c

Pistlar:

2. október 2017 kl. 21:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Aflvaki breytinga í sjávarútvegi

Aftur og aftur verðum við vitni að sérkennilegum fullyrðingum um íslenskan sjávarútveg í fjölmiðlum landsins þar sem sömu aðilar fara með sömu rangfærslurnar aftur og aftur. Af þessu leiðir að fjölmiðlaumræðan er takmörkuð og lítt upplýsandi fyrir þá sem vilja setja sig inn í mál sjávarútvegsins og skilja hvaða breytingar hafa orðið, hvað veldur þeim og hvaða áhrif hafa þær haft. Á þessu er vakin athygli í tilefni þess að fyrr á árinu hætti Guðjón Einarsson sem ritstjóri Fiskifrétta en Guðjón hóf störf hjá blaðinu árið eftir að kvótakerfið var sett á. Eins og nafnið gefur til kynna eru Fiskifréttir sérrit um sjávarútveginn, það eina sinna tegundar í dag. Óhætt er að fullyrða að Guðjón hafi fylgst náið með þeim miklu breytingum sem orðið hafa á íslenskum sjávarútvegi undanfarna áratugi.

Guðjón var í viðtali við tímarit Fiskifrétta sem gefið var út í tilefni sjávarútvegssýningarinnar í Kópavogi nú í september. Það er fróðlegt að lesa viðtalið við Guðjón sem alla jafnan hefur ekki verið kallaður mikið til þegar umræða um sjávarútveg hefur átt sér stað. Það er miður enda þekking hans á sjávarútvegi mikil og hann hefur tamið sér að tala um málið á öfgalausna hátt. Í viðtalinu bendir Guðjón á að hagræðing innan sjávarútvegsins hafi hafist fyrir alvöru eftir að frjálsa framsalið kom til sögunnar árið 1990 og tíunda áratuginn einkenndi fækkun skipa og lokum fiskveiðistöðva víða um land. Það er því ekki eins og að umfjöllunarefni Fiskifrétta hafi verið af skornum skammti enda tekist á um réttmæti breytinganna alla tíð og sýnist sitt hverjum, bendir Guðjón á.slor

Tæknibreytingarnar höfðu mest áhrif

En um breytingarnar í kjölfar þess að kvótakerfinu var komið á segir Guðjón: „Þetta kom líka til vegna tæknibreytinga, og kannski höfðu þær meiri áhrif en nokkuð annað. Sú er þróunin í dag; breytingarnar eru miklar og hraðar vegna nýrrar tækni. En ég held að fiskveiðistjórnun okkar þjóni fleirum en gagnrýnendur hennar láta í veðri vaka. Við, almenningur, erum ekki lengur að taka höggin í hærra vöruverði með handstýringu eins og reglulegum gengisfellingum. Fyrirtækin borga skatta sem þau gerðu ekki áður. Þetta kerfi hentar flestum, en á móti kemur að kerfið er ekki allra hagur. Maður skilur vel þá gagnrýnendur þess sem hafa séð smærri sjávarbyggðir kikna undan þeim breytingum sem kerfinu hafa fylgt, og ekki er séð fyrir endann á því virðist vera. Maður skilur þá líka vel sem vilja sækja sjóinn en geta það ekki kvótalausir. En í heildina séð held ég að kerfið sé þjóðarbúinu hagstætt,“ segir Guðjón.

Óhætt er að tala undir þau orð Guðjóns að Fiskifréttir hafi ávallt leitast við að gera öllum sjónarmiðum í sjávarútvegsumræðunni skil og blaðið hafi staðið öllum opið til að viðra sínar skoðanir. Guðjón segir að fyrir vikið hafi starfsmenn blaðsins undantekningarlítið ekki sætt neinni gagnrýni fyrir efnistök sín og heldur ekki neinum þrýstingi af hálfu hagsmunaaðila.

Samþjöppun heldur áfram

Það er tilgangslítið að horfa á sjávarútveginn með þeim augum að þar hafi ekkert gerst í 30 ár eins og sumir láta sem enn eru að rífast um upphaf kvótakerfisins, eignarhald á kvóta eða auðlindagjöld. Og breytingarnar eru á fullu enda verður íslenskur sjávarútvegur stöðugt að aðlaga sig breyttu samkeppnisumhverfi.

Nýlega birti Fiskistofa upplýsingar um að samþjöppun í sjávarútvegi hefur haldið áfram á síðustu 12 árum. Þar kom fram að útgerðarfyr­ir­tækj­um með afla­hlut­deild hef­ur fækkað um næst­um 60% á 12 árum. Alls áttu 946 út­gerðarfyr­ir­tæki afla­hlut­deild á fisk­veiðiár­inu 2005 til 2006 en nú deila 382 fyr­ir­tæki hlut í afl­an­um. Fjöldi út­hlutaðra þorskí­gildist­onna er þá næst­um sá sami, eða um 400 þúsund tonn. Þessar upplýsingar má finna á vef Fiski­stofu.

Eins og und­an­far­in ár eru HB Grandi og Sam­herji í tveim­ur efstu sæt­un­um. HB Grandi er með um 10,4% af hlut­deild­un­um en var í mars með 11,3%. Sam­herji er með 6,2%. Sam­an­lagt ráða þessi tvö stærstu út­gerðarfyr­ir­tæki lands­ins því yfir 16,6% af hlut­deild­un­um í kvóta­kerf­inu. Í 3. til 5. sæti eru Síld­ar­vinnsl­an í Nes­kaupstað, Þor­björn í Grinda­vík og FISK-Sea­food Sauðár­króki. Efninu tengd, má geta þess að fyrir örfáum dögum keypti FISK-Seafood allt hlutafé í Soffaníasi Cecilssyni hf. á Grundarfirði en fyrirtækið ræður yfir 3.200 tonna kvóta í þorskígildum talið.

Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Þetta töldu flestir fræðimenn að myndi gerast í kjölfar upptöku auðlindaskatts. Þeir stóru stækka og það hratt. Ef menn vilja síður að þessi þróun sé blasir við að skynsamlegra er að leggja fremur á aukin tekjuskatt þannig að stærstu og arðmestu útgerðirnar borgi einfaldlega hærri tekjuskatt. En líklega er orðið of seint að snúa við þróunni varðandi samþjöppun. Ljóst er að engin ríkisstjórn ber meiri ábyrgð á þessu ferli en vinstri stjórnin sem sat 2009 til 2013.

Kvótakerfið skipti sköpum við að draga úr brottkasti

En skoðum fleiri þætti sem verður að hafa í huga þegar meta á kvótakerfið í dag. Í nýlegu viðtali Fiskifrétta við Jónas R. Viðarsson, sem er faglegur leiðtogi á sviði rannsókna og nýsköpunar hjá Matís, kemur fram að kvótakerfið hér á landi hafi skipt sköpum við að draga úr brottkasti sem er eitt helsta vandamál við stýringu fiskveiða hjá fjölmörgum þjóðum. Um það segir Jónas:

„Það má held ég segja að kvótakerfið og samþjöppun á kvóta, hvað svo sem mönnum finnst annars um það, sé aðalástæðan fyrir því að brottkast er svo lítið hér á landi. Nú orðið eru það stórar útgerðir sem eiga meirihlutann af kvótanum. Þeir sem eru að höndla með fiskinn eru þá bara starfsmenn þessara stórfyrirtækja.“ Jónas segir að hvatinn til að kasta aflanum sé minni en hjá smærri fyrirtækjum sem eiga takmarkaðar veiðiheimildir.

„Þar er maðurinn, sem á bæði skipið og kvótann, að reka þetta og með því að stunda brottkast er hann náttúrlega að hugsa um eigin pyngju. En sjómönnum á togaranum hjá stórútgerðinni er sléttsama. Ef þeir stunda brottkast þá eru þeir bara að henda kaupinu sínu.“

Hann segir mikið hafa breyst frá árunum upp úr 1990 þegar margar litlar útgerðir voru með lítinn kvóta, og þurftu jafnvel að leigja megnið af sínum kvóta. „Þá var hvatinn til að stunda brottkast miklu meiri en hann er í dag.“ - Já, kannski ýmsar staðreyndir mættu vera uppi á borðinu þegar rætt er um íslenskan sjávarútveg. Það gæti bætt umræðuna um þessa mikilvægu atvinnugrein okkar Íslendinga.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.