c

Pistlar:

12. júlí 2017 kl. 11:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Eistland - merkilegt land fyrir austan

Eistland og Ísland eiga ýmislegt sameiginlegt. Þau urðu bæði fullvalda ríki árið 1918 og bæði voru þau hernumin 1940. Ekki þarf að deila um að þau eru bæði lítil og um margt háð grönnum sínum en óhætt er að segja að Eistar hafi orðið að þola mun meira harðræði, þar sem landið er staðsett mitt á milli stórveldanna Sovétríkjanna og Þýskalands sem lengst af 20. öldinni skiptust um að ráða yfir landinu. Eistland fékk sjálfstæði skömmu eftir fyrri heimsstyrjöld, en með griðasáttmála Hitlers og Stalíns 1939 komst landið undir yfirráðasvæði Sovétríkjanna. Ekki löngu síðar var það innlimað og varð eitt af ráðstjórnarríkjunum eins og hin Eystrasaltslöndin, Lettland og Litháen.

Um síðustu helgi var sýnd í Ríkissjónvarpinu kvikmynd byggð á bókinni Hreinsun, sögu Sofi Oksanen finnsk/eistnesks rithöfundar. Verkið var upphaflega skrifað sem leikrit og dregur fram harmsögu Eista á liðinni öld með því að tefla saman tveimur sögusviðum á ólíkum tíma sem fléttast saman á snjallan hátt. Sagan hefur fært Sofi Oksanen fjölmörg virt verðlaun og viðurkenningar, m.a. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Þjóðleikhúsið íslenska sýndi leikritið Hreinsun veturinn 2011-12 og verkið er vel þekkt hér sem annars staðar. Hreinsun sýnir vel bjargleysi smáþjóðar og fólksins sem þar býr þegar erlent vald og mannfjandsamleg hugmyndafræði taka yfir líf almennings. Í þessu tilfelli voru það Sovétríkin en áður var það Þýskaland nasismans. Um það leyti sem seinni heimsstyrjöldin braust út var Eistland innlimað í Sovétríkin og næstu árin á eftir gekk stjórnin í Kreml mjög harkalega fram í að aðlaga landið rússneskum siðum. Í millitíðinni réðu nasistar landinu en vorið 1941 rauf Hitler griðasáttmálann og réðst inn í Sovétríkin. Leiðin lá í gegnum Eistland sem var að sjálfsögðu hertekið. Við Íslendingar þekkjum að hluta til þá sögu í gegnum átökin um fortíð fótboltapabbans Evald Mikson sem sakaður var um að hafa verið viljugur meðreiðarsveinn nasista og átt þátt í óhæfuverkum. Saga sem afhjúpar vel þá siðferðilegu bresti sem birtast þegar allir kostir eru vondir.

Talið er að fyrsta árið sem Eistland var undir stjórn Sovétríkjanna eftir að nasistarnir hurfu á braut hafi um sextíu þúsund manns verið myrt eða flutt úr landi, til fangavistar í Síberíu eða á aðra óhuggulega staði. Af þessum atburðum dregur skáldsaga Sofi Oksanen nafn sitt, Hreinsun.eistland

Langþráð sjálfstæði en skuggar nútímans fylgja

En 1991 breyttist allt í Eistlandi. Landið lýsti yfir sjálfstæði sínu og sagði skilið við alræði kommúnismans sem hafði ráðið yfir landinu meðan það var hluti Sovétríkjanna. Eistland heldur upp á tvo þjóðhátíðardaga. Annars vegar þann 24. febrúar vegna slita við Sovétríkin árið 1918 og aftur 20. ágúst 1991 þegar landið losnaði aftur við Rússana. Eistar samþykktu nýja stjórnarskrá í kjölfarið og Lennart Meri var kjörinn forseti Eistlands í lýðræðislegum kosningum árið 1992 en það ár gerist einmitt saga Sofi Oksanen í nútímanum. Skilaboðin eru sláandi en sagan dregur fram að valdamestu mennirnir í mansalsiðnaðinum, sem rís upp í hinu nýfrjálsa Eistlandi, eru flestir fyrrum áhrifamenn innan KGB.  

Íslendingar voru fyrstir þjóða að viðurkenna sjálfstæðið sem hefur gert böndin milli landanna nánari en þau deila stöðu smáríkja í heimi þjóðanna. Eistar þó sýnu fleiri með 1,3 milljón íbúa í landi sem er um fjórðungur af flatarmáli Íslands, minnst Eystrasaltsríkjanna.

Nútímavætt samfélagið

En mestu skiptir að Eistar hafa ákveðið að taka þróun mála í eigin hendur. Þeir hafa leitað eftir vestrænni lýðræðissamvinnu og hafa um leið nútímavætt samfélag sitt, svo mjög að Eistland telst til fyrirmyndar á mörgum sviðum. Árið 2000 urðu þeir fyrstir þjóða til að lýsa því yfir að aðgangur að internetinu teldist meðal mannréttinda. Ekki er hægt annað en að dáðst að einbeitni Eista og vilja þó sjálfstæði þeirra lifi alltaf í skugga risans í austri. Að því leyti verða þeir að taka öryggismál alvarlega og hafa bundið trúss sitt við Nató sem hefur ákveðið að staðsetja viðbragðslið í landinu. Rússneskur minnihluti í landinu hefur fært stjórnvöldum miklar áskoranir.

Höfuðborgin Tallinn þykir mjög falleg, gamla miðborgin er á heimsminjaskrá UNESCO og mun vera ein best varðveitta miðaldaborg Evrópu. Hún hefur líka verið kölluð Silicon Valley Evrópu og Eistar eru mjög framarlega í öllu sem rafrænt kallast eins og vikið var að hér að framan. Þess má geta að fyrirtækið Skype var stofnað í Eistlandi og þegar það var selt fyrir 8,5 milljarða Bandaríkjadala til Microsoft árið 2011 þóttu það vissulega nokkur tíðindi. En ekki síður sú ákvörðun frumkvöðlanna að fjárfesta fyrir stóran hluta upphæðarinnar heima fyrir. Það hefur verið ungum hugbúnaðariðnaði mikil hvatning og tryggt fjármögnun margra áhugaverðra fyrirtækja. Um leið hafa stjórnvöld gert sitt besta til að hvetja til fjárfestinga og ýta undir frumkvöðlastarfsemi og fjárfestingar.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.