c

Pistlar:

25. júlí 2015 kl. 15:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ferðamannasprengja - allir voða hissa!

„Innan fárra ára munu 2 milljónir ferðamanna koma hingað til lands. Við þurfum að sameinast um þjóðaráætlun til að taka vel á móti þeim, en að vera okkur sjálfum líka til hagsbóta. Tilviljun má ekki ráða för og ekki heldur deilur okkar á milli eða skak." Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í inngangsræðu sinni á 75 ára afmælisráðstefnu Icelandair Group sem haldin var 25. september 2012, eða fyrir tæplega 3 árum.

Þarna áréttaði forsetinn fyrri orð sín með því að segjast vera sannfærður um að þetta væri sá raunveruleiki sem koma skuli og að hann væri alls ekki of fjarlægur. Það hefur komið á daginn. Í stað þess að fá eina milljón ferðamanna árið 2020 eins og var spáð fyrir ekki mörgum árum munum við líklega ná tveggja milljóna markinu árið 2018, jafnvel fyrr. Staðreyndin er sú að ekki hefur dregið úr hlutfallslegri aukningu þrátt fyrir fjölgun ferðamanna. Gróft á litið fjölgar þeim um 25 til 30% á milli ára. Yfir þessu má gleðjast en vandi fylgir vegsemd hverri.

Nú virðast landsmenn vera farnir að rífast um hvort við eigum að vera hissa eða ekki og hverjum sé um að kenna. Sá er þetta skrifar hefur fjallað um aukningu ferðamanna með reglulegu millibili hér á þessum vettvangi undanfarin ár eins og sjá má hér og hér og reyndar við fleiri tækifæri. Það er reyndar þannig að þó að margar spár hafi hnigið í þessa veru þá hafa menn ekki með öllu horfst í augu við það að þróunin gæti orðið með þessu móti. Spárnar hafa semsagt verið með ýmsu móti og væntingar sömuleiðis.

Einkaframtakið blómstrað

En áður en við missum okkur í ásakanir skulum við skoða hvað hefur gengið vel. Einkaframtakið hefur blómstrað, gisti- og veitingastaðir hafa risið upp og á mörgum sviðum hefur gengið ótrúlega vel að taka á móti og þjónusta ferðamenn. Við sjáum að þeir fá gistingu, mat og afþreyingu en skýrasta dæmið um að vel hafi tekist til er áframhaldandi aukning á komu ferðamanna. Líklega væru þeir ekki að koma nema hingað sé eitthvað að sækja. Og flestir virðast ánægðir þó neikvæðum upplifunum hljóti að fjölga, samfara aukningu ferðamanna.

Á neikvæðu hliðinni er sú staðreynd að það hefur myndast tappi við dyr landsins og að hluta til stafar það af þeim mistökum sem urðu við upphaflega hönnun flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Hún var ekki hönnuð með það í huga að auðvelt væri að stækka hana. Það er reyndar ekki vandamál sem er bundið við Ísland og sífellt auknar kröfur um öryggi gerir það að verkum að farþegar þurfa að verja stöðugt lengri tíma í flugstöðvum. Það þekkja farþegar um allan heim.ferðamenn  

Meiri reglur og stýring - er það svarið?

Á síðasta ári var greint frá því að breska flugfélagið easyjet hefði ákveðið að keyra upp tíðnina til Íslands og flytja hingað ríflega 400 þúsund ferðamenn á ári. Þegar frá þessu var greint jafgilti það helmingi þeirra ferðamanna sem hingað komu. Flestir virtust fagna þessum upplýsingum en í ljósi óska um stýringu þróunarinnar má spyrja hvort stjórnvöld hefðu átt að grípa inní? Ólíklegt er að nokkur hefði sætt sig við það. Nú heyrist reyndar að easyjet hafi ákveðið að fljúga heldur minna hingað þar sem þeir meti það svo að ekki sé nægileg gisting til staðar. Breytir litlu þó við heyrum nánast daglega af áformum um ný hótel eða að ný hótel séu opnuð. Af þessu má ráða að það eru margir aðilar, innlendir sem erlendir sem stýra flæðinu hingað til lands. Erfitt er fyrir stjórnvöld að setja upp aðgangsstýringar, nema þá í formi hækkandi komugjalda. Ólíklegt er að sátt verði um slíkt.

1.200 milljónir í aðgerðir á síðasta ári

Þegar ljóst var að ekki næðist sátt um svokallaðan náttúrupassa ákvað ríkisstjórnin í maí síðastliðnum að í sumar yrði 850 milljónum króna varið til uppbyggingar- og verndaraðgerða á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón ríkisins. Greint var frá því að ráðist yrði í 104 verkefni á 51 stað á landinu, auk þess sem viðbótarfé yrði varið til aukinnar landvörslu um allt land. Mest á að framkvæma í Skaftafelli og á Þingvöllum, við Geysi, í Dimmuborgum, á miðhálendinu, við Gullfoss, Dyrhólaey, Dynjanda, Stöng í Þjórsárdal og Dettifoss. Verkefnin eru af ýmsum toga en megináhersla er lögð á framkvæmdir vegna göngustíga, útsýnispalla, bílastæða og salernisaðstöðu.

Um leið var greint frá því að á næstu árum verði ráðist í enn frekari umbætur á vinsælum ferðamannastöðum í eigu og umsjón ríkisins með það að markmiði að bæta þar skipulag og aðgengi þannig að staðirnir þoli vel þann fjölda sem þangað sæki. Undirbúningur að því verkefni sé þegar hafinn.

Þessar 850 milljónir koma til viðbótar 350 milljónum sem var varið til samskonar mála fyrir ári síðan þannig að 1.200 milljónum króna hefur verið til málaflokksins á einu ári. Staðreyndin er sú að enn er eftir að úthluta talsvert af þessum fjármunum þar sem rekstrar- og framkvæmdaaðilar hafa ekki verið tilbúnir til verka. Þess er að vænta að þessir fjármunir muni nýtast vel.

Þegar tekist var á um þróun ferðamála fyrir nokkrum misserum sögðu menn brýnast að dreifa ferðamönnum betur yfir árið og landið. Segja má að hvoru tveggja hafi tekist vel. Um leið er ljóst að styrkja þarf afþreyingu ferðamanna og við sjáum það vel af Bláa lóninu, hvalaskoðunum og hvalasafninu að með hugmyndaauðgi og skipulagi er hægt að koma miklu í verk. Einkaframtakið með stuðningi stjórnvalda er þar best treystandi og gleymum ofstjórnarhugmyndum þeirra sem eru nú hissa yfir velgengni ferðaþjónustunnar.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.