c

Pistlar:

16. júlí 2015 kl. 14:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Verksmiðja rís við Húsavík

Ekki verður annað séð en að mikill uppgangur ríki á Húsavík þessi misserin og bærinn hefur þróast í að vera umsvifamikill áfangastaður ferðamanna. Um leið hefur verið lokið við allan undirbúning að kísilmálmverksmiðju sem mun rísa á iðnaðarsvæðinu að Bakka við Húsavík.  Augljóst er af þessu að byggðin á Húsavík mun styrkjast og fjölbreyttari stoðir verða undir atvinnulíf þar. Með tilkomu Vaðlaheiðarganga (sem vonandi verða að veruleika án þess að setja okkur öll á hausinn) þá mun atvinnusvæðið styrkjast og eflast.

Þeir sem að Bakkaverkefninu hafa komið hafa sagt það jákvætt og mikilvægt skref fyrir íslenskt efnahagslíf og að það muni styðja við atvinnuuppbyggingu á norðurlandi og fjárfestingu í landinu. Verkefnið var um tíma háð fyrirvörum frá Eftirlitsstofnun EFTA varðandi samninga verksmiðjunnar við Landsvirkjun og Landsnet. Öllum fyrirvörum hefur verið aflétt af raforkusölusamningi Landsvirkjunar og PCC BakkaSilicon hf. og er hann því orðinn fullgildur og bindandi fyrir báða aðila.

Samkvæmt samningnum mun Landsvirkjun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju PCC, sem áætlað er að hefji starfsemi á árinu 2017 og framleiði í fyrsta áfanga allt að 36 þúsund tonn af kísilmálmi og noti 58 MW af afli. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan verði reist í tveimur áföngum og fullbyggð geti hún framleitt um 66 þúsund tonn og til þess þarf ríflega 100 MW eða um 915 GWh.

Það afl sem verksmiðjan notar í fyrsta áfanga mun að mestu koma frá Þeistareykjum en þar er nú að rísa 45 MW gufuaflsvirkjun. Það er fyrsti áfangi nýtingar svæðisins en í næsta áfanga verður aflið aukið upp í 90 MW en Landsvirkjun hefur væntingar um að nýta allt að 200 MW á svæðinu. Sem gefur að skilja verður að fara varlega og meta jafnóðum hvað svæðið þolir.

Fjölþætt fjármögnun

Fyrir rúmum mánuði var greint frá því að fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, fyrir hönd PCC BakkiSilicon hf., hefði lokið fjármögnun á kísilmálmverksmiðju félagsins. Heildarfjármagn til verkefnisins nemur um 300 milljónum dala, jafnvirði tæpra 40 milljarða íslenskra króna, en þar af leggja íslenskir fjárfestar til 80 milljónir dala. Samkvæmt upplýsingum frá PCC er þýski bankinn KfW IPEX Bank GmbH aðallánveitandi verkefnisins.

Rúmur fjórðungur fjárfestingarinnar kemur frá fyrirtækinu Bakkastakki í formi lánsfjármögnunar og forgangshlutafjár í PCC BakkiSilicon hf., félaginu sem stofnað hefur verið utan um verkefnið. Eigendur Bakkastakks eru á annan tug lífeyrissjóða ásamt Íslandsbanka.

En PCC er aðalbakhjarla verkefnisins og sá sem leiðir það, bæði tæknilega og fjárhagslega. PCC er alþjóðlegur hópur fyrirtækja undir stjórn PCC SE (áður PCC AG), sem er með höfuðstöðvar í Duisburg í Þýskalandi. Fyrirtækið er með um 2.200 starfsmenn í 13 löndum víðsvegar um heim. Fyrirtækið starfar í þremur megingreinum: efnaframleiðslu, orkuframleiðslu og samgöngum á landi og sjó. Augljóst er að PCC hópurinn er varfærin og það er ekki fyrr en nú undanfarnar vikur sem við höfum séð raunverulegar og markverðar fjárhagslegar skuldbindingar af þeirra hálfu.

Samfélagsleg áhrif

Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdin skapi 120 til 130 störf í verksmiðjunni sjálfri og eru þá ótalin afleidd störf.bakki

Mat á samfélagslegum áhrifum kísilmálmverksmiðju PCC á framkvæmdar- og rekstrartíma byggir á greiningu innviða á Norðausturlandi sem unnin var af Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hf. Einnig er litið til niðurstöðu frummatsskýrslu vegna álvers Alcoa á sama svæði, þar sem áhrif þessarar starfsemi eru um margt sambærileg. Við matið er lögð áhersla á íbúaþróun, þróun vinnumarkaðar og áhrif á sveitarfélögin í nágrenni verksmiðjunnar eins og kemur fram í frummatsskýrslu verkfræðistofunnar Eflu frá því í upphafi árs 2013.

Í skýrslunni er bent á að íbúum á Húsavíkursvæðinu hefur fækkað á undanförnum áratugum, einkum í yngri aldurshópum. Þjónusta og stjórnsýsla innan sveitarfélaganna getur að mestu annað aukningu á eftirspurn án þess að þurfa að fjölga starfsfólki, að undanskildum leikskólum og heilbrigðisþjónustu. Uppbygging kísilmálmverksmiðju mun skapa um 200 ársverk á byggingartíma og er talin hafa tímabundin jákvæð áhrif á íbúaþróun, vinnumarkaðinn og á sveitarfélögin vegna þeirra starfa sem skapast í þjónustu.

Það blasir því við að rekstur verksmiðjunnar mun skapa ný varanleg störf, beint og óbeint og auka tekjur sveitarfélaganna. Það er því niðurstaða þessarar frummatsskýrslu að rekstur verksmiðjunnar muni hafa veruleg jákvæð áhrif íbúaþróun, vinnumarkaðinn og sveitarfélögin. Starfsemi kísilmálmverksmiðjunnar er í heild talin hafa töluverð jákvæð áhrif á íbúaþróun, vinnumarkað á svæðinu og sveitarfélögin. Það er auðvitað von manna að þessi sviðsmynd verði að veruleika því vissulega er nokkru kostað til, bæði í fjármunum en þó ekki síður náttúrugæðum. Vonandi þó innan skynsamlegra marka.

Byggð samkvæmt bestu fáanlegu tækni

Nú fyrir þá sem vilja kynna sér nánar hvað fellst í starfsemi verksmiðjunnar má benda á að lesa áðurnefnda frummatsskýrslu. Þar kemur fram að verksmiðjan verður hönnuð og reist til að framleiða 98,5% hreinan kísilmálm úr innfluttum hráefnum, þ.e. kvarsíti og kolefnum. Hráefni verður flutt um Húsavíkurhöfn, sem er í námunda við framkvæmdasvæðið. Afurðir verksmiðjunnar, þ.e. kísilmálmur sem og aukaafurðir, þ.e. kísilryk, kísilgjall og efnaleifar, verða fluttar á alþjóðlega markaði.

Verksmiðjan verður byggð samkvæmt bestu fáanlegu tækni (e. Best Available Technology, BAT) sem felst m.a. í nýtingu umfram varmaorku (e. high heat utilisation), vinnslu í lokaðri hringrás, stýringu og eftirliti með afköstum og gæðum í vinnsluferlinu, hreinsun útblásturs og engri losun í yfirborðsvatn og grunnvatn. Engin spilliefni falla til við framleiðsluna.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.