c

Pistlar:

28. júní 2015 kl. 21:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Grísk atkvæðagreiðsla um skuldir

Gríska þingið hefur ákveðið þjóðar­at­kvæðagreiðslu í Grikklandi eft­ir viku, sunnu­dag­inn 5. júlí. Þar veður gengið til atkvæða um þær aðhaldstil­lög­ur sem lán­ar­drottn­ar lands­ins setja sem skil­yrði fyr­ir frek­ari lán­veit­ing­um. Þetta er eitt skrefið enn í þeirri harmrænu vegferð sem Grikkland hefur verið í undanfarin misseri. Samfélagsgerðin riðar til falls og spurning hvaða áhrif það hefur til lengri tíma á þjóðfélagið allt og samskipti Grikkja við önnur ríki.

Við Íslendingar þekkjum vel tilfinningaþrungnar þjóðaratkvæðagreiðslur en við felldum í tvígang samninga sem kenndir hafa verið við Icesave. Sá fyrri, Svavars-samningurinn, hefði fellt kostnað upp á um 300 milljarða króna á ríkissjóð en sá síðari, Buchheit-samningurinn, hefði kostað ríkissjóð 67 milljarða króna. Íslendingar höfnuðu samningunum í atkvæðagreiðslum og íslenskir skattgreiðendur hafa ekki og munu ekki bera kostnað af Icesave. En virðist mörgum fyrirmunað að skilja það. Sá er þetta ritar er minnistætt hve grískir félagar á blaðamannaráðstefnu fyrir nokkrum misserum þráspurðu um þessa niðurstöðu á Íslandi. Var slík niðurstaða möguleg, spurðu þeir. Og það var engum blöðum um það að fletta að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um Svavars-samninginn skipti gríðarlegu máli. Virðing fyrir íslenskum sjónarmiðum snarjókst erlendis. Þá fyrst fékkst skilningur á því að á bak við skuldirnar var fólk sem bar í raun enga ábyrgð á þeim.

Falsaður kaupmáttur

Vissulega eru skuldir Grikkja komnar til með öðrum hætti. Skuldasöfnun á skuldasöfnun ofan hefur verið dembt yfir þjóðina sem í sumum tilvikum hefur spilað með. Kaupmátturinn hefur verið falsaður inn í ESB myntsamstarfinu og Grikkir hafa lifað um efni fram. Ekki það að þorri fólks sé of sæll af sínu en augljóslega er margt aðfinnsluvert í grískum ríkisfjármálum og gríska hagkerfinu. Svo virðist sem gríska skattkerfið sé ekki fært um að halda uppi lágmarksskilvirkni. Að Grikkir og Þjóðverjar séu saman í efnahagsbandalagi hljómar undarlega og ásakanir gengið á víxl. Fráleitust var tilraun Grikkja til að senda Þjóðverjum reikninginn í formi kröfu um stríðsskaðabætur vegna stríðs sem lauk fyrir 70 árum síðan.grikkl

Það er margt sem ruglar hina grísku skuldamynd. Augljósast er það sem skapast af aðild Grikkja að Evrópusambandinu og þó ekki síður myntsamstarfinu. Vissulega er margt sem bendir til þess að Grikkir hafi aldrei átt að fara inn í myntsamstarfið. Grískur efnahagur hafi ekki boðið uppá það, hvort sem tölurnar voru falsaðar eða einfaldlega að óskhyggja hafi stýrt för. Þá er augljóst að Grikkland hefur ekki tekið á sig þær kvaðir sem samstarfinu fylgja en hins vegar tekið alla kostina. Fyrir vikið var Grikkland með of sterkan gjaldmiðil, kaupmáttur of mikill og fjármálakerfi landsins óstöðugt.  

Ákvörðun Al­ex­is Tsipras, for­sæt­is­ráðherra Grikk­lands, að boða til þjóðar­at­kvæðagreiðslu um til­lög­urn­ar kom full­trú­um lán­ar­drottn­a og fjár­málaráðherr­um evru­ríkj­anna í opna skjöldu. Sögðu þeir að með því út­spili hefðu samn­ingaviðræður Grikkja og lán­ar­drottn­anna farið út um þúfur. Í kjölfar ákvörðunar for­sæt­is­ráðherra Grikk­lands að senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu höfnuðu fjár­málaráðherr­ar ESB ósk grískra stjórn­valda um að fá fram­leng­ingu á neyðarlána­samn­ing­um sín­um til eins mánaðar. Nú­ver­andi björg­un­ar­áætl­un Grikkja renn­ur út á þriðju­dag­inn, en þá þurfa Grikk­ir að standa skil á 1,5 millj­arða evra af­borg­un af láni Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins.

Fjármagnshöft að halda innreið sína

„Grikk­land er enn á evru­svæðinu og Grikk­land er enn hluti af Evr­ópu,“ var haft eftir Wolfang Schauble, fjár­málaráðherra Þýska­lands um helgina. Dæmigerð yfirlýsing þessa daganna því augljóslega er hætta á að Grikkland detti út úr ESB samstarfinu og þá um leið missi evruna. Við sjáum að evran er síður en svo að auka stöðugleika í Grikklandi þessa daganna og biðraðir við hraðbanka og lokaðir bankar segja sitt. Fjármagnshöft virðast vera að halda innreið sína í Grikkland. Slíkar sviðsmyndir eru fordæmalausar og ljóst að hvorki grískir ráðmenn né evrópskir vilja slíkt. En á meðan ekki næst nein niðurstaða í máli mun slík störukeppni halda áfram. Ótvírætt er að þjóðaratkvæðagreiðslan er liður í því. Hvort hún getur þjappað Grikkjum saman og þvingað fram betri samninga skal ósagt látið.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.