c

Pistlar:

21. maí 2015 kl. 15:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fylgir Chicago í fótspor Detroit?

Chicago er ein af glæsilegri borgum Bandaríkjanna og sú þriðja fjölmennasta, næst á eftir New York og Los Angeles og það þrátt fyrir að hún hafi misst íbúa síðan hún var fjölmennust upp úr 1950. Þar búa nú um 2,7 milljónir manna sem hafa meðal annars orðið að þola um 10.000 skotbardaga á síðustu fjórum árum. Ofbeldi hefur gengt stóru hlutverki í sögu borgarinnar en síðustu áratugi hefur verið talsverður uppgangur í borginni og fóstrar hún nú líflegt mannlíf og fjölbreytt efnahagslíf.chicago-2

En nokkurn skugga ber á og margir í Bandaríkjunum óttast að Chicago bíði svipuð fjárhagsleg ógæfa og bílaborgarinnar Detroit sem fór undir hamarinn fyrir nokkrum misserum og hefur orðið að  alþjóðlegu athlægi fyrir vikið. Detroit, Is That You? Chicago In Big Trouble, hljóma fyrirsagnir sumra dagblaða núna. Og tölurnar vekja ótta enda hafa skuldir Chicago hlaðist upp, að mestu vegna ógreidds lífeyris en eins og stundum hættir til í opinberum rekstri hefur borgin frestað greiðslum í lífeyrissjóði þó að skuldbindingarnar aukist jafnt og þétt. Nú er talið að skuld borgarinnar við lífeyrissjóði borgarstarfsmanna nemi um 20 milljörðum Bandaríkjadala eða 2.640 milljörðum króna. Það eru um tveir-þriðju af langtímaskuldum borgarinnar. Það jafngildir því að hver einasti borgarbúi skuldi 7.400 dali vegna lífeyrisskuldbindinga. Svo dæmi sé tekið af Detroit þá er mannfjöldi þar um fjórðungur af íbúatölu Chicago (689.000) en þar voru eftirlaunaskuldir 3,5 milljarðar dala eða 5.100 dalir á hvern íbúa, eða nokkru lægri en Chicagobúar standa nú frammi fyrir. Ársgömul skýrsla frá Morningstar Municipal Credit Research sýndi að meðal 25 stærstu borga Bandaríkjanna var Chicago með hæstu lífeyrisskuldbindingarnar.

Lánshæfismatið fellur

Skuldirnar taka í og fjárfestar eru uggandi. Gleðispillirinn og lánshæfismatsfyrirtækið Moody’s hefur fært skuldabréf Chicago alveg að ruslflokki (Ba1) og ljóst að það verður stöðugt erfiðara að fjármagna rekstur borgarinnar. Nú á mánudaginn var demókratinn Rahm Emanuel svarinn inn í embætti borgarstjóra í annað sinn. Sigur hans í borgarstjórnarkosningum fyrir rúmum mánuði sýnir gríðarlega sterka stöðu demókrata í Chicago en þeir hafa stýrt borginni síðan 1927. Það er til marks um mikilvægi borgarinnar fyrir demókrata að Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var viðstaddur vígslu Rahm Emanuel og borgin hefur sótt fast að fá að reisa bókasafn til heiðurs Barak Obama, núverandi forseta. Í vígsluræðu sinni minntist Rahm Emanuel lítið á skuldastöðuna og ávarpaði einkum þann vanda sem felst í skorti á tækifærum fyrir ungt fólk. Sannarlega þarft umræðuefni en létti ekki áhyggjum fjármálamarkaða sem óttast að ekki verði gerð nein markverð tilraun til að taka á skuldavandanum sem verður óviðráðanlegur innan nokkurra ára ef heldur fram sem horfir. Frá árinu 2002 hafa skuldir borgarinnar aukist um 84%. Árið 2013 greiddi borgin 443 milljónir dala inn á skuldin en hefði þurft að greiða 1,7 milljarða. Mismunurinn, 1,25 milljarðar dala, jafngildir um 40% af fjárhagsáætlun borgarinnar. Árið 2031 munu tveir stærstu lífeyrissjóðirnir verða ógjaldfærir að öllu óbreyttu.

Öflugt efnahagslíf en duga skattahækkanir?

Fátt er til ráða ef út af bregður. Ríkisstjóri Illinois er repúblikaninn Bruce Rauner sem hefur ekki gefið neinar vonir um að ríkið komi til bjargar enda má segja að það eigi nóg með sitt. Eins og sannaðist í tilviki Detroit þá er lítur alríkisstjórnin ekki á það sem hlutverk sitt að koma borgum í vanda til bjargar.  Vitaskuld er allt of snemmt að fara að skoða greiðsluskjól gjaldþrotalaga (Chapter 9) ákvæði eins og Detroit beitti að lokum. Chicago hefur reynt fyrir dómstólum (The Illinois Supreme Court) að fá hnekkt ábyrgðum sínum vegna lífeyrisskuldbindinga en ekki haft árangur sem erfiði. Niðurstaða dómstólsins fór illa í fjármálamarkaðinn en einhver von var um að ekki reyndi á ábyrgðirnar.

Lög frá 2010 kveða á um að borgin verði að hefja árlega innágreiðslu í lífeyrissjóði lögreglu- og slökkviliðsmanna. Líklega þeir tveir hópar sem fæst borgaryfirvöld vilja fá upp á móti sér. Ef borgin stendur við það munu greiðslur vegna lífeyris hækka um helming og þá mun borgin verja um 22% af tekjum sínum til þessa málaflokks. Þessar aukagreiðslur jafngilda árlegum kostnaði þess að halda úti 4.300 lögreglumönnum og 3.750 slökkviliðsmönnum.

Ljóst er að þetta verður ekki fjármagnað án skattahækkana. Því var haldið fram að skattahækkanir vegna yfirstandandi árs myndu duga fyrir þessum auknu útgjöldum en svo er ekki.  Fasteignaskattar í Chicago eru nú með því hæsta sem þekkist í Bandaríkjunum og talið er að þeir verði hækkaðir um allt að 60%. Skattahækkanir í Bandaríkjunum eru hins vegar vandmeðfarin vopn þar sem það hefur sýnt sig að íbúar víla ekki fyrir sér að flytja til að sleppa undan þeim, öfugt við það sem þekkist víða annars staðar.

Icelandair hefur lýst yfir þeirri fyrirætlun sinni að hefja flug til Chicago á næsta ári. Ólíklegt að þau plön breytist. Efnahagur Chicago er miklu fjölbreyttari og sterkari en efnahagur Detroit en borgin var í 9. sæti á lista yfir ríkustu borgir heims árið 2009. Þess hlálegra er að svo sé komið fyrir fjármálastjórn borgarinnar núna.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.