c

Pistlar:

23. maí 2017 kl. 23:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Við erum svo rík!

Við erum svo rík

að ekkert skortir

aðeins unað

 

við svo rík

að ekkert skortir

aðeins orð

 

við svo rík

að ekkert skortir

aðeins svör

 

Þannig hljómar kvæðið Auðlegð eftir skagfirska skáldið Geirlaug Magnússon (1944 – 2005) en það minnir okkur að nokkru leyti á fánýti auðsins, í hvaða mynd sem hann er, sé hann ekki virkjaður til þarfra hluta. Viðskiptablaðið Fortune dreifði nýlega viðskiptafrétt á Facebook þar sem segir frá dýrasta einbýlishúsi Bandaríkjanna, hús sem kostar 250 milljónir Bandaríkjadala eða ríflega 25 milljarða íslenskra króna. Sannarlega mikið verð fyrir einbýlishús, líklega um 100 sinnum hærra verð en fæst fyrir dýrasta einbýlishúsið hér á Íslandi. Í fréttinni segir reyndar að það hafi tekið 300 manns fjögur ár að byggja húsið. Að baki því liggja þá 1.400 ársverk og hugsanlega má velta fyrir sér margfeldisáhrifum þess, nokkurskonar brauðmolaútgáfu af vinnuverðgildiskenningunni! Það er jú svo að einhverjir þurfa að vinna til að skapa lúxuslifnað hinna fáu. En hvernig má það vera að einhver vilji verja slíkum fjárhæðum til þess eins að hafa þak yfir höfuðið? Og það í Kaliforníu þar sem sólin skín alla daga!

Sá sem hefur efni á slíku húsi rekur vanalega mörg heimili. Í sjónvarpsþáttunum Billions, sem eru nú sýndir í sjónvarpi Símans, kemur fram að auðmaðurinn Bobby Axelrod á svo mörg heimili að þegar konan fer frá honum eitt sinn þá veit hann ekki í hvaða húsi sínu hann á að leita! Og þessu fylgir mikill rekstrarkostnaður. Það sást ágætlega hjá sumum þeirra sem voru mest áberandi á auðstímunum (og tímum ódýrs lánsfjármagns) hér á landi fyrir nokkrum árum og ráku mörg heimili, hér í höfuðborginni, úti á landi og í útlöndum líka. Þegar peningarnir hættu að flæða inn hrundi spilaborgin, það að lifa eins og auðmaður kostaði of mikið og auðurinn sáldraðist í burtu og barst í hendur nýrra eigenda. Eða kröfuhafa eftir atvikum.bill

Gjafmildir auðmenn

Breski orðabókahöfundurinn Samuel Johnson (1709-1784) sagði að fá iðja er saklausari en sú að safna peningum. Ekki er víst að allir séu sammála honum en á bak við auðinn eru oft menn sem vert er að gefa gaum. Hér hefur áður verið sagt frá áformum stofnanda Microsoft, Bill Gates, sem lengi hefur vermt sæti auðugasta manns heims.  Bill Gates, og eig­in­kona hans, Melinda, hafa ákveðið að gefa 95% auðæva sinna til góðra mála en þau sjást hér saman á mynd. Þau hafa einkum sett fjár­magn í heilsu­gæslu og þró­un­ar­mál, sem þau sinna í gegnum stofnun sína, Bill & Melinda Gates Foundation. Eignir Bill Gates eru metnar á um 85 milljarða Bandaríkjadala núna en talið er að hann hafi nú þegar sett um 30 milljarða dala í stofnun sína. 85 milljarðar Bandaríkjadala jafngilda 8500 milljörðum íslenskra króna (sé miðað við að dalurinn jafngildi 100 krónum). Landsframleiðsla Íslands á síðasta ári nam 2.422 milljörðum króna samkvæmt Hagstofunni. Bill Gates á því 3,5 sinnum landsframleiðslu Íslands en átti 7-falda landsframleiðslu Íslands fyrir 15 árum. Það virðist því heldur ganga saman en hitt en þá er ekki tekið tillit til verðbólgu. Nú annar samanburður gæti falist í því að bera auð Gates við hreina eign íslensku lífeyrissjóðanna, sem er á að giska 3.300 milljarðar íslenskra króna og norska olíusjóðinn, sem nemur nú um 96.000 milljörðum króna.

Áður en Bill Gates tilkynnti um fyrirætlun sína var meðstofnandi hans hjá Microsoft, Paul Allen,  búinn að ákveða að verja stórum hluta auðs síns til góðra mála. Um tíma var hlutur hans í Microsoft metinn á um 30 milljarða dala. Í dag er Allen talinn eiga um 20 milljarða en hann hefur varið háum upphæðum til góðgerðarmála en einnig keypt nokkur íþróttafélög eins og sönnum auðmanni sæmir! Hann er ekki lengur innherji í Microsoft, er mest af sínum eignum í óskráðum eignum, meðal annars fasteignum og nýsköpunarsjóðum. Octopus, snekkja Allen, er Íslendingum vel kunn en hún hefur komið hingað í tvígang og vakið mikla athygli enda með tveimur þyrlupöllum og búnaði fyrir kafbát. Allen hefur fjárfest mikið Seattle og gefið þar nokkur bókasöfn og tónlistarsafn. Einnig hefur hann látið myndarlegar upphæðir renna til heimilislausar í Seattle. Ef hann notaði allan auð sinn gæti hann borgað fjárlagahalla Bandaríkjanna í sjö daga!

Fjárfestirinn War­ren Buf­fett (sem var rætt um hér fyrir skömmu) bætir um betur og ætl­ar að gefa 99% af eig­um sín­um og hyggst meðal annars gera það með því að láta peninga sína renna til stofn­unar Gates-hjón­anna þannig að hann er ekki einu sinni að hugsa um að halda nafni sínu á lofti. Mark Zucker­berg og kona hans, Priscilla Chan, ætl­ar að gefa 99% af and­virði hluta­fjár síns í Face­book í góð mál­efni, svo sem heil­brigðisþjón­ustu.

Eignirnar framleiða vörur og þjónustu

Þó að allir þessir menn séu gríðarlega ríkir og séu í efstu sætum auðmannalista heimsins verður að hafa í huga að þeir nota ekki nema lítinn hluta þess til eigin neyslu þó þá skorti sannarlega ekki neitt. Eignir þeirra eru í því hlutverki að framleiða vörur og þjónustu fyrir aðra og auka þannig framboð og bæta lífskjör almennt. Svona ríkt fólk neytir ekki nema sáralítils brots af því sem það á. Vissulega berast fregnir af óhófi þeirra ríku en í flestum tilfellum fer það í einhverskonar neyslu sem aðrir hafa atvinnu af með einum eða öðrum hætti.

Erfðafjárskattur umdeildur

En nú gæti einhver velt því fyrir sér hvernig erfingjunum mun reiða af en í tilfelli Bill Gates hefur hann einfaldlega sagt að börnin sín muni eiga nóg!

Í bók sinni Fjármagn á 21. öldinni (Capital in the 21st Century), bendir hagfræðingurinn Thomas Piketty, á að fólk sé almennt sáttara við auð annarra ef það er tilfinning fólks að menn hafi unnið sér inn fyrir auðæfunum. Einnig skiptir máli að fólk upplifi stöðu sína að auki þannig að hver sem er geti orðið auðugur með samblandi af heppni, hæfni og erfiði (meritoratic wealth). Að tækifæri séu til staðar í samfélaginu. Umburðarlyndi  fyrir auði frumkvöðla er meira en fyrir auði sem fengist hefur í arf, eða fólk upplifir að hafi orðið til vegna þess að samfélagið gefi ákveðnum hópum tækifæri eða aðstöðu umfram aðra. Sú tilfinning kemur oft skýrt fram í umræðunni á Íslandi.

En erfðafjárskattur er umdeildur. Svíþjóð hóf að beita honum á 17. öld og árið 1983 var hann kominn upp í 70% við miklar óvinsældir en á þeim árum fór skattlagning í Svíþjóð að hafa alvarleg áhrif á þjóðlífið eins og hefur verið bent á áður í pistlum hér. Skattar voru lækkaðir og þar á meðal erfðafjárskattur sem var komin niður í 30% árið 2004 þegar hann var með öllu afnumin. Rökin fyrir skattinum (fyrir utan óseðjandi fjárþörf ríkisins) eru meðal annars að það sé ósanngjarnt að auður færist þannig milli kynslóða. Aðrir segja að það sé ein af grunnþörfum mannsins að aðstoða afkomendur sína og það sé skynsamara að hafa skattlagninguna hófsama til þess að menn taki ekki upp á því að sólunda auði sínum í þeim eina tilgangi að skatturinn nái ekki til hans. Þessari deilu verður ekki svarað hér en ástæða er til að benda aftur á ljóð Geirlaugs sem birtist í upphafi en það má vel lesa það sem svo að peningarnir veiti ekki alltaf svörin. Gömul og ný sannindi.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.