c

Pistlar:

5. júlí 2016 kl. 21:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Til móts við óvissuna

Það segir sig sjálft að brúðkaupsdagurinn er heldur gleðiríkari en dagurinn þegar skilnaðarpappírarnir eru staðfestir. Í fyrra tilvikinu er gjarnan boðið til veislu en seinni athöfninni er meira í höndum gleðisnauðra fulltrúa stjórnsýslunnar. Engum dylst að veislan er búin og hver fer í sína átt. Aðskilnaður Breta og Evrópusambandsins er nú á næsta leyti eftir að meirihluti Breta samþykkti útgöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu 23. júní síðastliðin. Niðurstaðan var sú að 52% atkvæðabærra manna sögðu já við útgöngu (Brexit) en 48% sögðu nei. 17.410.742 breskir kjósendur kusu með útgöngu, tæplega 1.300.000 fleiri en vildu vera áfram inni. brexit

Niðurstaðan kom vissulega á óvart. Það er tilfinning flestra að þegar á reyni þá taki kjósendur þann kostinn sem minna rask hefur í för með sér. Það varð ekki í þetta skipti og nú reynir á hvernig unnið verður úr niðurstöðunni en hér var um að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir vikið er breskum stjórnmálamönnum ekki skylt að fara eftir henni en hafa verður í huga að mikill meirihluti breskra þingmanna samþykkti að efna til atkvæðagreiðslunnar. Breska þingið veitti þar af leiðandi atkvæðagreiðslunni mjög sterkt umboð ef svo má segja. Það væri undarleg afstaða til lýðræðisins að samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu og leggjast svo gegn niðurstöðunni af því að mönnum líkar hún ekki.

Leiðtogakreppa um sinn

Og vissulega er margs að gæta núna. Þó að einhversstaðar í regluverki Evrópusambandsins megi finna leiðbeiningar um hvernig bregðast skuli við þegar eitt ríki vill ganga út þá er augljóst að menn þurfa að leggja veginn um leið og hann er farinn. Ekki bætir úr skák að í framhaldinu hefur risið upp pólitísk kreppa í breskum stjórnmálum. Að hluta til var hún fyrirséð þar sem augljóst var að formenn bæði Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins voru með klofna flokka á bak við sig. Forsætisráðherrann David Cameron ákvað að segja af sér enda hafði hann barist gegn útgöngu. Þeir sem þekkja bresk stjórnmál vita að þegar foringjastóllinn er laus þá fara allskonar öfl af stað. Boris Johnson, hinn skeleggi leiðtogi útgöngusinna innan Íhaldsflokksins, varð þannig fyrsta fórnarlamb leiðtogabaráttunnar. Johnson ákvað að draga sig í hlé þegar ljóst var hvernig í pottinn var búið en þá kom í ljós að samstarfsmaður hans, Michael Gove, sat á svikaráðum við hann. Brotthvarf Johnson er áfall fyrir Íhaldsflokkinn og Breta. Hann hefur nú lýst yfir stuðningi sínum við orkumálaráðherrann Andreu Leadsom en fimm þingmenn berjast um leiðtogastólinn. Sem stendur virðist Theresa May njóta mests stuðnings á meðal ráðherra og þingmanna breska Íhaldsflokksins til að verða formaður og hún sigraði í fyrstu um­ferð kosn­inganna um eft­ir­mann Dav­id Ca­merons. May studdi hins vegar áframhaldandi veru innan ESB eins og Cameron og því er allt eins líklegt að framhaldi málsins verði stýrt af stjórnmálamanni sem ekki vildi ganga út. Einhver gæti sagt að það sé pólitískur ómöguleiki!  

Það eru ekki nema ríflega 9 mánuðir síðan Jeremy Corbyn var í kjörinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins. Strax eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna hrundi Skuggaráðuneyti hans og hann berst nú fyrir pólitísku lífi sínu. Fimm dögum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna lýstu þingmenn Verkamannaflokksins yfir vantrausti á Corbyn. 172 þingmenn flokksins kusu með vantrauststillögunni en aðeins 40 voru á móti henni. En í tilviki Verkamannaflokksins (öfugt við Íhaldsflokkinn) má segja að vantrauststillagan sem slík sé fyrst og fremst „ráðgefandi”. Því er það svo að þótt fáir í flokknum hafi trú á leiðtogahæfileika hans þá situr Corbyn enn. Vandræði Verkamannaflokksins gera það að verkum að það er í sjálfu sér engin krafa um að ganga aftur til kosninga í Bretlandi enda þingkosningar til þess að gera nýafstaðnar. Því er það svo að leiðtogakreppa Breta mun leysast innan Íhaldsflokksins.

Lengi andað köldu milli Breta og ESB

Vitaskuld hefur lengi andað köldu í hjónabandi ESB og Breta. Að hluta til stafar það af ólíkum menningartengdum og sögulegum viðhorfum sem meðal annars byggja á ólíkri afstöðu til einstaklingshyggju. Á tímum Margrétar Thatcher (1925-2013) var tekist á af mikilli hörku og meginlandssinnar ásökuðu hana gjarnan um að vilja fá allt fyrir ekkert. Það líkaði Bretum vel en hún var talin halda vel á þeirra málum. Það eru ekki nema tvö ár síðan fyrrum forsætisráðherra Frakka, Michel Rocard, réðist af mikilli hörku á Breta í grein sem birtist  samtímis í The Guardian og Le Monde. „Farið út úr ESB áður en þið eyðileggið það,” sagði Rocard, sem er nýlátin, en hann valdi 70 ára afmælisdag D-dagsins í Normandí til þess að koma með þessa heldur óvinsamlega kveðju. Táknrænt að gera það en sameiginleg styrjaldarreynsla Evrópu hefur löngum verið hið pólitíska bakbein Evrópusambandshugsjónarinnar.

Segja má að æðstu stjórnendur Evrópusambandsins hafi verið í losti eftir atkvæðagreiðsluna og ekki sparað stóru orðin. Jean-Clau­de Juncker, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, sakaði í morg­un Bor­is John­son og Nig­el Fara­ge, sem hafa verið helstu tals­menn þess að Bret­ar yf­ir­gefi sam­bandið, um að hætta um leið og syrti í ál­inn og vandar þeim ekki kveðjurnar. Junckers réðist að Farage, formann sjálfstæðisflokksins UKIP,  á Evrópuþinginu strax eftir atkvæðagreiðsluna og spurði hvað hann hann væri að gera í þingsalnum. Framferði Juncker hefur orðið til þess að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur orðið að setja ofan í við hann. Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble, hefur bætt um betur og boðar að sniðganga verði framkvæmdastjórn ESB í Brussel til að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum úrbótum eftir Brexit.

Þetta sýnir að hluta til vandann. Æðsta stjórn ESB er að því er virðist í eigin heimi. Enda hefur það verið svo að þegar virkilega þarf að ákveða eitthvað þá loka leiðtogar stærstu ríkjanna að sér, helst þá Þýskalandskanslari og Frakklandsforseti. Og svo er öðrum tilkynnt niðurstaðan eftirá. Þessum kvöld- og næturfundum er lýst ágætlega í ævisögu Merkel; Angela Merkel: The Authorized Biography eftir Stefan Kornelius.

Það hve hratt gengur að láta skilnaðinn ganga í gegn er þegar ágreiningsmál enda ekki til nein leiðsögn eins og áður sagði. Það er auðvitað mikilvægt að skynsamlega sé á málum haldið og tryggt að áfram sé gott samstarf milli ESB og Breta. Hvort leiðsögn fæst í gegnum samning EFTA ríkjanna eða EES skal ósagt látið. Líklegt er að Bretar leiti sérlausna en niðurstaða þeirra getur skipt aðrar þjóðir sem eru með sérstaka samninga við ESB máli, þar á meðal auðvitað okkur Íslendinga.

Efnahagslegar afleiðingar

Til skamms tíma verður úrsögnin Bretum erfið. Óróleiki og óvissa er eitur í beinum markaðanna og pundið hefur tekið dýfur. Kauphöllin breska (sem er að sameinast þeirri þýsku) hefur hins vegar komið til baka og margir spá því að pundið muni gera það líka þegar frá líður. Eng­lands­banki hefur sagt að blik­ur séu á lofti í bresku efna­hags­lífi en bank­inn sendi frá sér ít­ar­lega skýrslu í morg­un þar farið er yfir ýmsar sviðsmyndir sem tengjast útgöngunni. Það þarf ekki spámenn til að sjá að aðstæður í fjár­mála­kerf­inu eru og verða krefj­andi á næstunni.

En Englandsbanki hefur ýmislegt uppi í erminni. Hann hefur til­kynnt um áform sín um að slaka á kröf­um um eig­in­fjár­hlut­fall breskra banka. Er mark­miðið að ýta und­ir lán­veit­ing­ar og örva þannig hag­kerfið. „Þetta er grund­vall­ar­breyt­ing,“ sagði Mark Car­ney, banka­stjóri Eng­lands­banka og hægt er að taka undir það. Flest­ir bank­ar Bretlands geta nú aukið út­lán sín um umtalsvert. Það ætti að vera vera breskum heim­ilum og fyr­ir­tækjum í hag og örva fjárfestingu.

Gengi breska punds­ins hef­ur lækkað mikið eft­ir að Bret­ar kusu að segja skilið við Evr­ópu­sam­bandið. Mark Car­ney hef­ur sagt það koma til greina að lækka stýri­vexti Eng­lands­banka til þess að blása lífi í bresk­an efna­hag. Vext­irn­ir eru nú 0,5% eða í sögu­legu lág­marki. Ljóst er að Bretar munu geta nýtt eigin peningastefnu til að örva og hvetja hagkerfið og auðvitað forvitnilegt að sjá hvernig þeim vegnar þegar frá líður. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr mikilvægi þess efnahagssvæðis sem ESB stendur fyrir og enn eigum við eftir að sjá hvernig samningarnir við ESB verða. Mun ESB reyna að kenna Bretum lexíu eða verður skynsamleg lausn fundin.

Það er margt villandi sagt um útgönguna og henni kennt um þjóðfélagslega ólgu í Bretlandi. Margt er ýkjukennt í því og ljóst að andstæðingar útgöngunnar róa þarna undir en þeir hafa nú hrundið af staða undirskriftarsöfnun til að fá nýja þjóðaratkvæðagreiðslu. Að sumra dómi virkar ekki lýðræðið fyrr en þeirra vilji nær fram að ganga. Álitsgjafar á Íslandi hafa jafnvel gefið í skyn að ákvörðunin hafi verið tekin í ölæði! Hvað sem verður þá er ljóst að mikil tímamót eru nú að eiga sér stað í Evrópu og vonandi að ráðamenn hafi gæfu til að stýra málum farsællega. Vilji kjósenda liggur fyrir.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.