c

Pistlar:

6. febrúar 2015 kl. 11:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Áhugaverð framkvæmd við Hagavatn

Stundum er eins og búið sé að reisa þvílíkar girðingar í kringum framkvæmdir í landinu að menn eru hættir að sjá hið augljósa. Eitt slíkt tilfelli er Hagavatnsvirkjun, sunnan Langjökuls, sem hefur verið í alllangan tíma á teikniborðinu en virðist þokast lítt áleiðis. Og það þrátt fyrir að margir telji framkvæmdina hið mesta þarfaþing. Hún hefur umhverfisbætandi áhrif og er arðsöm í alla staði. Með því að stífla útfallið og stækka Hagavatn fer gamli vatnsbotninn á kaf og ekki fýkur meiri sandur inn á gróið land. Þessu er hægt að fylgja eftir með því að sá melgresi sunnan við fyrirhugað lón og hefta sandinn enn frekar. Þetta er álit Sigurðar Greipssonar, prófessors í Bandaríkjunum eins og var rakið með ágætum í fréttaskýringu í Morgunblaðinu fyrir í vikunni. Flestir heimamenn virðast vera á svipaðri skoðun.

En í Morgunblaðinu í dag kveður við annan tón. Þar er viðtal við Jón Viðar Sigurðsson, jarðfræðing og fararstjóra. Hann telur að sandfok sé ekki ekki upprunið af vatnsbotninum sem hafi reyndar gróið upp samhliða því að vatnið hopar. Undir þetta tekur Ólafur Arnalds, jarðvegsfræðingur og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.hagavatn

Vernda það sem ekki var

Hér er augljóst að sjónarmiðum fræðimanna ber ekki saman. Það blasir líka við að menn sjá hlutina með afskaplega ólíkum hætti og varla hægt að tala um verndar- eða virkjanasinna í þessu sambandi. Verndarsinnar við Hagavatn eru þeir sem vilja vernda ástand sem er nýtilkomið. Virkjanasinnar vilja hins vegar reyna að endurheimta fyrra ástand! Svona geta nú hlutir stundum orðið öfugsnúnir. Náttúran lætur hins vegar ekki að sér hæða. Á svæðinu hafa orðið miklar breytingar og einsýnt að það mun verða áfram, hvort sem jöklar hopa eða skríða fram. Upphafið má rekja til þess að jökulinn hljóp fram á fyrri hluta 20. aldar og þá fann affallið sér nýjan farveg (kallað Farið) og það lækkaði í vatninu .

Ég spurði mann gjörkunnugan staðháttum um ástandið. Hann sagði að það væru líkur á því að eitthvað örlítið meiri gróður sé í uppþornaða vatnsbotninum núna en var árið 1929 – en það er ekki mikið – það þekkir hann af eigin raun. Og bætti við:  „Svæðið í kringum gamla vatnið er nánast eins og helvíti á jörð um leið og þar hreyfir vind.  Búið er að færa skálann sem upphaflega var settur þar uppi við vatnið niður fyrir Mosaskarðið í skjól. Biskupstungnamenn þekkja vel að það var ekki hægt að hengja út þvott á snúrur í 40-50 ár eftir þessar breytingar þó það hafi vissulega eitthvað skánað síðustu árin enda kominn bráðum 90 ár síðan þetta gerðist.”

Heimamenn hafa lengi barist fyrir breytingum þar. Gísli heitinn Sigurðsson blaðamaður og listamaður þekkti svæðið öðrum betur. Gott er að kynna sér ítarlega frásögn hans í Lesbók Morgunblaðsins frá 1997. Þar segir hann meðal annars um framkvæmdina. „Stíflan sem þarna var fyrirhuguð, átti að loka fyrir útfallið um Nýjafoss og verða til þess að vatnið stækkaði nálega um tvo þriðju hluta; yrði 13,5 ferkm í stað 5. Vonir um batnandi tíð fyrir gróðurfar á Haukadalsheiði, innst í Lambahrauni og raunar á öllu svæðinu vestur á Rótasand og að Hlöðufelli og Þórólfsfelli, voru reistar á því að gamli vatnsbotninn færi á ný undir vatn. Hann er að flatarmáli 8,5 ferkm.”

Heimamenn vilja hefta sandfok

Það kemur því ekki á óvart að það hefur lengi verið áhugamál heimamanna í Biskupstungum að hefta sandfok sunnan Langjökuls með því að stækka Hagavatn þannig að það nái fyrri stærð til þess að hefta sandfok úr gamla vatnsbotninum. Mikið fok er á þessu svæði yfir gróið land. Mistur vegna moldroks er oft sjáanlegt og nær það stundum yfir byggð á Suðurlandi og jafnvel til höfuðborgarsvæðisins. Þetta þekkja allir sem koma í uppsveitir Árnessýslu og styður þá lýsingu sem hér var að framan.

En það eru ekki bara virkjanasinnar og heimamenn sem vilja virkja við Hagavatn. Landgræðslan hafði á sínum tíma áhuga á að hækka vatnsyfirborð Hagavatns til að draga úr sandfoki. Fékkst leyfi hjá Skipulagsstofnun fyrir framkvæmdinni, að afloknu umhverfismati, en umhverfisráðuneytið hnekkti því og krafðist frekara mats. Að mati ráðuneytisins lágu ekki fyrir rannsóknir sem studdu þá fullyrðingu að sandfokið mætti rekja til Hagavatns og Sandvatns, frekar en til nærliggjandi svæða suður og suðvestur af Hagavatni. Þar er tekið undir þau sjónarmið sem Jón Viðar varpar fram í dag.

Áhugaverður virkjunarkostur

Vitaskuld skiptir máli að þarna má með góðu móti sækja 20 MW og hugsanlega 30 MW.  Virkjanakosturinn er hagkvæmur ef menn nálgast málið með réttum hætti, meðal annars til að vega á móti háum kostnaði við tengingu við dreifikerfið. Um nokkurt skeið hefur verið unnið að undirbúningi virkjunar og verulegir fjármunir verið lagðir í rannsóknir á áhrifum hennar. Virkjunin fékk ekki „fullnægjandi mat“ við 2. áfanga rammaáætlunar og lenti því í biðflokki. Óvissa var talin ríkja um áhrif virkjunarinnar á sandfok á svæðinu, útivist og ferðaþjónustu.

Hagavatnsvirkjun var meðal þeirra átta orkukosta sem þáverandi umhverfisráðherra fól nýrri verkefnastjórn að meta að nýju fyrir áfangaskýrslu í byrjun síðasta árs. Nýja verkefnisstjórnin greiddi ekki úr þessum óvissuþáttum, enda hafði hún skamman tíma til að vinna álit sitt, og færði virkjunina ekki úr biðflokki í nýtingarflokk eins og lá þó beint við. Auk þeirra óvissuþátta sem fyrri verkefnisstjórn nefndi taldi sú nýja að óljóst væri hvernig tengingu virkjunarinnar við flutningskerfið yrði háttað. Það er úrlausnarefni sem verður auðveldara að fást við eftir því sem tækninni fleygir fram.

Þar með hefði skapast ný óvissa um fyrirkomulag og áhrif línulagna frá virkjuninni og samlegðaráhrif virkjunar og flutningskerfis. Því taldi verkefnisstjórn um rammaáætlun sig ekki hafa forsendur til að meta virkjunarkostinn án aðkomu fullskipaðra faghópa eins og rakið var ágætlega í Morgunblaðinu. Hagavatnsvirkjun er því enn í biðflokki með þeim áhrifum sem það hefur. Þótt heimilt sé að vinna að orkurannsóknum svo framarlega sem framkvæmdir vegna þeirra þurfi ekki að fara í umhverfismat, benda heimamenn á að erfitt sé að fjármagna rannsóknir á virkjanakostum sem séu fastir í biðflokki. Of mikil áhætta fylgi því.

Ég mun fjalla frekar um þessa áhugaverðu virkjun í næsta pistli.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.