c

Pistlar:

3. ágúst 2016 kl. 23:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skattar: Fleiri gjaldendur, hærri tekjur

Álagning opinberra gjalda á einstaklinga færist fram um einn mánuð þetta árið samkvæmt breytingu sem var lögfest í lok síðasta árs. Álagningin 2016 tekur mið af tekjum einstaklinga árið 2015 og eignastöðu þeirra 31. desember 2015.

Álagningin hefur nú legið fyrir í einn mánuð en ítarlegar upplýsingar um hana má sjá í frétt á heimasíðu fjármálaráðuneytisins. Helstu niðurstöður álagningarinnar eru þær að skatttekjur aukast, framteljendum fjölgar og bótaþegum fækkar. Álagningin ber með sér að laun hafa hækkað verulega um leið og verðbólga er í lágmarki. Lág verðbólga veldur því að vísitölubreytingar á bótum eru litlar. Í stuttu máli má segja að álagningin staðfesti að lækkun skatta getur skilað sér í auknum tekjum hins opinbera ef hagvísar þróast á réttan hátt. Afkoma ríkissjóðs er að gjörbreytast þessi misserin.fjar

Þetta staðfestist enn betur þegar innheimtar tekjur á fyrri helmingi árs eru skoðaðar en fjármálaráðuneytið birti tölur þar um í dag. Innheimtar tekjur voru tæplega 401 ma.kr. á fyrri helmingi ársins sem er 25% aukning frá sama tímabili í fyrra. Umfangsmiklir óreglulegir liðir, stöðugleikaframlag og arðgreiðslur, bjaga samanburð milli ára en samanlagt námu þessir tveir liðir 84 ma.kr. það sem af er ári. Ef leiðrétt er fyrir þeim námu innheimtar tekjur ríkissjóðs 317 ma.kr. Þetta er rúmlega 9% aukning milli ára sem endurspeglar almennar launahækkanir og aukin umsvif í efnahagslífinu.

Skatttekjur og tryggingagjöld námu 301 ma.kr. á fyrri helmingi árs og voru 4,7% umfram áætlun. Ljóst er að þróun á vinnumarkaði hefur mikil áhrif þar sem jákvæða frávikið liggur að mestu í tekjuskatti einstaklinga, tryggingagjaldi og virðisaukaskatti sem hefur aukist m.a. vegna aukins kaupmáttar.

En víkjum aftur að álagningaskrá síðasta árs en hún sýnir glögglega gerbreytta eigna og skuldastöðu landsmanna. Nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, jókst um hvorki meira né minna en 15% á árinu 2015.

Lítum á nokkrar tölur þessu til staðfestingar.

80% landsmanna greiða útsvar

Framteljendum fjölgar um 2,1% á milli ára og eru 277.606. Á sama tíma fjölgaði íbúum hér á landi um 1%. Alls fá 181.639 einstaklingar álagðan almennan tekjuskatt og 265.698 fá útsvar eða um 80% landsmanna. Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2016 vegna tekna árið 2015 nemur 1.138 ma.kr. og hefur aukist um 7,4% frá fyrra ári. Til samanburðar hækkaði launavísitala Hagstofunnar að meðaltali um 7,2% milli áranna 2014 og 2015. Samanlögð álagning almenns tekjuskatts og útsvars nemur 306,5 ma.kr. og hækkar um 10,8% frá fyrra ári. Álagður tekjuskattur nemur tæplega 43,8% af heildarfjárhæðinni og álagt útsvar rúmlega 56%.

Greiðendum tekjuskatts fjölgar

Almennur tekjuskattur nemur 134,3 ma.kr. og var lagður á tæplega 182 þúsund framteljendur eða um 54% landsmanna. Gjaldendum fjölgar um 7,3% sem er töluvert meiri aukning en var árið á undan. Álagningin hefur aukist um 14,3% milli ára sem er nokkru meira en aukning á álögðu útsvari til sveitarfélaga. Skýringin á því er óvenju lítil hækkun á persónuafslætti á árinu 2015 vegna lágrar verðbólgu en persónuafslátturinn er tengdur við hækkun vísitölu neysluverðs yfir árið.

Álagt útsvar til sveitarfélaga nemur 172 ma.kr. sem er 8,3% aukning á milli ára. Útsvar reiknast af öllum skattstofninum en ónýttur persónuafsláttur nýtist upp í útsvarið. Ríkissjóður greiðir þannig að hluta eða öllu leyti útsvar þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum í formi ónýtts persónuafsláttar. Sú fjárhæð nemur 10 ma.kr. fyrir tekjuárið 2015, eða sem nemur 6% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga.

Tekjur af arði aukast verulega

Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 17,9 ma.kr. og hækkar um 6,6% milli ára en rétt er vekja athygli á því að ársbreytingin er mjög mismunandi eftir tegundum fjármagnstekna. Gjaldendum fjármagnstekjuskatts fjölgar um 1,1%, eða í rúmlega 39 þúsund. Gjaldendum hefur fækkað mikið síðan frítekjumarki vaxta var komið á 2011 en við álagningu 2010 voru gjaldendur skattsins tæplega 183 þúsund.

Tekjur einstaklinga af arði nema 34,8 ma.kr. sem er 18% aukning frá fyrra ári og er arður stærsti einstaki liður fjármagnstekna að þessu sinni. Hagnaður af sölu hlutabréfa nemur 20,8 ma.kr. og lækkar um 15,4% milli ára meðan framteljendum sem telja fram söluhagnað vegna hlutabréfa fjölgar um rúm 16%.  Skýringin á lækkun söluhagnaðar liggur án efa í því að í álagningu hans í fyrra var að finna nokkra einstaklinga með óvenjulega háan söluhagnað og þar af leiðandi fjármagnstekjuskatt. Vextir nema 27,5 ma.kr. og aukast um 6,5%  frá árinu áður. Leigutekjur nema 9,8 ma.kr. og aukast um 10% á milli ára. Fjöldi þeirra sem telja fram leigutekjur, samtals 7.134 einstaklingar, eykst lítillega á milli ára, eða um 0,5%.

Skuldir dragst saman og eigið fé eykst

Framtaldar eignir heimilanna námu 4.535 ma.kr. í lok síðasta árs og jukust um 7,6% frá fyrra ári. Fasteignir töldust 3.277 ma.kr. að verðmæti, eða um 72% af eignum,  og jókst verðmæti þeirra um 8,2% á milli ára. Íbúðareigendum fjölgaði um 820 á milli ára eða um 0,9% aðeins undir mannfjöldaþróun sem eru ákveðin vonbrigði.

Framtaldar skuldir heimilanna námu um 1.719 ma.kr. í árslok 2015 og drógust saman um 2,7% milli ára. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa námu 1.146 ma.kr. og lækkuðu um 3% milli ára. Eigið fé heimila í fasteign sinni samsvarar nú 65% af verðmæti þeirra samanborið við 61% árið áður. Þá er athyglisvert að rúmlega 26 þúsund af um 96 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess.

Nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, jókst um 15% á árinu 2015 og nam samtals 2.815 ma.kr.

Heildargreiðslur ríkissjóðs vegna barnabóta lækka á milli ára og nema 9,3 ma.kr. sem endurspeglar að laun hafa hækkað meira en tekjuviðmiðunarfjárhæðir. Tæplega 45 þúsund fjölskyldur fá barnabætur sem er 7,4% fækkun á milli ára. Fjárhæð meðalbóta hækkar um 0,5% á milli ára en allar fjárhæðir barnabótakerfisins voru hækkaðar um 3% frá fyrra ári. Í álagningu eru ekki reiknaðar barnabætur á aðila sem eru með áætlaðan tekjuskattstofn. Vegna þess gætu barnabætur átt eftir að aukast um 300 m.kr. Hlutfall áætlaðs tekjuskattsstofns hefur farið lækkandi síðustu ár og nemur nú um 3% af heildartekjuskatts- og útsvarsstofni.

Betri eiginfjárstaða - minni vaxtabætur

Almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2015, nema 5,2 ma.kr. sem er 25,7% lækkun á milli ára. Almennar vaxtabætur fá 29.170 fjölskyldur og fækkar þeim um 21,3% á milli ára. Fjárhæðir vaxtabóta voru óbreyttar frá fyrra ári og endurspeglar álagningin betri eiginfjárstöðu heimila. Húsnæðisskuldir heimila hafa lækkað frá árinu 2014 en á árinu 2015 kom til framkvæmda niðurfærsla á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána að fjárhæð 80 ma.kr. auk þess sem  inngreiðsla séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán nam rúmlega 13 ma.kr. á árinu.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.