c

Pistlar:

5. júlí 2015 kl. 21:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ungt fólk með vinnu á Íslandi

Deila má um hvort vinnu skuli flokka með ástæðum hamingju eða með ástæðum óhamingju. Því verður ekki neitað að mörg störf eru ákaflega þreytandi og þegar vinnan er of mikil, eða of erfið, þá verður hún að kvöl. En sé álagið ekki óhóflegt þá er jafnvel leiðinlegasta vinna minni kvöl en iðjuleysi.

Þannig komst heimspekingurinn Bertrand Russell að orð í bók sinni Að höndla hamingjuna (The Conquest of Happines) sem kom út 1930.

Líklega verður seint gert of mikið úr afleiðingum atvinnuleysis sem er líklega það form iðjuleysis sem við óttumst hvað mest. Sérstaklega bitnar það hart á ungu fólki sem er reyna að feta sig inn á vinnumarkaðinn. Það er hörmulegt að svipta það tækifæri til vinnu. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er um 20% í Evrópusambandinu. Það er há tala, um það þarf ekki að deila. Ástandið er sérstaklega dökkt í þeim löndum sem gengið hafa í gegnum mestan efnahagsvanda. Í Grikklandi var atvinnuleysi ungs fólks rúmlega 50% í apríl, rétt undir 50% á Spáni og rúm 40% á Ítalíu.

Morgunblaðið greindi frá því í stuttri fréttaskýringu í vikunni að atvinnuþátttaka var á síðasta ári sú mesta meðal fólks á Íslandi á aldrinum 15-74 ára af löndum Evrópska efnahagssvæðisins, EES. Upplýsingar um þetta koma fram í tölum evrópsku hagstofunnar Eurostat. Mældist atvinnuþátttakan um 80% á síðasta ári, sem er um fjórum prósentustigum meiri en í Sviss og um níu prósentustigum meiri en í Svíþjóð og Noregi, sem koma í næstu sætum á eftir. Þegar atvinnuþátttaka er skilgreind er um að ræða alla sem eru starfandi auk þeirra sem eru atvinnulausir og í atvinnuleit. Þeir sem standa þar fyrir utan eru t.d. heimavinnandi, veikir eða námsmenn sem eru ekki í vinnu með námi eða í atvinnuleit. Í grein hér fyrir stuttu - undir heitinu Allir vinna! - var rakið hve gott atvinnuástandið er á Íslandi um þessar mundir og þessar tölur staðfesta það.

Hvað það er nákvæmlega sem gerir það að verkum að ástandið hér er betra en víðast í Evrópu er erfitt að segja. Það er þó ekki hægt að horfa framhjá  þætti gjaldmiðilsins og aðlögun í gegnum hann. Við sjáum það best í Grikklandi sem hefur ekki tekist að vinna sig út úr langvarandi efnahagsvanda og hefur nú kosið að taka örlagarík skref til að tryggja eigin framtíð. Um langt skeið þótti  fínt að tala niður til krónunnar en þó á hún án efa sinn þátt í litlu atvinnuleysi hér á landi. Forvitnilegt verður að sjá hvernig henni farnast í því ferli sem er framundan við afnám fjármagnshafta. Hjá okkur hefur krónan veitt sveigjanleika sem evran gerir ekki í Grikklandi. Með því að hafa mynt sem sveiflast í takti við íslenskan efnahag fremur en að stjórnast af fjarlægum hagsmunum var auðveldara að takast á við efnahagsvandann og koma í veg fyrir að eitur atvinnuleysis flæddi um æðar atvinnulífsins svo vitnað sé til skorinorðs orðalags leiðarahöfundar Morgunblaðsins.

Ástæður mikillar atvinnuþátttöku

En af hverju er atvinnuþátttaka svona mikil á Íslandi? Margs er að gæta en miklu skiptir hærri þátttaka kvenna á vinnumarkaði en víðast í Evrópu. Í Suður-Evrópu er t.a.m. ekki jafn sterk hefð fyrir atvinnuþátttöku kvenna. Þá skiptir eftirspurn eftir vinnuafli einnig miklu máli og á Íslandi er aðgangur að störfum mun meiri en víðast annars staðar. Í áðurnefndri fréttaskýringu Morgunblaðsins var bent á að meðalatvinnuþátttaka í löndum EES-svæðisins er aðeins um 64% og kann það að hluta til að skýrast af því að stór hópur fólks hafi gefist upp á því að reyna að fá vinnu og teljist því utan vinnumarkaðar. Könnun Eurostat gengur út á að skoða hvort viðkomandi hafi leitað að starfi á undanförnum vikum og sé tilbúinn að hefja störf innan tveggja vikna. Ef fólk segir nei við þessu telst það utan vinnumarkaðar. Þessi hópur hefur stækkað innan EES-svæðisins á undanförnum árum.

Gríðarlegur munur á atvinnuþátttöku

En skoðum aftur hina miklu atvinnuþátttöku ungs fólks.  Það er mikill munur á atvinnuþátttöku ungs fólks á Íslandi og í öðrum löndum innan EES svæðisins. Þannig voru 70-74% fólks á aldrinum 15-24 ára með atvinnu árið 2014 og enn hærra hlutfall þegar horft er til sumarmánaðanna. Fór atvinnuþátttaka ungs fólks upp í 84% yfir sumarmánuðina. Þá blasir við að það er einstakt hve margir eru í vinnu með námi á Íslandi.ungt

Ef undan er skilin atvinnuþátttaka í Hollandi og Sviss, þar sem hún fór hæst í um 70% árið 2014, og Danmörku, þar sem hún fór hæst rétt yfir 60% í aldurshópnum, er atvinnuþátttaka Íslendinga að jafnaði nokkrum tugum prósentustiga meiri en í öðrum löndum á EES-svæðinu. Þannig var meðaltalatvinnuþátttaka um 43% meðal fólks 15-24 ára á EES-svæðinu árið 2014. Fólk í þessum aldurshópi vinnur allt að 30 klukkustundir á viku hér á landi. Það er mun meiri atvinnuþátttaka en annars staðar í Evrópu bendir Lárus Blöndal, sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands, á í áðurnefndri fréttaskýringu.

Þá er eftirtektarvert að atvinnuþátttaka minnkar minna á Íslandi í aldurshópnum 65-74 ára en í öðrum löndum. Það er okkur án efa styrkur þegar mörg önnur lönd standa frammi fyrir þeirri staðreynd að þurfa að færa tökualdur ellilífeyris upp.

Niðurstaðan er að atvinnuþátttaka er meiri í öllum aldurshópum á Íslandi. Það er staða sem við getum verið stolt af.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.