c

Pistlar:

4. febrúar 2016 kl. 15:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Marokkó - þar sem kóngurinn einn ríkir

Í Marokkó búa 33 milljónir manna, heldur færri en í nágranaríkinu Alsír, en landamæri landanna hafa nú verið lokuð í 21 ár. Í Marokkó ríkir þingbundin konungsstjórn þar sem marokkóska þingið er þjóðkjörið en konungurinn, Múhameð VI (Mohammed VI), hefur mikil völd, sérstaklega í málefnum hersins, utanríkismálum og trúmálum. Konungur getur gefið út konunglegar tilskipanir sem hafa lagagildi og hann getur leyst þingið upp án þess að þurfa að óttast eftirmála. Eins og víðar í múslimskum löndum er veraldlegu og andlegu valdi blandað saman en hér hefur áður verið gert að umfjöllunarefni sá vandi arabíska heimsins. Ef á reyndi myndi konungurinn líklega njóta mestra áhrifa sem æðsti trúarleiðtogi landsins enda er hann herforingi hinna trúuðu (e. commander of the Faithful) sem hæfir manni sem rekur ættir sínar til Múhameðs spámanns. Valdið er því hans en Múhameð VI, sem tók við völdum 1999, hefur sýnt viðleitni til að nútímavæða landið, án þess þó að slaka nokkuð á valdataumunum. Ef módel hans gengur upp er það sigur fyrir þá sem trúa á menntað einveldi. Múhameð VI var alinn upp til að taka við konungsveldinu og hann er með doktorsgráðu í lögfræði frá Nice í Frakklandi og talar arabísku, ensku, spænsku og frönsku. Mohammed_VI

Í Marokkó ríkir hins vegar dágóður friður og landið er eitt fárra Arabaríkja sem ferðamönnum er þokkalega óhætt að heimsækja. Enda stendur metnaður yfirvalda til að fjölga ferðamönnum verulega en á síðasta ári heimsóttu tæplega níu milljónir manna landið en stefnt er að því að tvöfalda þann fjölda á næsta áratug. Mikil uppbygging er í ferðamannaiðnaðinum sem og ýmsum  öðrum iðnaði. Undirritaður hyggst kynna sér þetta af eigin raun í páskavikunni.

Óleyst deila um Vestur-Sahara

Marokkó hefur gert tilkall til landsvæðisins Vestur-Sahara sem hefur verið undir marokkóskri stjórn að meira eða minna leyti síðan 1975, án þess þó að yfirráðin séu viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. Þar er við Polisario-hreyfinguna að eiga sem heldur úti 5.000 manns undir vopnum. Allt er þar þó með nokkuð kyrrum kjörum en deilan verður að teljast óleyst. Í Vestur-Sahara eru miklar fosfat námur en fosfat er ein helsta útflutningsvara Marokkó þó breytingar verði væntanlega á því en metnaðarfull áform eru um uppbyggingu annars konar iðnaðar.  

Sem stendur eru metnaðarfyllstu áformin á sviði orkumála en árið 2008 var 56% af orkuþörf landsins fullnægt með kolaorkuverum. Marokkó hyggst nýta eyðimerkur sínar fyrir sólarorkuver og selja orkuna til Suður-Evrópu. Þannig yrði landið að nokkurskonar sólarorkubatteríi fyrir orkuþyrsta Evrópu. Þetta eru einstök áform og ekki langt í að orkusalan hefjist. Lengst af hefur meginþorri erlendrar fjárfestingar í Marokkó komið frá Evrópu og sérstaklega eru Spánverjar og Frakkar fyrirferðamiklir en franska er útbreidd í Marokkó. Seinni ár hafa þó arabískir fjárfestingasjóðir úr Persaflóanum sótt á og standa þeir nú undir um 20% af erlendri fjárfestingu.

Land andstæðna

Það er kannski klisjukennt að tala um land andstæðna en þær eru sannarlega margar í Marokkó. Landfræðilega mótast landið af Atlasfjöllunum sem teygja sig frá norðri til suðurs. Þar eru ágæt skíðasvæði en í þeim hefur mælst mesti kuldi Afríku (-24 gráður) en hinum megin við þau er sólbökuð Sahara eyðimörkin. Atlasfjöllin draga til sín mikinn raka og miklar ár renna til sjávar. Skógur þekur um 12% landsins og þar hefur lengst af verið fjölbreytt dýralíf. Í eina tíð mátti finna fjallaljóni í Atlasfjöllunum en þeim var útrýmt. Þar má enn finna birni og hlébarða en líklega teljast þeir í útrýmingarhættu. Því miður hefur verið talsverður ágangur á lífríki Marokkó og gróður og dýralíf víða gefið eftir.  

Þegar Múhameð VI tók við völdum lofaði hann að takast á við fátækt og misskiptingu og skapa ný störf auk þess sem mannréttindi yrðu bætt. Að sumu leyti hefur þetta tekist. Marokkó er nú eitt ríkasta land Afríku þó ekki geti það státað af olíulindum. Meðaltekjur þar eru nokkru hærri en í Íran og atvinnuleysi er með minna móti í samanburði við önnur ríki Afríku eða rétt um 10%. Um 5% landsmanna búa við örbyrgð ef marka má alþjóðlegar tölur. Frá árinu 1993 hefur verið stefnt að því að einkavæða ýmsa geira atvinnulífsins og hefur það ýtt undir fjárfestingu og atvinnusköpun. Hagvöxtur hefur verið með ágætum undanfarin ár og ef landinu tekst að bægja frá þeirri bylgju öfga og átaka, sem finna má í öðrum Arabaríkjum, ættu landsmenn að geta horft sæmilega björtum augum til framtíðarinnar.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð