c

Pistlar:

28. nóvember 2015 kl. 13:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bókadómur - Eftirlýstur í ríki Pútíns

Forseti Rússlands, Vladimir Pútín, er líklega umdeildasti þjóðarleiðtogi samtímans. Hann stýrir fallandi heimsveldi af mikilli hörku og er af mörgum talin sá sem getur haft mest áhrif á það hvort við á Vesturlöndum lifum í friði eða stríði. Það er fróðlegt að kynnast huga fólks í fyrrum leppríkjum Sovétríkjanna/Rússlands gagnvart þessum risa í austri. Í gegnum tíðina hefur flest sú ógn sem þessar þjóðir hafa upplifað komið úr austri. Þess vegna sækja þessi lönd fast að fá inngöngu í Evrópusambandið og Nató. Öll samvinna í vestur er hugsuð út frá öryggishagsmunum þessara hrjáðu þjóða sem oftar en ekki hafa orðið að þola yfirgang af hálfu hins fyrirferðarmikla nágrana. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar við horfum á þennan heimshluta.

En margt hefur breyst frá því Sovétríkin liðuðust í sundur 1991. Á þeim tíma var mannfjöldi Sovétríkjanna og Bandaríkjanna svipaður. Bæði ríkin féllu undir að vera stórveldi í hernaðarlegum skilningi. Það var efnahagsþátturinn sem skildi á milli og að lokum hrundi efnahagur Sovétríkjanna og einræði sovéska kommúnistaflokksins um leið. Nú eru íbúar Bandaríkjanna 330 milljónir og fer fjölgandi en íbúar Rússlands eru 170 milljónir og fækkar. Rússland er nú land stéttarandstæðna og ójöfnuðar þar sem spilltir ólígarkar hafa hrifsað til sín gríðarleg auðævi landsins. Svik, mútur, spilling og misþyrmingar virðast viðgangast. En þó að Rússland nú sé ekki það sem Sovétríkin voru þá er það hernaðarveld og undir stjórn manns eins og Pútíns er erfitt að ráða í það hvernig tekið verður á málum. Við sjáum það nú síðast á þróun mála í Sýrlandi.eftirlystur

Eftirlýstur er saga William (Bill) Browder, sem setti á laggirnar vogunarsjóð í Rússlandi á seinni hluta níunda áratugarins og lendir upp á kannt við Pútin eftir ævintýralegan uppgang. Hann stýrði Hermitage Capital Management sem réði um tíma yfir 4,5 milljörðum Bandaríkjadala. Browder á athyglisverða ættarsögu. Afi hans, Earl Browder, var í áratug foringi bandaríska kommúnista, í framboði til forseta Bandaríkjanna 1936 á vegum Kommúnistaflokksins bandaríska. Hann afrekaði það meðal annars að komast á forsíðuna á Alþýðublaðinu í þá daga. Synir Earls urðu menntamenn. Felix, faðir Bills, varð forseti stærðfræðideildar Chicago-háskóla og fékk vísindaorðu úr hendi Bills Clinton forseta 1999 og yngri bræður hans, Andrew og Tom, urðu báðir kunnir stærðfræðingar á eigin forsendum. Tom var forseti Stærðfræðifélags Bandaríkjanna og forseti stærðfræðideildar Princeton-háskóla og Andrew var forseti stærðfræðideildar Brown-háskóla. Hér er því sögð áhugaverð ættarsaga og fer fyrsti hluti bókarinnar í að rekja það.

Í öðrum hluta bókarinnar er Browder komin til Rússlandi og nær að hagnast ótrúlega í því furðulega efnahagsumhverfi sem þar ríkti á tíunda áratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar aldar. Líklega hefur mannkynsagan ekki séð annað eins. Rússlandi er gríðarlega auðugt af náttúrugæðum og eftir fall Sovétríkjanna varð mikil barátta um eignarhald yfir þessum auðævum og er það einn helsti kostur bókarinnar hve skilmerkilega þetta ástand er rakið. Það er sláandi að lesa um að auðævi, sem samsvara olíulindum Kuwait, hverfa úr eignasafni Gazprom olíurisans án þess að neinn átti sig á því! Margar slíkar sögur úr rússnesku viðskiptalífi fylgja og líklega eru þær einn helsti styrkur bókarinnar. Að maður sem hefur náð jafn langt í rússnesku viðskiptalífi og Browder skuli opna sig með þessum hætti er dýrmætt fyrir alla þá sem vilja setja sig inn í rússneskt þjóðlíf. Hér á þessum vettvangi var nýlega fjallað um efnahag olíuframleiðsluríkja.

En hvaða augum er hægt að líta Vladimír Pútin? Það er ekki einfalt en við verðum þó að reyna til að skilja það umhverfi sem hann sprettur úr. Jú, hann er pólitískt kamelljón, miskunnarlaus en virðist þó færa Rússum einhverja trú og sjálfstraust. Svo mjög að hann virðist fær um að leiða þá eitthvert sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar, með pólitískt aðhald, næðu aldrei að gera. Við og við örlar jafnvel á aðdáun á Pútin, hann sé kraftmikill leiðtogi sem láti ekki smáatriðin vefjast fyrir sér. Það er hættulegur hugsanaháttur. Browder dýpkar skilning lesenda á Pútín eins og þessi frásögn ber með sér:

Velta má fyrir sér hvers vegna Vladímír Pútín leyfði mér að gera þetta. Svarið er að um skeið fóru hagsmunir okkar saman. Þegar Pútín varð forseti í janúar 2000 fékk hann titilinn forseti Rússneska sambandsríkisins en ólígarkar, héraðsstjórar og glæpagengi höfðu hrifsað til sín hið eiginlega forsetavald. Jafnskjótt og Pútín tók við völdum hófst hann handa við það forgangsverkefni að ná valdinu af þessum mönnum og koma því í réttar hendur í Kreml — eða réttara sagt, í eigin tvær hendur.

Viðvíkjandi mér og baráttu minni gegn spillingu beitti hann í grundvallaratriðum pólitíska heilræðinu að „óvinur óvinar þíns er vinur þinn”. Hann notaði starfsemi mína fyrir yfirskin til að slá óvini sína í hópi ólígarka út af laginu. Ég var svo hugfanginn af eigin árangri og hagnaði sjóðsins að ég skildi þetta ekki. Í fávisku minni hélt ég að Pútín væri að hugsa um almannaheill og vildi af einlægni reyna að hreinsa til í Rússlandi.

Margir hafa spurt hvers vegna ólígarkarnir drápu mig einfaldlega ekki fyrir að afhjúpa spillingu þeirra. Það er góð spurning. Í Rússlandi er fólk drepið af miklu minna tilefni. Þetta var fullkomlega löglaust samfélag þar sem allt gat gerst og gerðist oft. Það sem bjargaði mér var ekki ótti neins við arm laganna heldur vænisýki. Rússar eru þjóð sem þrífst á samsæriskenningum. Alltaf hlaðast upp mörg lög af skýringum á því hvers vegna eitthvað gerist og engin skýringanna er einföld. Í hugum Rússa var óhugsandi að yfirlætislaus Bandaríkjamaður sem kunni varla stakt orð í rússnesku væri að ráðast gegn voldugustu ólígörkunum upp á eigin spýtur. Eina trúlega skýringin var að ég væri að leppur einhvers voldugs manns. Þegar litið er til þess að sérhverri baráttu minni við ólígarkana lauk með afskiptum Pútíns eða ríkisstjórnar hans héldu flestir að enginn annar en Vladímír Pútín væri þessi voldugi maður. Það var fáránlegt. Ég hafði aldrei hitt Pútín en allir héldu að ég væri „maður Pútíns” og enginn snerti mig.” (Bls. 155)

Að þekkja Rússlands Pútíns er okkur Íslendingum mikilvægt sem öðrum. Að því leyti er bók Browder mikilsvert innlegg. Rússum er gjarnt að hugsa um auðlindir og landsvæði og þeir hafa ekki með öllu fallið frá því að hugsa og framkvæma eins og nýlenduveldi. Innlimun Krím og átökin í Úkraínu eru skýrt dæmi um hvað Pútín er fær um að gera. Þetta getur skipt okkur Íslendinga máli. Um norðurslóðir hafa verið deilur og þekkt er það atvik sem varð um yfirráðarétt á svæðinu árið 2007 þegar Rússar komu fána sínum fyrir á hafsbotni undir Norðurpólnum með kafbáti. Þessi gerningur var hugsaður sem táknræn aðgerð til að sýna fram á yfirráðarétt þeirra á svæðinu. Það er því skiljanlegt þegar kaldastríðssérfræðingar hér heima og erlendis lýsa yfir áhyggjum sínum af þróun mála. Hafa verður þó í huga að Rússar njóta annars konar samúðar á vesturlöndum en Sovétríkin áður fyrr. Þrátt fyrir allt hefur pólitíkin breyst nokkuð. Þess mikilvægara er að fá bók eins og Eftirlýstur til að fá innsýn inn í þann gjörspillta heim sem Rússland Pútíns sannarlega er. Þessi bók er nauðsynleg hverjum þeim sem vill setja sig inn í stöðu Rússlands og skilja þau öfl sem þar ráða ríkjum. Að því leyti er hún hvalreki fyrir íslenska lesendur.

Því verður ekki neitað að bókin Eftirlýstur, hefur mikil áhrif á lesandann. Hún situr í honum. Ef til vill er það ástæða þess að um þegar hefur hún verið þýdd á 25 tungumál, en hún kom fyrst út í Bandaríkjunum og Bretlandi í vor. Ekki spillir svo fyrir að bókin er hörkuspennandi aflestrar, rétt eins og um sakamálasögu sé um að ræða. Það þarf því engum að kom á óvart að þegar er hafin undirbúningur á því að gera kvikmynd eftir bókinni í Hollywood.

Eftirlýstur (Red Notice)

Höfundur: Bill Browder

Útgefandi:  Almenna bókafélagið

Útgáfuár: 2015

358 bls.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.