c

Pistlar:

14. mars 2015 kl. 14:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Baráttan um störfin

Um allan heim er lögð mikil áhersla á að skapa ný störf. Í samfélögum þar sem atvinnuleysi er landlægt er það skiljanlegt en meira að segja lönd með gott atvinnuástand freista þess að fá til sín öflug og stór fyrirtæki með nýja starfsemi. Þannig hafa komið hingað stór alþjóðleg iðnfyrirtæki á sviði álvinnslu sem skapa ný og eftirsótt störf. Við þau hafa verið gerðir sérstakir fjárfestingasamningar sem og við önnur erlend fjárfestingaverkefni og er það í takt við það sem gerist víðast um heim. Fyrsti slíki samningurinn var fjárfestingasamningur milli Íslands og Alusuisse árið 1966.

Á undanförnum áratugum hefur myndast nokkuð víðtæk samstaða meðal ríkja um mikilvægi erlendrar fjárfestingar. Þessi samstaða birtist m.a. í því að ríki heims hafa nú gert ríflega  3.000 fjárfestingasamninga sín í milli þar sem fjárfestum og fjárfestingum þeirra er veittur betri réttur en þeir njóta ella samkvæmt landsrétti ýmissa hlutaðeigandi ríkja. Efni fjárfestingasamninga er, þrátt fyrir mikinn fjölda þeirra, mjög svipað þó skipta megi efni þeirra í nokkra flokka. Á sama tíma og þessi aukning í gerð fjárfestingasamninga hefur átt sér stað hefur flutningur fjármagns milli ríkja í formi fjárfestinga aukist verulega. Flest ríki líta á þetta sem heppilega þróun sem geri ríkjum heims fært að byggja upp nýja starfsemi og skapa atvinnu. En slíkir samningar eru ekki einungis á ríkjagrundvelli eða á milli ríkis og fyrirtækis heldur einnig innan ríkja.

Slegist um rafhlöðuverksmiðju Tesla

Í Bandaríkjunum keppa hin einstöku ríki um nýjar og áhugaverð fyrirtæki eða verksmiðjur. Þar er allt undir og baráttan gríðarlega hörð. Á síðasta ári beindist athygli allra að baráttunni um nýja rafhlöðuverksmiðju (lithium-ion) sem Teslafyrirtækið gaf út að yrði byggð. Tesla framleiðir sem kunnugt er rafbíla í hærri verðflokki.tesla-battery-gigafactory-site-outside-reno-nevada-jan-6-2015-photo-bob-tregilus_100495880_m

Segja má að stofnanda og aðaleiganda Tesla, Elon Musk, hafi tekist vel til þegar hann efndi til uppboðs um verksmiðjuna en á tímabili slógust hvorki fleiri né færri en fimm ríki Bandaríkjanna um hana. Að endingu var það Nevada sem hreppti hnossið en um er að ræða fjárfestingu upp á 5 milljarða Bandaríkjadala eða 685 milljarða íslenskra króna. Arizona, Nýja Mexíkó, Texas og Kalifornía sátu eftir með sárt enni og ráðamönnum þar var legið á hálsi að hafa ekki boðið nógu vel.

Í verksmiðjunni verða til störf fyrir 6.500 starfsmenn og talið er að hún skapi störf fyrir hátt í 4.000 manns á byggingartíma. Afleidd störf liggja ekki fyrir en líklega má margfalda starfsmannafjöldann með 2 eða 3 til að nálgast fjölda þeirra.  Fyrir þetta samþykkti Nevada að leggja félaginu til 1,2 milljarða Bandaríkjadala eða 165 milljarða íslenskra króna. Elon Musk sagði þegar greint var frá samningnum að Nevada hefði ekki boðið hæst þó Tesla hefði að lokum ákveðið að reisa verksmiðjuna þar. Í stuttu máli felur samningurinn við Nevada í sér að verksmiðjan mun ekki greiða skatta fyrstu 10 árin.

Samningurinn hefur vitaskuld vakið mikla athygli en hann hefur verið brotin niður með þessum hætti:

  • $725 milljónir eru vegna 100% niðurfellingar á virðisaukaskatti í 20 ár.
  • $332 milljónir eru vegna 100% niðurfellingar á fasteignasköttum í 10 ár.
  • $120 milljónir eru vegna breytilegra skattgreiðslna.
  • $75 milljónir eru vegna breytilegra skattgreiðslna sem jafngilda lækkun upp á $12,500 á hvert starf.
  • $27 milljónir í 10 ára aðlögun að breyttu skattaumhverfi.
  • $8 milljónir í formi afsláttar á rafmagni í 8 ár.

Til viðbótar leggur ríkið vegi og samgöngumannvirki að verksmiðjunni en einhverjar breytingar þarf að gera á lögum ríkisins til að stuðningur við Tesla verði fullkomnaður.

Á meðan á ferlinu stóð fluttu fjölmiðlar reglulega fréttir af leynifundum og viðræðum milli forráðamanna félagsins og ráðamanna í þeim ríkjum sem sóttust eftir verksmiðjunni. Forráðamenn Tesla hafa stefnt að því að smíða 500 þúsund bíla á ári árið 2020. Ólíklegt er að því markmiði verði náð en lykillinn að því er að lækka verð á rafhlöðum verulega og þar skiptir verksmiðjan í Nevada höfuðmáli. Tesla stefnir að því að lækka verð á rafhlöðum umtalsvert og til þess er þessi nýja verksmiðja nauðsynleg.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.