c

Pistlar:

23. júní 2016 kl. 17:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Saga Hrunsins að skýrast

Í Morgunblaðinu í dag mátti lesa tvær fréttaskýringar sem verða að teljast mikilvægar fyrir þá sem velta fyrir sér aðdraganda, úrvinnslu og eftirköstum bankahrunsins 2008 en hér leyfir pistlahöfundur sér að tala um Hrunið með stórum staf. Annars vegar eru það upplýsingar um nýja útreikninga á kostnaði ríkissjóðs vegna hrunsins og hins vegar mikilsverðar upplýsingar um það hvernig dansk­ir fjár­fest­ar, með stærstu líf­eyr­is­sjóði lands­ins í broddi fylk­ing­ar, nýttu sér trúnaðar­upp­lýs­ing­ar inn­an úr danska stjórn­kerf­inu til að ná FIH-bank­an­um í Kaup­manna­höfn úr hönd­um Seðlabanka Íslands sem hélt á alls­herj­ar­veði í hluta­bréf­um bank­ans. Segja má að báðar þessar frásagnir skipti lykilhlutverki þegar metið er hvernig yfirvöld stóðu að málum við uppgjör bankahrunsins.

En víkjum fyrst að uppgjöri ríkissjóðs vegna endurreisnar bankakerfisins. Ekki er langt síðan fjármálaráðuneytið birti skýrslu sem þeir dr. Ásgeir Jónsson og dr. Hersir Sigurgeirsson unnu en þar var lagt mat á hreinan kostnað ríkissjóðs af falli viðskiptabankanna haustið 2008 og endurreisn bankakerfisins í kjölfarið. Þá skýrslu má lesa hér en henni verður betur gert skil síðar en óhætt er að segja að furðu lítil umræða hafi verið um hana.

AGS hækkar endurheimturnar

Nú er komin ný skýrsla sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins af svipuðum toga. Þar kemur fram að hreinar tekjur ríkissjóðs, umfram kostnað, af endurreisn bankakerfisins á árunum 2009 til 2016, nema að lágmarki 9% af vergri landsframleiðslu, eða ríflega 200 milljörðum króna. Það er talsvert meira en niðurstaða þeirra Ásgeirs og Hersis sagði um en þar voru þó talsverð frávik eftir forsendum. Þannig metur AGS að endurheimtur ríkisins af endurreisnarferlinu nemi um 43% af vergri landsframleiðslu (VLF) en að kostnaðurinn við endurreisnina hafi jafngilt 34% af VLF. Í skýrslunni segir að þennan árangur megi meðal annars þakka því að kostnaði hafi verið haldið í lágmarki „með varfærnu virðismati á yfirfærðum eignum og staðfastri mótstöðu gegn þjóðnýtingu á tapi af erlendri starfsemi hinna föllnu banka“.

Fjármálaráðherra segir í Morgunblaðinu að útreikninga AGS komi í raun ekki á óvart en að þeir séu ánægjuleg staðfesting á því að þær markvissu aðgerðir sem ríkið hefur gripið til, allt frá árinu 2008, séu að skila tilætluðum árangri. „Þetta er afleiðing af mörgum ákvörðunum sem við höfum tekið í röð allt frá árinu 2008, frá því að neyðarlögin voru samþykkt og við neituðum að leggja á skattgreiðendur kostnað við endurreisn bankakerfisins. Við neituðum að fórna lánshæfi ríkisins til að bjarga bönkunum. Fram að þeim tíma höfðu fræðibækurnar sagt að það væri ekki mögulegt,“ segir Bjarni í Morgunblaðinu og bætir því við að stjórnvöld hafi ákveðið að sigla á móti straumnum og með aðgerðunum skapað fordæmi sem aðrar þjóðir líti nú til. Engin vafi er á því að það er rétt en flest bendir nú til þess að árangursríkar aðgerðir núverandi ríkisstjórnar séu að landa þeirri glæsilegu niðurstöðu” sem einu sinni var lofað af öðru tilefni.fih

Snéru Danir á Seðlabankann?

Þann 19. september 2010 tilkynnti Seðlabanki Íslands að samkomulag hefði náðst við danska og sænska fjárfesta um að þeir keyptu 99,89% hlut í danska FIH-bankanum fyrir samtals 5 milljarða danskra króna. Á þeim tíma hélt Seðlabanki Íslands á 99,89% allsherjarveði í bankanum. Var það komið til vegna láns sem Seðlabankinn hafði veitt Kaupþingi, eiganda FIH-bankans, til þrautavara þann 6. október 2008.

Lánið hafði hljóðað upp á 500 milljónir evra eða sem jafngildir 69 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi gjaldmiðlanna tveggja. Söluverð bankans í viðskiptunum í september 2010 var að fjárhæð 93 milljarðar íslenskra króna (670 milljónir evra) á núverandi gengi. Á þeim tíma var gengi íslensku krónunnar að vísu veikara og í fyrrnefndri tilkynningu Seðlabankans kom fram að söluverðið næmi um 103 milljörðum íslenskra króna eða 670 milljónum evra eins og rakið er rækilega í Morgunblaðinu í dag.

Hér er á ferðinni ein umdeildasta ráðstöfun yfirvalda í Hruninu sjálfur en þetta var hluti af lokatilraun íslenskra stjórnvalda til að halda bankanum á floti þegar lausafjárþurrð var orðin gríðarleg á alþjóðlegum fjármálamarkaði og lánalínur lokuðust hver af annarri.Upplýsingar sem birtar hafa verið í danska viðskiptablaðinu Finans upp á síðkastið varpa frekara ljósi á atburðarásina en frásögn Morgunblaðsins byggir á þeirri umfjöllun. Seðlabankinn sjálfur hefur lengi verið með skýrslu í smíðum sem ætlað er að varpa ljósi á málið og verður forvitnilegt að sjá hvernig þessi atburðarás verður útskýrð þar.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.