c

Pistlar:

19. júlí 2016 kl. 20:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Athafnamenn og ferðamenn á Siglufirði

Það eru rúmur áratugur ár síðan síðan ég kom í fyrsta sinn til Siglufjarðar í tengslum við pæjumót í knattspyrnu sem heimamenn hafa staðið fyrir af miklum myndarbrag um margra ára skeið. Siglufjörður tók vel á móti manni þá, með einstakri veðurblíðu og það var auðvelt að falla fyrir staðnum. Bærinn var heimsóttur í nokkur skipti í framhaldinu en síðan kom hlé þar til leiðin lá aftur til Siglufjarðar í blíðviðri helgarinnar.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á Siglufirði. Fyrir 10 árum skynjaði maður langvarandi hnignun og samdrátt þar sem sveitarfélagið hafði háð baráttu við fólksfækkun og samdrátt í atvinnulífinu. Vitað er að það getur verið erfitt að snúa við þeirri þróun þegar hún er á annað borð hafin og það er ekki séríslenskt fyrirbæri. Það gleymist oft í umræðunni að flest lönd verja háum fjárhæðum í að tryggja byggð sem víðast. Að því leyti er framlag okkar Íslendinga heldur fátæklegt enda fá í stóru landi.2016-07-17 15.29.14

Öryggið tryggt

En nokkrir atburðir hafa snúið við þróuninni fyrir utan að það árar betur í þjóðfélaginu. Um og upp úr 2000 var ákveðið að ráðast í gerð gríðarlegra snjóflóðavarnargarða fyrir ofan Siglufjörð. Þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ákvað að verja umtalsverðum fjármunum í að efla snjóflóðavarnir í kjölfar snjóflóðanna í Súðavík og á Flateyri. Á upplýsingaskilti við garðana fyrir ofan Siglufjörð kom fram að árið 2003 var áætlaður kostnaður við garðana þar 1,5 milljarður króna á þáverandi verðlagi. Garðarnir eru sem gefur að skilja mjög áberandi í fjallshlíðinni fyrir ofan bæinn og hafa að umbylt landslaginu. Að sumu leyti hefur tekist vel til með hönnun þeirra og gaman að fara í göngu þarna. Líklega eru snjóflóðagarðarnir forsenda þess að ásættanlegt sé að styðja við áframhaldandi búsetu á Siglufirði. Ella væri öryggi íbúanna ekki tryggt. Snjóflóðahætta er víða mikil í firðinum og 1919 fórust 16 manns í tveimur snjóflóðum í Siglufirði.

Sameiningar og samgöngubætur

En í framhaldi þess gerðist annað er til framfara getur talist. Í janúar 2006 samþykktu Siglfirðingar og Ólafsfirðingar í kosningum að sameina bæjarfélögin tvö. Það var framfaraskref ekki síst vegna þess að í kjölfarið var ákveðið að ráðast í miklar samgöngubætur og hafin vinna við gerð Héðinsfjarðargangna. Árið 2010 voru Héðinsfjarðargöng síðan opnuð en þau tengja saman Siglufjörð og Ólafsfjörð með viðkomu í Héðinsfirði og er vegalengdin á milli þéttbýlisstaðanna aðeins 15 km. Göngin eru samtals um 10 km. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og hefur rofið einangrun Siglufjarðar en en lengst af voru nær allir flutningar til Siglufjarðar á sjó. Að sumu leyti velti maður fyrir sér af hverju var þetta ekki gert fyrr en hafa verður í huga að það var ekki fyrr en árið 1930 sem fyrst var kominn akvegur á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Líklega höfðu Íslendingar ekki efni á að ráðast í framkvæmdir sem þessar fyrr. En göngin eru skýrt dæmi um hve samgöngubætur eru mikilvægar fyrir byggð úti á landi.

Þegar allt er talið saman, snjóflóðavarnir og samgöngubætur, lætur líklega nærri að samfélagið hafi fjárfest um 20 milljarða króna að núvirði í byggð á Siglufirði. Það eru miklir fjármunir en bærinn virðist blómstra núna.

Athafnamenn og ferðamenn

En fleiri atriði hafa komið til. Róbert Guðfinnsson athafnamaður flutti aftur heim og hefur staðið fyrir umfangsmikilli uppbyggingu á Siglufirði. Um leið hafa ferðamenn nýtt samgöngubæturnar og streyma inn á svæðið. Nú iðar allt af lífi á Siglufirði. Fljótleg ágiskun sagði manni að unnið sé að endurbótum og viðgerðum á hátt í hundrað húsum í bænum auk ýmissa nýframkvæmda. Við vöknuðum við lætin í einum slíkum viðgerðarhópi á mánudagsmorgni! En augljóslega sjá margir tækifæri í að ráðast í fjárfestingar á Siglufirði og bæjarbragurinn hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Ánægjulegt var að sjá vinnu við að klæðningu suður- og austurhlið Salthússins, nýjustu byggingar Síldarminjasafns Íslands. Þar er verið að ganga frá gluggum, gluggaföldum og þakborðum. Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, fyrrverandi for­sæt­is­ráðherra, tók fyrstu skóflu­stung­una að hinum nýja grunni 27. maí 2014 eftir að hafa ákveðið að verka fjármunum til endurbyggingar hússins. Stefnir í að það verði bæjarprýði í framtíðinni en Síldarminjasafnið er stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins.

Við gistum í góðri heimagistinu þar sem húsráðendur voru á þönum við að sinna gestum. Þau höfðu hátt í 10 herbergi í útleigu í tveimur húsum og ferðamannatímabilið nær yfir 5 til 6 mánuði. Yfir vetrartímann kemur síðan nokkuð af fólki sem vill prófa rómað skíðasvæði Siglfirðinga. Þetta veitir fólki góða vinnu og skapar þörf fyrir þjónustu og augljóst að ferðamenn eru að breyta miklu. Við reyndar áttum í erfiðleikum með að panta borð, það var allt upppantað á sunnudagskvöldi á tveimur vinsælustu veitingastöðum bæjarins en fengum að lokum góðan mat á marokkóskum veitingastað á Hótel Siglunesi. Fjölbreytnin greinilega talsverð en í bænum er nú á annan tug staða með vínveitingaleyfi og nýr rekstur víða að spretta upp.

1. janúar 2010 bjuggu ríflega 1200 manns á Siglufirði, sem var mikil fækkun frá blómaskeiði bæjarins á fjórða og fimmta áratugnum. Árið 1950 bjuggu 3100 manns á Siglufirði sem var þá fimmti stærsti kaupstaður landsins. Til viðbótar kom fjöldi aðkomumanna þangað til vinnu um stundarsakir og í brælum þegar ekki gaf til veiða lágu tugir eða jafnvel hundruð skipa á firðinum. Ástæða er til að ætla að nýtt blómaskeið sé að halda innreið sína í þessum nyrsta kaupstað landsins. 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.