c

Pistlar:

18. apríl 2016 kl. 22:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Markaðsborgin Marrakesh

Þegar nýtt land er heimsótt sem ferðamaður þá reynir í sjálfu sér lítið á gestrisni, ferðamaðurinn er greiðandi viðskiptavinur og allt atlæti mótast af því. Sérstaklega þegar hann heimsækir staði sem eru beinlínis að gera út á þjónustu við þá. Ekkert við því að segja, ferðamennska er mest vaxandi starfsemi heims sem þýðir væntanlega að það er bæði framboð og eftirspurn. Lesendur pistla minna hafa væntanlega tekið eftir að undanfarið hef ég verið nokkuð upptekin af Marokkó sem er reyndar fyrsta og eina Afríkuríkið sem ég hef heimsótt. Eftir ótal heimsóknir til Evrópu var stigið stutt skref inn í Afríku.

Marokkó er á mótum tveggja heima, suðurhluti Spánar við bæjardyrnar og það hefur að sjálfsögðu mikil áhrif. Bæði á þann hátt að mikil viðskipti og tengsl eru milli Marokkó og Evrópu og einnig speglast þessir heimar í hvor öðrum. Um Marokkó fer mikill hluti þeirra flóttamanna sem reyna að komast til Spánar og svo eftir atvikum áfram til Evrópu. Slíkt skapar ákveðið ástand, smyglarar og örvæntingafullt fólk berjast við yfirvöld og reglulega berast fréttir af mannsköðum. Landamærastofnun Evrópubandalagsins, FRONTEX, berst við afleiðingar þessa og íslenskt varðskip hefur meira að segja átt hlut að máli við að bjarga flóttamönnum á ofhlöðnum bátum. Slíkt ástand hefur ríkt í sjónum milli Marokkó og Spánar löngu áður en athyglin fór að beinast að bátaflóttamönnum Miðjarðarhafsins. Þessi flóttamannastraumur hefur eðlilega haft mikil áhrif á mannlífið nyrst í landinu. Valdamiðja Marokkó er hins vegar á Atlantshafsströndinni, líklega á milli stærstu borgarinnar Casablanca og höfuðborgarinnar Rabat. Þar er mikil iðnvæðing að eiga sér stað og gríðarleg erlend fjárfesting, meðal annars frá alþjóðlegum bílaframleiðendum sem keppast nú við að setja upp nýjar samsetningaverksmiðjur. Casablanca er fjölmennasta borg Marokkó og þangað koma gjarnan ofurríkir íbúar frá Persaflóasvæðinu, einkum Sádi-Arabíu. Hugsanlega til að slaka á en hömlur trúarinnar eru léttvægari þarna við Atlantshafsströndina.

Brothætt stjórnarfar

Eins og í mörgum löndum Arabaheimsins er stjórnarfarið brothætt. Þótt kóngurinn njóti yfirgnæfandi stuðnings landsmanna þá er víða að finna öfl sem vilja breyta og steypa. Daginn eftir árásirnar í Belgíu þann 22. mars síðastliðin birtust öryggisverðir á öllum götuhornum og á ströndinni við Agadír stóðu allt í einu þungvopnaðir hermenn með reglulegu millibili. Heimamönnum var brugðið og við ferðalangar frá Íslandi máttu hlusta á nokkrar tilfinningaþrungnar ræður heimamanna sem lögðu áherslu á samkennd og frið, einlægar ræður og áhrifaríkar á að hlusta. Marokkóbúar hafa vitaskuld fylgst með þróuninni annars staðar í Arabaheiminum sem meðal annars hefur leitt til þess að einstaka ríki hafa hrunið, skýrustu dæmin um það eru Írak, Sýrland, Líbýa. Afganistan fellur líka í þennan hóp þótt landið sé ekki hluti Arabaheimsins. Um líkt leyti og upplausn hófst í Líbýu fóru Marokkóbúar að finna fyrir óróanum.

Allir gera sér grein fyrir því að ástandið er brothætt og nú eru nákvæmlega fimm ár síðan 17 manns létu lífið í sprengjuárás í Marrakesh. 20 til viðbótar særðust. Marokkósk yfirvöld kenndu  Al Qaeda um. Flestir hinna látnu voru ferðamenn, þar á meðal hópur franskra stúdenta en Frakkar eru áberandi í Marokkó og franska útbreidd. Það var skrítið að ganga framhjá Aragan kaffihúsinu þar sem þetta gerðist en miðborg Marrakesh er nú eitt flak. Ástæður þess eru ánægjulegri þar sem nú er verið að undirbúa framhaldsráðstefnu um loftslagsmál í nóvember næstkomandi (UNFCCC COP 22). Kóngurinn er gestgjafi ráðstefnunnar og ráðist var í miklar endurbætur á miðbæ Marrakesh í tilefni þess.2016-03-24 15.51.03

Markaðsborgin Marrakesh

Marrakesh er fjórða stærsta borg Marokkó en hún er staðsett á sléttu umkringdri Atlas-fjöllunum. Þaðan berst mikið vatn og grunnvatnsstaða í borginni há og lítil hætta á vatnsskorti þó staðan á landakortinu gæti bent til annars. Borgin er sérstæð um margt og ásamt Fez líklega sú sem endurspeglar best hina fjölbreyttu menningu landsins. Hún var upphaflega byggð af Berbum en upphaf hennar er miðað við 1062. Sama ár bar það helst til tíðinda á Norðurlöndum að Haraldur Sigurðsson van mikinn sigur á Sveini Úlfssyni, dóttursyni Knúts ríka, við ána Nis í Hallandi en þeir börðust um yfirráð yfir Danmörku. Eins og lesendur Heimskringlu vita glöggt þá fór Haraldur víða, dvalist við hirð Rómarkeisara í Miklagarði (Konstantínópel) og fékk mikið gull hjá tengdaföður sínum, Jaroslav fursta í Kænugarði (Kiev). Sjóður sá mun hafa verið meiri en hafði áður sést á Norðurlöndum. Hugsanlegt er að hann hafi áð í Marokkó á leið sinni um Miðjarðarhafið, í það minnsta dvaldist hann á Sikiley sem er ekki svo langt í burtu. En líklega eru þetta óábyrgar vangaveltur.

En víkjum sögunni aftur að Marrakesh. Miðborgin er römmuð inn af rauðum borgarveggjum sem eru á menningarminjaskrá UNESCO. Þeir eru taldir byggðir um öld eftir að borgin var stofnuð en rauður sandsteinninn er einkennandi fyrir borgina og gefur henni áferð og yfirbragð, svo mjög að það er eins og slái rauðri slikju yfir allt. Enda borgin kölluð „rauða borgin”.

Miðborgin er einn stór markaður þar sem um 5000 verslunareigendur hreiðra um síg í veröld sem er okkur Vesturlandabúum framandi. Þarna er nánast allt sem hugurinn girnist falboðið og varla fyrir þá sem eru mínimalískir í hugsun að ætla sér að staldra þar við. Öllu ægir saman en inn á milli má finna hraðbanka og furðu vestrænar verslanir. Vesturlandabúar eru augljóslega taldir vænlegir viðskiptavinir, svo ekki sé meira sagt. Prúttið er okkur þó framandi þó vissulega séu menn misfljótir að læra það. Á meðan verða norrænir jólasveinar að þola það að vera hlunnfarnir nokkuð reglulega en líklega telst það nokkuð dýrt námskeið í framandi markaðshyggju.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.