c

Pistlar:

1. apríl 2015 kl. 15:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Deilt um kreppur og krónur

Fjármálakreppan á Íslandi árið 2008 var gríðarlega umfangsmikil og hafði mikil efnahagsleg áhrif. Um það þarf ekki að deila en orsakir, afleiðingar og úrlausn hennar skapa hins vegar miklar deilur. Nánast daglega ber á borð okkar Íslendingar nýjar útlistanir á því hver gerði hvað, hvenær og hvernig. Um leið getum við velt því fyrir okkur af hverju einhver gerði ekki eitthvað allt annað og þá með öðrum hætti! Þekkingin sem við byggjum á virðist taka stöðugum breytingum en sjálfsagt er mikilvægast að einhver skynsamur lærdómur verði af þessu öllu. Eða er það bjartsýni að ætla að svo verði?

Fjármálakreppan fyrir rúmum sex árum var hins vegar ekki fyrsta fjármálakreppan sem skollið hefur á hér á landi. Um það var sérstök málstofa á vegum Seðlabankans á mánudaginn en upplýsingar um hana má finna á vef bankans. Þar kemur fram að á síðustu einni og hálfri öld hafa orðið yfir tuttugu fjármálakreppur hér á landi af ólíkum tegundum. Þær hafa gjarnan fylgst að og sérfræðingar Seðlabankans telja sig bera kennsl á sex stórar og „fjölþættar“ fjármálakreppur sem skollið hafa á á u.þ.b. fimmtán ára fresti. Frekari greining á þessum sex stóru kreppum sýnir svo ekki verður um villst að þegar kemur að fjármálakreppum þá „höfum við séð þetta allt áður“.

Niðurstöður Seðlabankans sýna t.d. að efnahagssamdráttur í kjölfar fjármálakreppa er að jafnaði um tvöfalt dýpri og varir hátt í tvöfalt lengur en í kjölfar hefðbundins efnahagssamdráttar. Þær benda einnig til þess að fimm af þessum sex fjármálakreppum eiga sér skýra samsvörun í alþjóðlegum fjármálakreppum sem skollið hafa á á sama tíma og að tvö- til þrefalt meiri hætta er á fjármálakreppu hér á landi á tímum alvarlegrar alþjóðlegrar fjármálakreppu.

Er hægt að koma í veg fyrir fjármálakreppu?

Daginn eftir að Seðlabankinn kynnti sínar niðurstöður um fjármálakreppur kynnti Frosti Sigurjónsson skýrslu sina um uppbyggingu bankakerfis með það í huga að koma í veg fyrir fjármálakreppur í framtíðinni. Frosti bætti við tölfræði Seðlabankans og bendir á að síðan 1970 hafa alls orðið 147 bankakreppur í 114 ríkjum og afleiðingar þeirra ávallt verið aukin skuldsetning og minni landsframleiðsla.

Ef Seðlabankinn var að greina sjúkdóminn þá má segja að Frosti leiti að lækningunni. Niðurstöður Frosta eru langt í frá óumdeildar en greiningarvinna hans og nálgun er athyglisverð og mun líklega skapa talsverða umræðu, svona þegar menn verða búnir að jafna sig á því að skýrslan er á ensku. Ítarlegan íslenskan úrdrátt má finna hér.peningamagn

Það var einu sinni haft á orði að flestir ættu erfitt að sjá bóluna þegar þeir væru inni í henni miðri. Í dag má undrast það peningamagn sem sett var í umferð árin fyrir bankahrun.  Og vel að merkja, það fór að mestu framhjá þeim lærðu hagfræðingum sem í dag fitja upp á trýnið yfir skýrslu Frosta. Í niðurstöðu Frosta kemur fram að innlánsstofnanir juku peningamagn margfalt hraðar en hagkerfið þoldi. Afleiðingarnar, verðbólga, gengisfellingar, eignabóla og bankakreppa, ollu þjóðinni gríðarlegu tjóni. Grafið sem er hér til hliðar sýnir einmitt aukninguna með skýrum hætti en það er fengið að láni úr skýrslu Frosta.

Það er því niðurstaða hans að brotaforðakerfið sé óstöðugt og ýtir undir áhættusækni. Bankar hafi hvata til að búa til peninga og seðlabönkum hefur ekki tekist að hemja peningamyndun þeirra. Við óbreytt kerfi mun Seðlabankinn þurfa að beita óhefðbundnum aðferðum: Banna bönkum að auka útlán of hratt og banna þeim að lána til spákaupmennsku. Frosti segir að það yrði án efa óvinsælt meðal bankamanna en hefðbundin stýritæki hafa reynst óskilvirk.

Peningamyndunin til Seðlabankans

En Frosti vill ganga lengra. Hann telur að til að fjarlægja sjálfa rót vandans þurfi að koma peningavaldinu í skjól. Færa þurfi peningamyndun frá bönkum til Seðlabankans. Um leið þarf að aðskilja magn- og ráðstöfunarþætti peningavaldsins. Með þessum hætti megi draga mjög úr óstöðugleika, minnka skuldir og beina tekjum af peningamyndun í ríkissjóð. Með því að færa peningaprentunina alfarið til Seðlabankans (þar sem valinkunnir menn véli um) skapist svokallað þjóðpeningakerfi (e. Sovereign Money) sem geti verið góður grunnur að endurbótum á peningakerfi Íslands þótt Frosti taki fram að ekki megi útiloka aðrar umbótaleiðir.

Forsendur fyrir slíkri leið eru þær að Ísland er fullvalda ríki, með sjálfstæðan gjaldmiðil og getur því ákveðið að hverfa frá hinu óstöðuga brotaforðakerfi og innleiða nútímalegra fyrirkomulag í peningamálum. Frosti leggur hér til afskaplega róttæka kerfisbreytingu og útfærsla hans er síður en svo hafin yfir vafa. Reyndar verður að teljast umdeilanlegt að einhver nefnd stýri peningamagni í umferð með þeim hætti sem hann leggur til og líklega er það helsti veikleikinn í útfærslu hans. Skýrsla Frosta á hins vegar skilið að fá efnislega umræðu og er vonandi að hún aðstoði við að byggja upp skynsamara fjármálakerfi, hvaða leið sem endanlega verður farin.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.