c

Pistlar:

13. september 2016 kl. 21:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Verslun á Íslandi í sókn

Það er ekki víst að allir átti sig á því að framlag verslunar í landsframleiðslu er svipað og sjávarútvegs annars vegar og hefðbundins iðnaðar hins vegar. Alls störfuðu 23.800 manns við verslun árið 2015 sem er um 13% af heildarvinnuafli landsins. Hér hefur áður verið bent á mikilvægi verslunar í hagkerfinu. Það er því fróðlegt að rýna í Árbók verslunarinnar 2016 sem nú er nýkominn út. Ekki síst sú ánægjulega niðurstaða sem hún sýnir fyrir íslenska verslun og er ljóst að veruleg breyting hefur orðið á stöðu hennar frá því stungið var niður penna um hana hér síðast í október 2014. Nú er verslun á Íslandi í sókn og freistandi að tímasetja það við þær miklu breytingar sem urðu á virðisaukaskattskerfinu og niðurfellingu vörugjalda um áramótin 2014 og 2015. Meðfylgjandi mynd sýnir veltu í smásöluverslun án VSK, fast verðlag. velta

En sóknin byggir ekki á innistæðulausri aukningu einkaneyslu. Með greiningu á þeim hagtölum sem kynntar eru í Árbókinni má sjá að vöxtur í einkaneyslu er mun minni en vöxtur kaupmáttar launa. Þannig er tekjum ekki öllum varið beint í neyslu. „Hagvaxtarskeiðið sem nú er hafið er að þessu leyti frábrugðið því sem var fyrir hrun þegar neytendur voru hvattir til lántöku, jafnvel umfram afborgunargetu og með gengistryggðum lánum, sem leiddi til offjárfestinga og neyslu umfram tekjur. Ráðstöfunartekjum heimilanna nú er að hluta til varið til að tryggja afkomugrunninn til lengri tíma þannig að myndist sterkur fjárhagslegur grunnur sem dregur úr neikvæðum áhrifum vegna hugsanlegra sveiflna í hagkerfinu síðar meir, hvort sem er af völdum veikingar krónunnar eða öðrum áföllum sem kunna að skella á hinu litla og viðkvæma hagkerfi okkar,” segir Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar, í inngangi skýrslunnar.

Helstu stærðir

 

En lítum á nokkrar lykilupplýsingar en í Árbókinni kemur fram að:

  • á árinu 2015 var heildarvelta smásöluverslunar án virðisaukaskatts tæpir 400 milljarðar króna samanborið við 376 milljarða árið áður. Vöxtur í veltu frá fyrra ári var því 5,8% og hefur ekki verið meiri á milli ára frá hruni.
  • stærsti einstaki vöruflokkur smásöluverslunar 2015 var í flokknum „dagvara og stórmarkaðir“. Velta í þeim flokki nam um 208 milljörðum kr.
  • ytri skilyrði verslunar hafa sjaldan verið betri. Kaupmáttur launa Íslendinga var í lok 2015 í sögulegu hámarki og hafði aukist um 8% á einu ári. Einkaneysla jókst um 5% á milli ára. Skuldir heimilanna dragast saman.
  • fjöldi skráðra smásöluverslana í landinu voru 2.258 í lok ársins 2015, sem er nánast sami fjöldi og árið áður. Af þessum verslunum voru flestar í flokki fataverslana. Mest fjölgun var hins vegar í flokki netverslana, eða um 6%.
  • hlutur verslunar í landsframleiðslu var 9,6% árið 2015 og hefur lítið breyst á milli ára. Framlag verslunar í landsframleiðslu er svipað og sjávarútvegs annars vegar og hefðbundins iðnaðar hins vegar.
  • erlendir ferðamenn greiddu með greiðslukortum sínum fyrir vörur í íslenskum verslunum árið 2015 fyrir 22,7 milljarða kr. sem er um 6% af heildarveltu íslenskra smásöluverslana. Erlend kortavelta í verslunum jókst um 23% frá árinu áður. Mest keyptu ferðamennirnir í dagvöruverslunum.
  • alls störfuðu 23.800 manns við verslun árið 2015 sem er um 13% af heildarvinnuafli landsins. Starfsmönnum í verslun fjölgaði um 600 frá árinu áður. Karlar sem störfuðu við verslun voru 2.700 fleiri en konur í greininni.
  • áætlað er að velta innlendrar netverslunar árið 2015 hafi verið að lágmarki um 5 milljarðar króna og aukist um 27% frá árinu áður.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.