c

Pistlar:

10. janúar 2016 kl. 16:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gríðarleg fjölgun starfa

14 til 15.000 ný störf bættust við íslenskan vinnumarkaði á árunum 2013-2015. Samkvæmt nýrri spá Vinnumálastofnunar eru góð líkindi til þess að störfum geti fjölgað um 8.000 á næstu tveimur árum. Af því glögglega sjá að gríðarleg breyting hefur orðið en líkur eru á að störfum fjölgi um hvorki meira né minna en 22.000 til 23.000 þúsund á kjörtímabilinu. Það jafngildir því að störfum fjölgi um nálega 480 hvern einasta mánuð.  Af þessu sést að staðan á vinnumarkaði er að mörgu leyti mjög góð ef litið er til þróunar atvinnuleysis, en skráð atvinnuleysi hefur lækkað úr um 8% árin 2009 og 2010 í 3,6% á árinu 2014 og um 3% á árinu 2015.  Vinnumálastofnun leyfir sér að álykta að skráð atvinnuleysi fari jafnvel niður undir 2,5% á næsta ári. Líklega erum við þá að horfa til einhvers sem mætti kalla náttúrulegt atvinnuleysi en það er skilgreint sem það stig atvinnuleysis sem hagkerfið nálgast til langs tíma litið.

Þessi þróun sannar enn og aftur hið augljósa samband hagvaxtar og atvinnu. Í skýrslunni er bent á þetta sterka samband milli hagvaxtar og fjölgunar starfa og undanfarin ár hefur störfum fjölgað um nálægt 0,8% fyrir hvert 1% hagvaxtar. Það þýðir að störfum gæti fjölgað um nálægt 5.500 í ár, enda benda tölur úr vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar fyrstu þriggja ársfjórðunga 2015 til svipaðrar niðurstöðu. Þá má búast við að störfum fjölgi um 3.500-4.000 á árinu 2016 verði hagvöxtur milli 3 og 4%. Niðurstöður nýrrar könnunar meðal 400 stærstu fyrirtækjanna (sem framkvæmd var af Samtökum atvinnulífsins) benda til hins sama, en þar er reiknað út að störfum muni fjölga um nálægt 1.800 á næstu 6 mánuðum á almennum markaði og því um nálægt 3.600 yfir heilt ár ef reiknað er með að þróunin haldi áfram í svipuðum dúr út árið 2016. Því má gera ráð fyrir að skráð atvinnuleysi verði um 3% að jafnaði 2015 og fari jafnvel niður undir 2,5% á því næsta.

Samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar verður fjöldi starfandi karla á árinu 2016 orðinn meiri en hann var á árunum 2007 og 2008 og fjöldi starfandi kvenna er nú þegar orðinn meiri en hann hefur verið nokkru sinni áður. starfandi

Sögulega lítið atvinnuleysi

Þá er það einstaklega ánægjulegt að sá efnahagsbati sem orðið hefur síðustu ár virðist að einhverju marki ná til flestra svæða landsins. Þannig er atvinnuleysi nú orðið sögulega mjög lítið víðast hvar um landið. Um margra ára skeið hefur skráð atvinnuleysi verið mun meira á Suðurnesjum en annars staðar á landinu og svo var enn árið 2015 þó svo það hafi lækkað mikið síðustu misseri og var að jafnaði um 4% á árinu 2015. Þetta var fjallað rækilega um hér í pistli fyrir skömmu. Af þeim 14-15.000 nýju störfum sem bæst hafa við á vinnumarkaði á árunum 2013-2015 eru um 9.500 á höfuðborgarsvæðinu og um 5.000 utan höfuðborgarsvæðisins.

Atvinnuleysið var rúm 3% á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2015 og innan við 3% á öðrum svæðum landsins. Í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar kemur fram að á árinu 2013 fjölgaði störfum hlutfallslega meira utan höfuðborgarsvæðisins en á höfuðborgarsvæðinu. Á árinu 2014 var fjölgun starfa hins vegar fyrst og fremst bundin við höfuðborgarsvæðið, en á árinu 2015 virðist sem fjölgunin verði svipuð á höfuðborgarsvæðinu og utan þess og virðist því meira jafnvægi vera að skapast í fjölgun starfa milli landshluta.  

Langtímaatvinnuleysi að hverfa

Það er einstaklega gleðilegt að langtímaatvinnuleysi hefur minnkað hratt undanfarin frá því það var mest árin 2011 og 2012 um 36%. Á árinu 2015 voru að jafnaði um 22% atvinnulausra langtímaatvinnulausir, eða um 1.150 að jafnaði af þeim 5.400 sem að jafnaði voru á atvinnuleysisskrá. Nú reynir á margvísleg félagsleg úrræði til að halda áfram að lækka þessa tölu en augljóst er að íslenskur vinnumarkaður býr við einstök skilyrði þegar kemur að atvinnuþátttöku.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.