c

Pistlar:

24. ágúst 2015 kl. 23:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sósíalísk skipbrot í Venesúela

Náttúra Venesúela mun hafa orðið enska rithöfundinum sir Arthur Conan Doyle innblástur þegar hann skrifaði hina áhugaverðu bók Hinn horfni heimur (The Lost World) árið 1912. Bókin átti eftir að verða kveikjan að hinum stórmerkilegu Júragarðs (Jurassic Park) myndunum. Hvað sem segja má um vísindin þarna að baki þá er Venesúela að margra mati undursamlegt land, með fagra náttúru og gjöfula, lífsglatt og áhugavert fólk. Þegar kemur að auðlindum skipta mestu miklar olíulindir sem byrjað var að nýta 1910 en talið er að Venesúela hafi yfir að ráða gjöfulustu olíulindum heims eða um fimmtung þekktra linda.  Þær standa undir 95% af útflutningstekjum landsins en landið er eitt af tíu stærstu útflytjendum hráolíu og einn af stofnaðilum OPEC. Ef skynsamlega væri á málum haldið ættu 30 milljónir Venesúelabúa að geta lifað í vellystingum.Venezuela_map

Hlutfall olíu og olíuvara í útflutningstekjum:

Venesúela 95% af útflutningstekjum

Nígería 90% af útflutningstekjum

Rússland 60% af útflutningstekjum

En það er sitthvað gæfa og gjörvileiki. Fljótlega eftir að vinnsla olíu hófst í Venesúela varð efnahagur landsins heltekin af „Hollensku veikinni” en hún vísar til þess ástands sem skapast þegar ein sterk útflutningsgrein (oftast byggð á auðlind) yfirtekur aðrar. Lengi var landið leiksoppur erlendra olíufélaga en síðan hóf ríkisstjórnin að þjóðnýta olíuiðnaðinn, endanlega með lögum frá 1971.

Síðustu áratugi hefur verið rekið sósíalískt tilraunahagkerfi í Venesúela með herfilegum afleiðingum. Fyrst var þetta undir stjórn hins litríka Hugo Chavez (1954-2013) og nú síðast undir stjórn hins síður litríka Nicolas Maduro sem hafði unnið sér það helst til frægðar áður en hann varð forseti að keyra strætó. Þetta hefur skilað sér með ýmsum hætti en í stuttu máli má þó segja að flest allt hafi farið á verri veginn. Fall á olíumörkuðum hefur síðan endanlega afhjúpað hina skelfilegu efnahagsstjórn sósíalista sem meðal annars birtist í algerum vöruskorti, upplausn samfélagsins og auknu ofbeldi. Nú síðast var höfuðborgin Caracas valin í hóp óvingjarnlegustu borga heims. Var það niðurstaða valnefndarinnar að hún sem einu sinni var skemmtileg, lífleg og heimsborgaraleg einkennist nú af glæpum, skorti og lélegum lífsgæðum. Þar sé engum tekið með opnum örmum nema ef til vill af glæpamönnum en tíðnin athafnasemi þeirra hefur farið upp úr öllu valdi.

Efnaðist við að breiða út sósíalisma

Hugo Chavez tók við völdum í febrúar 1999 og gerði margvíslegar tilraunir til að efla völd sín og stuðla um leið að útbreiðslu sósíalisma. Hann sagðist ætla að skapa grundvöll fyrir sósíalíska byltingu 21. aldarinnar (e. 21st-century socialist revolution). Chaves reyndi að skilgreina svæðisbundinn sósíalisma upp á nýtt með sterkum skírskotunum í byltingarmenn Suður-Ameríku. Þekkt var vinfengi hans við Fídel Castró en Chaves sá Kúbu-mönnum fyrir ódýrri olíu og tók þannig við ýmsum þeim skyldum sem Sovétríkin höfðu áður. Castró launaði það með ýmsum hætti og sendi meðal annars heilbrigðisstarfsmenn í hrönnum til Venesúela þó flestir væru á því að Kúbu-menn væru ekki aflögufærir á því sviði. Castró var að sjálfsögðu mjög sáttur við baráttu Chaves gegn áhrifum Bandaríkjanna í Mið- og Suður-Ameríku en Chaves var tíðrætt um heimsveldisstefnu Bandaríkjanna (e. Yankee imperialism). Chaves var hylltur af andstæðingum Bandaríkjamanna um allan heim og þegar hann dó tilkynnti Mahmoud Ahmadinejad, hinn umdeildi forseti Írans, að hann hefði dáið píslavættisdauða og lýsti yfir þjóðarsorg í Íran.

Sjálfsagt myndi Chaves snúa sér við í gröfinni ef hann heyrði af bættum samskiptum Bandaríkjanna og Kúbu í dag. Ættingjar hans geta þó huggað sig við það að fjölskyldan er ein sú ríkasta í landinu en Chaves tókst að efnast gríðarlega í forsetastól. Það var honum til sárrar armæðu þegar vestrænir fjölmiðlar tóku að fjalla um auðævi sósíalistaleiðtogans og jafnvel setja hann á lista yfir auðmenn. Breska viðskiptatímaritið Economist þreyttist enda seint á að átelja efnahagsstefnu hans og tvöfeldni. Samtök glæparannsakenda (Criminal Justice International Associates) töldu að við dauða Chaves hefði hann átt um einn milljarð Bandaríkjadala sem hann hefði náð til sín með svindli og svínaríi. Líkar ásakanir hafa verið lagðar fram á hendur Castró-bræðrum á Kúbu sem vitaskuld hafa líka neitað. Þetta er kannski smámunir miðað við skaðsemi efnahagsstefnu þeirra en vitaskuld heldur vandræðalegt.

En samfara sósíalískum hugsjónum var Chaves harður baráttumaður þess að efla samstarfið innan OPEC  með það að markmiði að hækka olíuverð en varð lítið ágengt framan af. Verð tók þó að hækka í upphafi nýrrar aldar, ekki síst vegna eftirspurnar nýrra efnahagsvelda eins og Kína og Indlands. Samskiptin við Bandaríkin versnuðu hins vegar mikið eftir valdatöku Chaves og eftirmaður hans  hefur síðan brugðið á það ráð að meina Bandaríkjamönnum að koma inn í landið nema þeir hafi til þess vegabréfsáritun. Þá hefur Maduro alfarið bannað nokkrum bandarískum stjórnmálamönnum að stíga fæti inn í landið, en þeirra á meðal eru George W. Bush, fyrrum forseti Bandaríkjanna, og Dick Cheney, fyrrum varaforseti. Fyrir skömmu sagði Madura að efnahagsástandið væri að hluta til Bandaríkjamönnum að kenna og skemmdaverkastarfsemi þeirra gegn vinstri sinnuðum stjórnum Suður-Ameríku.

Erfiðar afborganir framundan

Efnahagur Venesúela er í molum eins og áður segir en landið þarf að greiða 11 milljarða Bandaríkjadala á þessu ári í afborganir og vexti en nánast er ómögulegt fyrir landið að fá endurfjármögnun. Flestir eiga von á því að fyrsta stóra greiðslufallið komi í október þegar landið á að standa skila á 5 milljörðum dala. Í vor neyddist stjórn Venesúela til að setja gullforða landsins að veði fyrir lántöku. Sama dag greindi Maduro frá því að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hækka lágmarkslaun í landinu um 30%. Það skiptir litlu þar sem vöruskorturinn í landinu er yfirþyrmandi og verðbólgan sömuleiðis. Öðru hvoru birtast fréttir af ástandinu sem ná meira að segja hingað til Íslands, sjálfsagt eru þar þekktastar fréttir um skort á bleyjum og smokkum. Verst af öllu er þó að Venesúela treystir algerlega á innflutta matvöru og hillurnar hafa smám saman verið að tæmast. Að minnsta kosti þrír ólíkir markaðir eru með gjaldeyri og en áframhaldandi olíuverðslækkun mun sjálfsagt þurrka upp allan gjaldeyri í landinu.   

Venesúela er í 176. sæti þegar kemur að efnahagslegu frelsi. Ef eitthvað er þá sígur landið heldur niður á þessum lista sem horfir til atvinnufrelsis, frelsi fjármagns, frelsi til fjárfestinga og viðskiptafrelsi. Landið er í 28. sæti af 29 löndum Suð- og Mið-Ameríku. Aðgerðir stjórnvaldar undanfarin misseri hafa komið landinu stöðugt neðar á öllum mælikvörðum frelsis.  Nú eru 16 ár síðan Chaves hóf baráttu sína fyrir sósíalisma 21. aldarinnar. Aðferð hans byggðist á fráleitri efnahagsstefnu þar sem keyrði upp útgjöld ríkisins og endaði í óðaverðbólgu. Þegar á hefur liðið hafa mannréttindi minnkað, um leið og efnahagslegt frelsi hefur smám saman horfið.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.