c

Pistlar:

23. janúar 2016 kl. 13:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nokkur orð um hagvöxt og kaupmátt

Ef marka má áhersluþætti umræðunnar undanfarin misseri þá virðast Íslendingar vera farnir að taka efnahagslegri hagsæld sem gefnum hlut. Það sést best á því að í vikunni birtust tölur um að kaupmáttur hefði aukist um 7,6% árið 2015. Þeim upplýsingum var mætt með tómlæti þess sem hefur engar áhyggjur. Og hefði þó ekki síður átt að vekja athygli sú staðreynd að vísitala kaupmáttar launa hefur ekki hækkað jafnmikið á einu ári frá því að mælingar hófust.

Þetta sést á því að samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði launavísitala um 0,9% í desember í fyrra og síðustu tólf mánuði hefur vísitalan hækkað um 9,7%. Vísitala kaupmáttar launa hækkaði um 0,6% í desember og hefur þar af leiðandi hækkað um 7,6% síðustu tólf mánuði eins og áður sagði.

Kaupmáttur launa hefur ekki aukist jafn mikið á tímabilinu janúar til desember á neinu því ári sem Hagstofan hefur tölur yfir. Ná tölur yfir vísitölu kaupmáttar aftur til ársins 1989. Og það sem meira er, þetta er annað árið í röð sem við sjáum gríðarlega kaupmáttaraukningu. Árið 2014 hækkaði vísitala kaupmáttar laun um 5,8% á þessu tímabili og þarf svo að fara aftur til ársins 1998 til að finna meiri hækkun á vísitölunni, en á tímabilinu janúar til desember það ár hækkaði vísitala kaupmáttar launa um 6,5%.hagv

Hagkerfið í upphafi árs

Lítum á nokkra punkta í upphafi árs.

S&P hækkar lánshæfiseinkunn ríkissjóðs:

  • Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard og Poor‘s tilkynnti nú um miðjan mánuð um hækkun á lánshæfiseinkunn fyrir langtímaskuldbindingar Ríkissjóðs Íslands úr BBB í BBB+. S&P hefur einnig staðfest óbreytta einkunn til skamms tíma sem A-2.
  • Í fréttatilkynningu S&P kemur fram meðal annars að ákvörðun um hækkun lánshæfismatsins taki fyrst og fremst mið af árangri stjórnvalda frá því í júní 2015 við lausn vandamála sem staðið hafa í vegi fyrir losun fjármagnshafta. Þá gerir S&P ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs og vaxtagreiðslur lækki á næstu fjórum árum.
  • Frekari hækkun á lánshæfismatinu er háð því að höft verði afnumin án þess að viðskiptajöfnuður eða fjármálastöðugleiki raskist. Einnig gæti lánshæfiseinkunnin hækkað ef tekst að selja eignir úr stöðugleikaframlagi hraðar en áætlað er og afraksturinn nýttur til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Á hinn bóginn gæti lækkun orðið ef launahækkanir valda efnahagslegum óstöðugleika, losun hafta tefst eða veruleg lækkun gjaldeyrisforða leiðir til þrýstings á gengi krónunnar.
  • Samhliða þessu hefur lánshæfiseinkun ríkisfyrirtækja hækkað,

Nýsköpunar- og tæknigeirinn hér á landi er í mikilli sókn:

  • Í nýlegum Markaðspunktum Arion banka kemur fram að vægi upplýsingatækni auk vísindarannsókna og þróunarstarfs í VSK-veltu hafi aukist og verið 2,3 prósent í janúar til október í fyrra samanborið við 1,6 prósent árið 2009.
  • Sé horft á nýlega fyrirtækjatölfræði Hagstofunnar má sjá að á flesta mælikvarða er vöxtur þessara greina meiri en annarra. T.a.m. fjölgaði þessum fyrirtækjum um 55 milli 2012 og 2014, starfsmönnum fjölgaði um 400 og tekjur jukust um tæpa 22 milljarða króna.
  • Því kemur lítið á óvart að sókn tækni- og nýsköpunargeirans birtist einna helst í aukinni fjárfestingu: Á árinu 2015 nam ný fjármögnun slíkra fyrirtækja, skv. úttekt The Nordic Web, um 194 milljónum dollara, eða sem jafngildir 25 milljörðum króna samanborið við 11,5 milljónir dollara árið 2014.
  • Til að setja upphæðirnar í samhengi, þá má ætla að 25 milljarðar sé tæplega einn tíundi af atvinnuvegafjárfestingu á Íslandi árið 2015.
  • Þetta gerist í kjölfars umtalsverðrar aukningar á framlagi ríkissjóðs til nýsköpunar og rannsókna.
  • Fréttir og getgátur um að íslensk tæknifyrirtæki séu að hverfa úr landi eru þagnaðar enda reyndist lítil innistæða fyrir þeim.

Krónan styrkist og gjaldeyrisforðinn vex:

  • Á árinu 2015 styrktist gengi krónunnar um 7,9 prósent, velta á gjaldeyrismarkaði jókst um 85 prósent og var hlutur Seðlabankans í veltunni 55 prósent.
  • Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 123 milljarða króna og var í árslok 653 milljarðar.
  • Forðinn jókst mest vegna hreinna gjaldeyriskaupa Seðlabankans um sem nemur 272 milljörðum króna á árinu en á móti lækkaði forðinn m.a. vegna uppkaupa ríkissjóðs á eigin bréfum í erlendum gjaldmiðli að andvirði 42 milljarða króna. Seðlabankinn keypti rúmlega tvöfalt meira á árinu 2015 en 2014.
  • Alls námu hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans á millibankamarkaði 272,4 milljörðum króna á árinu 2015, sem nema um 12,5 prósent af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins og var aukningin um 140 prósent á milli ára.
  • Til samanburðar námu gjaldeyriskaup á árinu 2014 um 5,6 prósentum af landsframleiðslu þess árs. Heildarvelta á gjaldeyrismarkaðnum jókst um 85 prósent á milli ára og nam 492,7 milljörðum króna árið 2015.
  • Hlutur Seðlabankans í heildarveltu nam um 55 prósent árið 2015 en um 43 prósent árið 2014.
  • Markmið gjaldeyriskaupa í aðdraganda losunar hafta er annars vegar að stækka gjaldeyrisforða og auka þann hluta hans sem ekki er fjármagnaður með erlendum lánum og hins vegar að draga úr sveiflum í gengi krónunnar.

Gríðarleg lækkun skulda:

  • Áformað er að lækka skuldir ríkissjóðs um 13% á þessu ári.
  • Í lok ársins ætti skuldahlutfallið að vera komið undir 50% en það var hæst 86% á árinu 2011.
  • Á síðastliðnu ári fyrirframgreiddi ríkissjóður um 150 milljarða króna af innlendum og erlendum skuldum.
  • Umræddar fyrirframgreiðslur hafa að öðru óbreyttu um 7 milljarða kr. áhrif til lækkunar vaxtagjalda á ári hverju.
  • Heildarskuldir ríkissjóðs í árslok 2015 eru áætlaðar um 1.349 milljarðar kr. til samanburðar við 1.492 milljarða kr. í árslok 2014.
  • Samsvarar það um 10% lækkun skulda á milli ára.
  • Á árinu 2016 er áætlað að skuldir ríkissjóðs lækki enn frekar og nemi 1.171 milljörðum kr. í lok ársins.

Gríðarleg fjölgun starfa:

  • 14 til 15.000 ný störf bættust við íslenskan vinnumarkaði á árunum 2013-2015.
  • Samkvæmt nýrri spá Vinnumálastofnunar eru góð líkindi til þess að störfum geti fjölgað um 8.000 á næstu tveimur árum.
  • Af því glögglega sjá að gríðarleg breyting hefur orðið en líkur eru á að störfum fjölgi
  • um hvorki meira né minna en 22.000 til 23.000 þúsund á kjörtímabilinu.
  • Það jafngildir því að störfum fjölgi um nálega 480 hvern einasta mánuð.
  • Af þessu sést að staðan á vinnumarkaði er að mörgu leyti mjög góð ef litið er til þróunar atvinnuleysis, en skráð atvinnuleysi hefur lækkað úr um 8% árin 2009 og 2010 í 3,6% á árinu 2014 og um 3% á árinu 2015.
  • Vinnumálastofnun leyfir sér að álykta að skráð atvinnuleysi fari jafnvel niður undir 2,5% á næsta ári.

Um hagvöxt:

  • Hagvaxtarhorfur til næstu tveggja ára eru meðal þeirra bestu meðal þróaðra ríkja samkvæmt spá AGS (sem telst varfærin samkvæmt spá innlendra aðila).
  • Greiningardeild Arion spáði því að hagvöxtur síðasta árs yrði 5,4%, sem er mesti hagvöxtur sem mælst hefur síðan 2007, en að hagvöxtur áranna 2016-2018 verði nokkru minni og nálægt langtímameðaltali.
  • Gert er ráð fyrir að vöxturinn verði að mestu leyti drifinn áfram af vexti í fjárfestingu og einkaneyslu.
  • Líklega verður aukinn ferðamannastraumur ein helsta driffjöður vaxtar í útflutningi á komandi árum. Þó er gert ráð fyrir að framlag utanríkisviðskipta verði lítillega neikvætt á næstu tveimur árum þar sem gert er ráð fyrir talverðum vexti í innflutningi.
  • Talið er að viðskiptajöfnuður verði engu að síður jákvæður á næstunni, að gefnu föstu gengi.
  • Hér má sjá kröftugan vöxt innlendrar eftirspurnar, framleiðsluslaki er að breytast í framleiðsluspennu og hefur störfum farið ört fjölgandi samhliða kaupmáttaraukningu.
  • Þrátt fyrir viðsjár á hinum alþjóðlegu mörkuðum má ætla að hagvöxtur á Íslandi verði umtalsvert betri en í nágranalöndunum.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.