c

Pistlar:

31. ágúst 2016 kl. 23:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Leikur að fjöregginu

Um allan heim eru fiskveiðar reknar með stórkostlegu tapi og víðast með ríflegum ríkisstyrkjum. Fiskveiðifloti margra ríkja er miklu stærri en þörf er á fyrir þann afla sem er í boði og er því víða stunduð rányrkja, veiðar umfram endurnýjunarmátt fiskistofna. Á þessu eru fáar undantekningar. Ísland er skýrasta dæmið um að hægt er að gera hlutina á annan hátt. Það stafar af skynsamlegri stjórn og skynsamlegum rekstri, og svo því að við höfum sem þjóð ekki efni á því að reka sjávarútveginn öðruvísi, hann verður að standa undir sér. Og það gerir hann skammlaust. Sjávarútvegurinn átti stóran þátt í að fleyta okkur yfir erfiðleika áranna eftir bankahrun, og hagsæld okkar veltur á því að hann haldi áfram að vera arðbær. Um þetta hefur undirritaður skrifað nokkrum sinnum á þessum vettvangi.

Nú um stundir er mikil umræða um að framkvæma kollsteypu á íslenskum sjávarútvegi með því að setja aflaheimildir á markað. Rökin fyrir því eru þau að Færeyingar hafi gert þetta og með uppboðsleiðinni megi taka mikla fjármuni út úr greininni. Þeir sem bjóða hæst á því sviði hafa reiknað sig upp í 80 milljarða króna tekjur af uppboði til ríkissjóðs. Til þess urðu þeir þó að ruglast á kílóverði og þorskígildum. Og horfa framhjá því að flestir sem fiska í dag hafa borgað fyrir kvótann sem ætlunin er að bjóða upp.

En er þetta tilraunarinnar virði? Í dag eru Íslendingar leiðandi í sjávarútvegi en líklega munu útflutningsverðmæti sjávarútvegs slaga hátt í 300 milljarða króna á þessu ári. Umtalsverður hluti landsframleiðslu Íslendinga veltur því á sjávarútvegi. Það er flestra mat að Íslendingar hafi forskot á aðrar þjóðir vegna íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins. Einn mikilvægasti þáttur kerfisins er að það gerir okkur kleift að bregðast við alls kyns áföllum eins og til dæmis ef markaðir lokast eða verðfall verður. Þetta hefur birst skýrast í veiðum á makríl þar sem flestir markaðir lokuðust um stund. Vegna styrks íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna og sölunets þeirra gátu þau brugðist við og staðið áföllin af sér. Stærsta verkefni íslenskra stjórnmála er að tryggja að hámarksarður til langs tíma skapist af fiskveiðum, þjóðinni allri til heilla.

Uppboð ekki gengið vel

Uppboð á sjávarauðlindum hafa almennt séð ekki gengið nógu vel þar sem þau hafa verið reynd og hefur oftast verið hætt mjög fljótlega við þau. Mun betur hefur gefist að úthluta afla eftir fyrri veiðireynslu, eða því sem nefnist „grandfathering“ á ensku. Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Gary Libecap, prófessors í hagfræði við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, en hann hélt fyrirlestur í fundarsal Þjóðminjasafnsins á mánudaginn en Morgunblaðið rakti ágætlega efni fundarins í fréttaskýringu í gær.

Yfirskrift fundarins var „Tvær úthlutunarreglur: Aflareynsla eða uppboð?“ og stóð Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt fyrir honum. Libecap, sem er einn þekktasti auðlindahagfræðingur heimsins í dag, bar í erindi sínu saman þessar tvær aðferðir við úthlutun á fiskveiðikvóta. Sagði hann þetta mikilvæga spurningu, þar sem svarið hefði áhrif á afdrif fiskistofna, langtímahagvöxt og tekjur ríkisins til lengri tíma.

Misheppnaðar tilraunir Færeyinga

Þetta verður að skoðast í samhengi við ástæður þess að Færeyingar gera nú tilraun til að bjóða upp aflaheimildir. Tilraun sem heimamenn segja misheppnaða. Þær aflaheimildir sem Færeyingar buðu upp eru úr sameiginlegum stofnum uppsjávarfiska og hafa þeir notað það að hluta til beinnar sölu á uppboði og að hluta sem skiptimynt fyrir veiðiheimildir í Barentshafi sem líka eru að hluta seldar á uppboði. Aflaheimildirnar sem Færeyingar bjóða upp eiga því rót sína a.m.k. að hluta til í því sem þeir taka sér einhliða úr sameiginlegum fiskistofnum þar sem ekki hafa náðst samningar um heildstæða veiðistjórnun. Uppboðið er því ekki tengt verndun eða uppbyggingu fiskistofna heldur byggist það á ákveðinni sjóræningjahugsun.Færeyjar

Í erindi sínu horfði Libecap í erindi sínu sérstaklega til þess hvernig uppboð hefðu reynst við úthlutun annarra náttúruauðlinda, og nefndi þar olíu og jarðgasvinnslu,  framleiðslu steinefna og landbúnað sem dæmi. Sagði Libecap að í þessum greinum hefði sýnt sig, að betra væri ef eignarréttur á auðlindinni eða öllu heldur nýtingarrétturinn á henni, væri skýrt skilgreindur til lengri tíma. Tekjur ríkisins af auðlindinni til lengri tíma yrðu þannig hámarkaðar með hóflegri skattlagningu. Undir það er hægt að taka. Er ekki augljóst að þjóðhagsleg hagkvæmni muni minnka verulega ef aflaheimildir verða boðnar upp á hverju ári eins og hugmyndir hafa verið um. Er ekki hætt við að langtímahugsunarháttur hverfi úr í greininni og það verða engar langtímafjárfestingar.

Það er fráleitt að hlaupa til og innleiða uppboðsleið án þess að skoða í þaula hvaða áhrif slík leið myndi hafa. Hvað þá að ráðast í að bylta því kerfi sem við höfum komið upp. Kerfi sem hefur vakið athygli um allan heim vegna þess hve miklu það skilar samfélaginu – því mesta sem gerist í heiminum miðað við greiningar OECD, um leið og það miðar að sjálfbærri og ábyrgri nýtingu auðlindarinnar. Við Íslendingar höfum of miklu að tapa til að hlaupa til og bylta sjávarútveginum.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.