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.