c

Pistlar:

5. nóvember 2016 kl. 14:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Traust staða sjávarútvegsins

Skuldir sjávarútvegsins hafa minnkað verulega frá árinu 2009 þegar þær náðu hámarki og fjárfestingar hafa um leið vaxið undanfarin fjögur ár. Þetta er meðal þess sem fram kom á Sjávarútvegsdeginum 2016 sem fram fór á Hotel Hilton Nordica í vikunni í samstarfi SFS, SA og Deloitte.

Skuldir sjávarútvegsins hafa lækkað á þessu tímabili úr 494 milljörðum króna í 333 milljarða. Þegar þær vor mestar voru þær að mestu í erlendum gjaldmiðlum. Kemur þetta fram í tölum, sem Deloitte vinnur árlega upp úr ársreikningum sjávarútvegsfyrirtækja. Í samantektinni, sem Jónas Gestur Jónasson löggiltur endurskoðandi kynnti, kemur einnig fram að fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum hefur verið að aukast verulega í greininni síðustu ár, en á árunum 2009 til 2011 nam fjárfesting aðeins um 4 til 6 milljörðum króna árlega. Í fyrra námu fjárfestingar hins vegar 26 milljörðum króna og voru 27 milljarðar árið á undan.

Viðamikill gagnagrunnur

Það hefur oft skort á heildstætt yfirlit um stöðu sjávarútvegsins og því ástæða til að fagna því að Deloitte hefur nú byggt upp viðamikinn gagnagrunn um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja við Ísland. Grunnurinn inniheldur 91% af rekstrarupplýsingum ársins 2015. Þessi grunnur er hluti af skýrslu sem kynnt var á sjávarútvegsdeginum. Þar kemur einnig fram að skattgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja, tekjuskattur, tryggingagjald og veiðigjöld hafa verið að hækka eins og kemur fram í meðfylgjandi mynd. Augljóslega gefur tekjuskattur meira af sér nú þegar veiðigjöld lækka. Ef skatti vegna arðs væri bætt við má ætla að sjávarútvegurinn sé nú að greiða meira í opinber gjöld en við höfum séð áður.skattardelot

Framlegð er að aukast á milli ára

Tekjur sjávarútvegsins árið 2015 námu 275 milljörðum króna, lítillega hærri en árið á undan en þá námu þær 262 milljörðum króna. Framlegð í sjávarútvegi er um leið að aukast en EBITDA framlegð á þessu tímabili jókst um 26%. Þannig blasir við að sögulega er rekstrarárangur sjávarútvegsins að batna. Framlegð hefur aukist í öllum flokkum sjávarútvegsfélaga en mest er framlegðin í blöndu uppsjávar- og botnfisksfélaga. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að aukin framleiðni á síðasta ári, meðal annars vegna aukinna veiða á loðnu og verðmætaaukningu á þorski og rækju gæti skilað sér í hærri veiðigjöldum á næsta ári.

Hagnaður eykst en áskoranir framundan

Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja hafa verið að lækka og nema nú 333 milljörðum króna en voru 494 milljarðar þegar mest var árið 2009. Miklar fjárfestingar hafa átt sér stað úi sjávarútvegi síðan 2013 og ný langtímalán eru að aukast, samfara aukinni fjárfestingu.

Þegar fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum eru skoðaðar sést að það voru miklar fjárfestingar á árunum 2014 og 2015. Meðaltal fjárfestinga á árunum 2012 og 2015 var um 20 milljarðar króna. Arðgreiðslur lækka milli ára eða um 12,9% en arður - sem hlutfall af EBITDA -  lækkar um 18% milli ára. Greiddur arður sem hlutfall af bókfærðu virði eigin fjár lækkar einnig milli ára. Afkoman í sjávarútvegi er því mjög góð núna en frekari gengisstyrking getur haft þar veruleg áhrif á. Þá hefur sjávarútvegur notið hagstæðs olíuverðs sem engin trygging er fyrir að haldist áfram.

Forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins benti á að eftir 25 ára tímabil hagræðingar er íslenskur sjávarútvegur betur í stakk búinn til að mæta íslensku sveiflunni og þrátt fyrir gengisstyrkingu krónunnar er afkoma í sjávarútvegi enn góð. Ytri skilyrði hafa aftur á móti verið sjávarútvegi hagstæð og er ekki sjálfgefið að svo verði til frambúðar. Ef fram fer sem horfir mun raungengi krónunnar feta nýjar slóðir á komandi misserum og grafa undan samkeppnisstöðu útflutningsgreina. Sá árangur sem hefur áunnist er því ekki fastur í hendi.

Dr. Ágúst Einarsson, prófessor emeritus við Háskólann á Bifröst, benti á við sama tækifæri að aflaverðmæti íslenskra skipa hefur tvöfaldast á sambærilegu verðlagi síðustu rúm 30 árin. Þetta er góður árangur og sýnir að aðgæsla hefur verið sýnd við veiðarnar og ráðgjöf fiskifræðinga verið fylgt í meginatriðum, auk þess sem betri skipulagning við veiðar og vinnslu skilar sér í meiri verðmætum. Þó að vægi sjávarútvegs í landsframleiðslu hafi heldur minnkað er ljóst að hann skiptir enn gríðarlegu máli fyrir íslenska hagkerfið.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.