c

Pistlar:

30. nóvember 2016 kl. 17:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Framleiðni, arður og hagræði í sjávarútvegi

Á árinu 2015 störfuðu um 7.800 manns í sjávarútvegi sem nemur um 4,2% af vinnuafli landsins og hefur þetta hlutfall ekki verið lægra frá árinu 2008 þegar það náði lágmarki í 4% en þetta má  lesa um í nýlegri skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveginn. Skýrslan er hin prýðilegasta samantekt um þessa mikilvægu atvinnugrein og verður hér tæpt á nokkrum atriðum hennar.

Skýrslan sýnir að við erum enn að sjá verulegar breytingar á vinnuaflsþörf sjávarútvegsins. Störfum í sjávarútvegi fækkaði um 1300 frá árinu 2014 og þar af voru 1000 störf í fiskiðnaði og 300 í fiskveiðum. Þetta þýðir að störfum í greininni hefur fækkað um 45% frá árinu 1997 eða um 6400 manns. Sjávarútvegur er landsbyggðagrein og um 83% af störfum í sjávarútvegi á árinu 2015 voru á landsbyggðinni eða um 6400 störf. Frá árinu 1997 hefur hlutfallsleg fækkun starfa verið mun jafnari eftir búsetu en eftir kyni en hlutfallslega hefur fækkað um fleiri störf á landsbyggðinni (46%) en á höfuðborgarsvæðinu (43%). Til að sjá betur áhrif sjávarútvegsins á landsbyggðina er áhugavert að glugga í þessa grein á Veggnum.

Áhrif kvótakerfisins

Eftir að núverandi kvótakerfi var innleitt árið 1984 og aflaheimildir urðu að fullu framseljanlegar árið 1991 hefur verið sterk tilhneiging í átt að sameiningu útgerða í íslenskum sjávarútvegi. Hefur þetta reynst grundvöllur aukinnar hagræðingar í greininni líkt og greina má í rekstrartölum fyrirtækja yfir áðurgreint tímabil.

Íslandsbanki bendir á að aukin samþjöppun fól í sér aukna skuldsetningu innan greinarinnar en á sama tíma stuðlaði hún að meiri hagkvæmni í rekstri, aukinni framleiðni og bættri arðsemi félaganna. Þá eru stærri félög, sem hafa aflaheimildir í fleiri tegundum fiskistofna, betur í stakk búin að takast á við rekstrarsveiflur. 50 stærstu félögin eru sem stendur með 87% af úthlutuðum aflaheimildum í upphafi fiskveiðiársins 2016/2017. Tíu stærstu fyrirtækin eru með 50% úthlutaðra aflaheimilda og 20 stærstu fyrirtækin um 69%.

Ásgeir Jónsson hagfræðingur benti á í nýlegri grein að kvótakerfið skapar arð með tvennum hætti: Í fyrsta lagi með skilvirkri veiðistjórnun út frá líffræðilegu sjónarhorni þar sem hægt er að ákveða heildarafla með nákvæmni og koma í veg fyrir ofnýtingu fiskistofna. Í öðru lagi gerir frjálst framsal aflaheimilda það ekki að verkum að hagkvæmustu útgerðaraðilarnir munu kaupa þá lakari út og sjá um veiðarnar með lágmarks kostnaði og með mestri arðsemi. „Þessir eiginleikar kvótakerfisins ættu nú að liggja í augum uppi eftir tæplega 30 ára reynslu þannig að lítt þurfi um þá að deila,” segir Ásgeir í grein sinni. Bjartsýn maður Ásgeir, áfram verður deilt um sjávarútveg á meðan gert verður út á Íslandi.

Framleiðni aukist mikið

Skýrsla Íslandsbanka dregur skilmerkilega fram að framleiðni vinnuafls í sjávarútvegi hefur aukist mikið undanfarin ár en vert er að hafa í huga að sjávarútvegur er sú atvinnugrein á Íslandi sem getur státað af mestri framleiðni eins og kom fram í skýrslu MacKinsey. Framleiðni vinnuafls óx mikið á milli áranna 2005 og 2008 þegar framleiðsluvirði á hvert starf jókst um 16,1 milljónir króna eða 59%. Jókst framleiðsluvirði greinarinnar um 17% á þessum tíma á meðan starfsfólki fækkaði um 26,5%. Frá árinu 2008 til ársins 2013 jókst framleiðsluvirði á hvert starf í greininni í heild um 6,3% sem jafngildir 1,2% árlegri framleiðniaukningu.sjavarstorf

Framleiðni vinnuafls hefur aukist með meiri sjálfvirkni sem fylgir tækniframþróun við veiðar og vinnslu sjávarafurða. Á árinu 2014 skilaði hvert starf tæplega 39 milljónum króna og lækkaði framleiðsluvirði á hvern starfsmann um 15,7% frá árinu 2013. Þetta skýrist einna helst af lægra framleiðsluvirði greinarinnar en lækkunin nam 13% á þessum tíma ásamt því að starfsfólki í greininni fjölgaði um 3%.

Áfram góð arðsemi í greininni

Deloitte hefur safnað saman rekstrarupplýsingum um sjávarútvegsfélög á Íslandi í viðamikinn gagnagrunn og hefur áður verið vitnað til hans hér. Gagnagrunnurinn inniheldur 91% af rekstrarupplýsingum ársins 2015 hjá félögum sem eru með úthlutaðar aflaheimildir og er hann uppreiknaður í 100%. Allar rekstrarupplýsingar eru á verðlagi ársins 2015.

Frá innleiðingu kvótakerfisins hefur arðsemi í sjávarútvegi aukist umtalsvert. Samþjöppun óx innan greinarinnar samhliða því að aðgangur að fiskveiðiauðlindinni var takmarkaður og í kjölfarið hefur hagkvæmni í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja stóraukist. Tekjur sjávarútvegsfélaga á árinu 2015 námu 275 milljörðum króna. Og jukust um 9 milljarða króna eða um 3,3%. Skýrist þessi vöxtur í tekjum af auknum loðnuveiðum og auknu verðmæti í þorskaflanum vegna verðhækkunar á erlendum mörkuðum. EBITDA var 71 milljarðar króna. Og hefur EBITDA framlegð ársins 2015 aukist um 3% frá fyrra ári og fer úr 23% í 26% á árinu 2015. EBITDA jókst hlutfallslega meira en tekjur eða um 14,5%.

Hagnaður eykst milli ára

Hagnaður sjávarútvegsfélaga á árinu 2015 var um 45 milljarðar króna. Eða um 1,6 milljörðum króna hærri en á árinu á undan sem nemur um 3,7% aukningu. Hagnaður af reglulegri starfsemi án fjármagnsliða nam 60,7 milljörðum króna og hækkaði um 6,2 milljarða frá fyrra ári. Þá voru fjármagnsliðir einnig hagstæðari sem nemur 3,6 milljörðum króna á árinu 2015 en á árinu 2014 sem var aðallega vegna gengishagnaðar. Til lækkunar á hagnaði koma svo óreglulegir liðir sem voru 8,2 milljörðum óhagstæðari á árinu 2015 en á árinu 2014. Skuldir ekki verið lægri frá árinu 2007 eins og sést í meðfylgjandi grafi.sjavarútv.

Skuldastaða sjávarútvegsfélaga hefur lækkað til muna frá því að skuldir félaga í greininni náðu hámarki í 619 milljörðum króna á árinu 2008 miðað við fast verðlag. Á árinu 2015 námu skuldir sjávarútvegsfyrirtækja um 333 milljörðum króna og hefur skuldastaða félaganna ekki verið lægri eftir efnahagsáfallið 2008. Frá hápunkti 2008 hafa skuldir sjávarútvegsfélaga lækkað um 286 milljarða króna eða um 46%. Þegar fjármögnunarhreyfingar sjávarútvegsfélaga eru skoðaðar sést hvernig bætt afkoma félaganna undanfarin ár hefur skapað svigrúm til niðurgreiðslu langtímaskulda. Í fyrsta skipti frá árinu 2007 hafa nýjar lántökur verið umfram afborganir og nemur munurinn um 18 milljörðum króna. Til samanburðar námu afborganir umfram nýjar lántökur á árunum 2008-2014 um 148 milljörðum króna. Á verðlagi ársins 2015. Þrátt fyrir að nýjar lántökur ættu sér stað á árinu 2015 minnkaði skuldsetning sjávarútvegsfélaga engu að síður. Bendir það til þess að sjávarútvegsfélög séu í auknum mæli að greiða niður skammtímalán sín.

Vega þar þyngst lánaleiðréttingar sem reyndust sjávarútvegsfélögum mun hagstæðari á árinu 2014 en á árinu 2015. Eins og komið hefur fram hefur gengi krónunnar styrkst talsvert undanfarið og þá sérstaklega gangvart helstu útflutningsmyntum landsins. Einnig teljum við að gengi krónunnar muni halda áfram að styrkjast á næstu misserum. Íslandsbanki telur að þetta muni að öðru óbreyttu leiða til þess að hagnaður sjávarútvegsfélaga lækki á árinu 2016.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.