c

Pistlar:

3. maí 2015 kl. 11:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Orkan, álið og verðmætasköpun

Nú á þriðjudaginn heldur Landsvirkjun ársfund sinn um leið og fyrirtækið fagnar 50 ára afmæli sínu. Í síðustu viku hélt Samál, samtök álframleiðenda, aðalfund sinn en vegir þessara aðila skarast með eftirtektarverðum hætti. Ekki nóg með að stóriðjan kaupi hátt í 80% af þeirri orku sem framleidd er hér á landi heldur er hún einnig ein af þremur meginstoðum útflutningsiðnaðar landsmanna en alls námu útflutningsverðmætin álafurða um 230 milljörðum króna á síðasta ári en heildarframleiðsla álveranna þriggja nam um 850 þúsund tonnum. Ísland er í dag næststærsti álframleiðandi í Evrópu, næst á eftir Norðmönnum.

Í ræðu Ragnars Guðmundssonar, stjórnarformanns Samáls, kom fram að íslensku álverin keyptu vörur og þjónustu fyrir 25 milljarða króna á síðasta ári af yfir 700 innlendum fyrirtækjum. Raforkukaupin eru ekki inni í þeirri tölu. Þá má ekki gleyma þeirri uppbyggingu sem kennd er við álklasann en hér á landi hefur orðið til gróskumikill iðnaður vegna álveranna sem flutt hefur út vörur og þekkingu til álvera um allan heim. Í álklasanum eru fyrirtæki af öllum toga og störfin fjölbreytt eftir því. Þar á meðal eru verkfræðistofur, vélsmiðjur, málmsmiðjur, tæknifyrirtæki, flutningafyrirtæki, endurvinnslufyrirtæki og svo mætti lengi telja. Í þessum hópi eru öflug fyrirtæki sem hafa haslað sér völl í þjónustu við álverin og eiga í viðskiptum við álfyrirtæki um allan heim, svo sem verkfræðistofurnar HRV og Efla að ógleymdri  Vélsmiðju Hjalta Elíassonar sem veitir um 450 störf. Það gefur auga leið að þarna á sér stað mikilvæg nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Í álverunum þremur hér á landi vinna um 1500 manns og á sjötta hundrað til viðbótar hjá verktökum álveranna. Ef talin eru bein og óbein störf lætur nærri að þau séu um fimm þúsund. Álverin greiða hærri laun en almennt tíðkast vegna þeirra sérsamninga sem við þau eru gerð.ál

Verðmæti orkufyrirtækja

Í ræðu sinni kom Ragnar inn á þá miklu verðmætasköpun sem átt hefur sér stað í íslenskum orkuiðnaði og sótti samanburð við sjávarútveginn. Ragnar sagði að miðað við markaðsvirði og aflahlutdeild Granda, eina skráða sjávarútvegsfyrirtækisins, þá mætti lauslega áætla að verðmæti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja væri um 600 milljarðar króna. Ef horft væri til orkufyrirtækja væru þau um 500 til 800 milljarða virði. Þau væru hinsvegar að 95% hluta í eigu ríkis og borgar. Ragnar dró fram að innan fárra ára yrði Landsvirkjun fært að greiða tugi milljarða króna á hverju ári í arð til íslensku þjóðarinnar. Sömuleiðis má velta fyrir sér hvort ekki sé falin umtalsverð arðgreiðsla í því að raforkuverð til íslenskra heimilisnotenda er lægra en erlendis.

Þetta eru athyglisverðar vangaveltur sem verða ekki svo auðveldlega hraktar. Á þeim 50 árum sem Landsvirkjun hefur starfað hafa orðið til verðmæti upp á 500 til 800 milljarða króna. Vel má ætla að fyrirtækið sé í þann mund að verða fært um að greiða 30 til 50 milljarða króna í arð og það innan örfárra ára eins og Ragnar benti á. Reyndar má hafa í huga að skuldastaða Landsvirkjunar er þannig að með hverju árinu verður auðveldara að endurfjármagna fyrirtækið og greiða um leið út umtalsverðan arð. Það þarf vitaskuld að gerast í góðu samkomulagi við lánadrottna en slíkir möguleikar eru núna fyrir hendi, kjósi þeir sem fara með fjármálastjórn félagsins að gera svo. Allt þetta dregur fram hve fráleitt sé að tala um að orkan hafi verið gefin í gegnum tíðina.

Íslenskur orkuiðnaður varð til með samningum við Ísal á sínum tíma og byggingu Búrfellsvirkjunar sem var fullgerð 1969. Virkjunin og álverið í Straumsvík mörkuðu upphaf stóriðju á Íslandi. Síldarstofninn hrundi á árunum 1967-69 og gjaldeyristekjur okkar minnkuðu um helming, svo að þessi nýja atvinnustarfsemi gat ekki komið á betri tíma. Faðir minn hafði þá nýlokið tæknifræðinámi í Danmörku og óvíst er hvort fjölskyldan hefði komið heim ef atvinnutækifæri hefðu ekki skapast við nýja virkjun. Þjóðarbúið rétti sig enda fljótt við, lífskjör fóru batnandi og efnahagsmálin voru í jafnvægi á árunum 1970-1971.  

Nýjar stoðir útflutnings

Ragnar dró fram að sjávarútvegur hefði verið ein helsta stoð gjaldeyrisöflunar fyrir 25 árum, en þá var sjávarútvegur með um 75% af vöruútflutningi frá Íslandi og iðnaður um 20%. Nú stæðu áliðnaður og sjávarútvegur hinsvegar jafnfætis, iðnaður með yfir 50% af vöruútflutningi frá Íslandi en sjávarútvegur rúm 40%. Það kemur til viðbótar umtalsverðri aukningu í ferðaþjónustu á undanförnum árum sem virðist vera að taka forystusæti í gjaldeyrissköpun starfsgreina hér á landi.

Það er því hægt að taka undir þau orð Ragnars að styrkleikar okkar sem samfélags til aukinnar atvinnusóknar og uppbyggingar liggja einkum á þremur sviðum: Sjávarútvegi, ferðamennsku, og grænum orkuiðnað. „Þetta eru meginstoðirnar og uppbygging þeirra getur og á að fara saman. Þetta eru styrkar stoðir sem framþróun, nýsköpun og sprotastarf byggir á. Grunnforsendan er alltaf öflugir grunnatvinnuvegir,“ sagði Ragnar. Undir það er hægt að taka.