c

Pistlar:

11. október 2017 kl. 16:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjárfesting í dag er hagvöxtur á morgun

Fyrirsögnin hér er fengin að láni úr inngangserindi Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, á fundi samtakanna fyrir stuttu. Þá var kynnt viðamikil skýrsla sem Samtök iðnaðarins höfðu látið gera um ástand innviða á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem slík skýrsla er tekin saman og að henni komu fjölmargir aðilar innan iðnaðarins, hver á sínu sviði. Það eykur gæði skýrslunnar sem dregur saman mikilvægar upplýsingar og varpar ljósi á ástand mannvirkja í landinu. Það er í sjálfu sér áhugavert að fá upplýsingar um að vegir landsins séu samtals um 26.000 km. að lengd og að enn séu 40 einbreiðar brýr á þjóðvegi 1. Mikilvægara er þó það mat sem þarna kemur fram á viðhalds- og nýbyggingaþörf hér á landi og það hlýtur að hafa áhrif á alla umræðu um forgangsröðun. Fróðlegt er að bera það saman við þá markmiðssetningu og áætlanir sem er að finna í opinberri áætlanagerð, svo sem vegaáætlun og fjármálaáætlun.

Sigurður Hannesson benti á að innviðafjárfesting á mörgum sviðum hefur verið lítil undanfarin ár og hann telur að óbreyttu séu horfurnar víða ekki góðar. Innviðauppbyggingu þurfi þannig  nauðsynlega að setja í forgang til að mæta nýjum áskorunum og tækifærum sem felast í samfélagsbreytingum og efnahagsþróun næstu ára.

Þetta tónar saman við þær upplýsingar og ályktanir sem komu fram í skýrslu GAMMA sem út kom í nóvember í fyrra en þar var bent á margvísleg verkefni sem verið hafa í opinberri umræðu og gætu verið vænlegir kostir í hálfopinbera einkaframkvæmd. Heildarumfang verkefna sem nefnd voru í skýrslu GAMMA og talin eru henta í einkafjármögnun nema ríflega 900 milljörðum króna eða talsvert hærri upphæð en hjá SI sem mat brýnustu þörfina um 400 milljarða. innviðir

Mikilvægi innviða

Það segir sig sjálft að íslenskt samfélag er óhugsandi án þess að hér séu innviðir í flugvöllum, vegum, höfnum, fráveitum, hitaveitum, vatnsveitum, úrgangsmálum, orkuvinnslu og orkuflutningum ásamt fasteignum ríkis og sveitarfélaga sem meðal annars telja skóla og sjúkrahús. Saman mynda þessir innviðir lífæðar samfélagsins en með fjárfestingum í innviðum er fjárfest í lífsgæðum þjóðarinnar, samkeppnishæfni atvinnulífsins og hagvexti framtíðarinnar. Við sjáum hve miklu einstakar framkvæmdir skipta og má sem dæmi taka að fjárfesting á Keflavíkurflugvelli er undirstaða að þeirri ferðamannauppbyggingu sem hér er núna. Sömuleiðis má benda á mikilvægi Hvalfjarðarganganna sem auk annars hafa útrýmt alvarlegum umferðaslysum í Hvalfirði sem voru því miður allt of tíð áður. Í haust verða Norðfjarðargöng opnuð sem munu valda straumhvörfum á austfjörðum. Á næsta ári verða Vaðlaheiðargöng vígð og er ekki að efa að þau munu hafa jákvæð áhrif þó að gerð þeirra hafi verið erfið.

Samtök iðnaðarins benda á í skýrslu sinni að uppbygging innviða og viðhald þurfi ávallt að vera með mikilvægi þeirra að leiðarljósi. Heildarendurstofnvirði ofangreindra innviða er áætlað 3.493 milljarðar króna. Til samanburðar stóðu heildareignir lífeyrissjóða landsmanna í 3.725 milljörðum króna í lok júlí 2017.

Með endurstofnvirði er átt við kaupverð eða kostnaðarverð sambærilegra innviða með sömu framleiðslu og/eða þjónustugetu. Færa má rök fyrir því að virði þessara eigna fyrir samfélagið sé mun meira þegar tekið er tillit til þess hvað þær leggja til verðmætasköpunar efnahagslífsins. Af þessu má ljóst vera að veruleg verðmæti eru bundin í innviðum hagkerfisins.

Endurstofnvirði hæst í orkuvinnslu

Af einstökum innviðum er endurstofnvirðið hæst í orkuvinnslu (850–900 milljarðar króna), vegagerð (870–920 milljarðar króna), fasteignum ríkis og sveitarfélaga (440 milljarðar króna), orkuflutningum (320 milljarðar króna) og flugvöllum (240–280 milljarðar króna). Lægst er endurstofnvirðið í úrgangsmálum (35–40 milljarðar króna).

Að meðaltali fá innviðir sem skýrslan nær til ástandseinkunnina 3,0 en einkunnargjöfin er á bilinu 1 til 5 þar sem 1 er lægsta einkunn og 5 sú hæsta. Miðað við þessa einkunn er staða innviða að meðaltali viðunandi en ekki góð. Einkunnin segir að búast megi við umtalsverðu viðhaldi til þess að halda uppi starfsemi þessara innviða og að nauðsynlegt verði að leggja í fjárfestingar í þeim til framtíðar litið. Eðli máls samkvæmt er ástand innviða mismunandi. Verst er ástand vega og fráveitna en ástandseinkunn þeirra er 2. Hitaveitur og orkuvinnsla eru einu innviðirnir sem fá ástandseinkunn 4 sem merkir að staða mannvirkisins sé góð og að eðlilegt viðhald þurfi til að halda stöðu þess óbreyttri. Enginn innviður fær hæstu einkunn, þ.e. 5, og uppfyllir þannig allar kröfur og þarfir dagsins í dag.

Uppsöfnuð viðhaldsþörf

Uppsöfnuð viðhaldsþörf ofangreindra innviða er áætluð 372 milljarðar króna eða tæplega 11% af endurstofnvirði. Með uppsafnaðri viðhaldsþörf er átt við hvað þarf til að koma viðkomandi innvið í ástandseinkunn 4, þ.e. í ástand þar sem staða mannvirkisins er góð og eðlilegt viðhald þurfi til að halda stöðu þess óbreyttri.

Í skýrslunni er bent á að horfur í efnahagsmálum um þessar mundir benda til þess að á næstu misserum muni draga úr hagvexti og slakna á spennunni í hagkerfinu. Þetta merkir að það mun losna um framleiðsluþætti sem væri þá lag að nýta til uppbyggingar og viðhalds innviða. Út frá stöðu efnahagsmála sé því góður tími til að að bæta upp ofangreinda uppsafnaða viðhaldsþörf. Með þeim hætti væri dregið úr niðursveiflunni og á sama tíma byggt undir stoðir hagvaxtar litið til lengri tíma. Til að átta sig á stærðargráðu þessara verkefna nemur ofangreind uppsöfnuð viðhaldsþörf 15,4% af áætlaðri landsframleiðslu þessa árs. Uppsöfnuð viðhaldsþörf er, í fjárhæðum mæld, mest í vegagerð, fasteignum ríkisins, fráveitum og orkuflutningum. Hefur viðhaldi innviða verið verulega ábótavant á þessum sviðum. Víða um land eru hættulegir vegakaflar og á hringveginum eru enn hátt í 40 einbreiðar brýr. Margoft hefur komið fram að á höfuðborgarsvæðinu þurfi að bæta samgöngur talsvert. Heilmikil raforka nýtist ekki sökum þess að flutningskerfi raforku er ófullkomið. Nauðsynlegt er að fara í fjárfestingar í uppbyggingu meginflutningskerfis til að tryggja nægt framboð raforku um land allt.

Einkaaðilar komi að uppbyggingu innviða

Það er skoðun skýrsluhöfunda að einkaaðilar verða að koma að uppbyggingu innviða. Hið opinbera geti ekki eitt og sér staðið að framkvæmdum upp á hundruð milljarða á næstu árum. Innlendir jafnt sem erlendir fjárfestar eru áhugasamir um innviðauppbyggingu hér á landi og hér hefur byggst upp þekking á rekstri slíkra verkefna sem má nýta. Undir það má taka en stjórnmálin greinir augljóslega á þar um. Að hluta til kjósa menn um slíka hluti nú í komandi kosningum.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.