c

Pistlar:

12. nóvember 2017 kl. 17:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Jeff Bezos - ríkastur allra

Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, er nú ríkasti maður í heimi. Auður hans er nú talin nema um 95 milljörðum Bandaríkjadala en samkvæmt tímaritinu Forbes náði hann efsta sætinu á þessum eftirsótta auðmannalista í júlí síðastliðnum. Það voru nokkur tíðindi enda hefur Bill Gates, stofnandi Microsoft, verið þar þaulsetin í um tveggja áratuga skeið. Nokkrum vikum síðar náði Gates aftur titlinum af Bezos þegar bréf Amazon lækkuðu en miklar hækkanir í október fleyttu Bezos aftur á toppinn og núna er hann þar með þokkalegt forskot. Bezos á 17% hlut í Amazon sem hann stofnaði í Seattle fyrir 23 árum. Vöxtur fyrirtækisins hefur verið ævintýralegur síðan en Amazon er í dag stærsta dreifingarfyrirtæki í heimi og fjárfestar hafa augljóslega mikla trú á framtíð félagsins en bréf þess hækka jafnt og þétt. Dagsveiflur á verðmæti félagsins geta jafngilt íslensku fjárlögunum.

Amazon var skráð á markað í maí 1997 og hefur nánast 500 faldast í verði síðan þá. Við skráningu var félagið auðkennt sem Amazon.com og sóttist eftir 54 milljónum dala við skráningu en markaðsvirði þá var metið á um 440 milljónir dala. Upphafsfjárfestarnir fengu ævintýralega ávöxtun enda netbólan á fullu þá. Markaðsvirði Amazon var komið upp í 36 milljarða dala þegar netbólan sprakk. Í kjölfarið varð gríðarlegt fall á virði félagsins og árið 2001 var það metið á einungis 2,2 milljarða dala en þá var félagið enn rekið með tapi. Bezos sagði fjárfestum að Amazon væri ekki fyrir þá sem vildu sofa áhyggjulaust. Það liðu sex ár þangað til Amazon náði fyrra markaðsvirði en viðskiptamódelið hélt og smám saman byrjaði félagið að skila hagnaði.

Fjórða verðmætasta fyrirtæki heims

Að markaðsvirði er Amazon fjórða verðmætasta fyrirtæki Bandaríkjanna en virðið hefur undanfarið sveiflast á milli 540 og 550 milljarða dala. Aðeins Apple, Alphabet (móðurfélag Google) og Microsoft eru verðmætari. Næst á eftir Amazon er síðan Facebook. Rétt er að geta þess að þegar markaðsvirði á heimsvísu er skoðað þá er röðin sú sama. Það er aðeins kínverska dreifingarfyrirtækið Alibaba sem kemst þarna nálægt, næst á eftir Facebook. Bréf Alibaba hafa reyndar hækkað um 94% síðasta árið til samanburðar við 47% hækkun á bréfum Amazon. Bæði þessi félög starfa á líkum grunni og eru óumdeilanlega stærstu vöruhús heims og þess albúin að taka mun meira til sín af heimsversluninni.bezos

Amazon hóf starfsemi sína 1994 þegar Bezos var þrítugur en hann hafði þá lokið gráðu í raunvísindum frá Princeton háskólanum. Félagið byrjaði að selja bækur í gegnum netið og innan nokkurra ára virtist félagið ætla að gleypa bóksölu í Bandaríkjunum. Hugtakið að vera Amazónaður varð til og bóksalar sáu sæng sína uppreidda. En Bezos sá lengra og í dag meta fjárfestar Amazon miklu verðmætara en hefðbundin verslunarfyrirtæki. Það kemur til vegna gríðarlegra vaxtatækifæra en auk þess hefur félagið verið tilbúið að hasla sér völl á nýjum mörkuðum. Í dag rekur Amazon til að mynda eina stærstu efnisveitu heims, næst á eftir Netflix.    

Fjárfestirinn Warren Buffett hefur látið hafa eftir sér að hann sjái eftir að hafa ekki fjárfest í Amazon en Buffett hefur löngum haft varan á sér gagnvart tæknifyrirtækjum. Hann braut þó odd af oflæti sínu fyrir tveimur árum og fjárfesti í Apple og hefur uppskorið ríkulega.  

Dagblað og geimferðir

En þó að auður Bezos sé bundinn í Amazon þá hefur hann áhuga á ýmsu öðru. Rétt eins og margir aðrir auðmenn þá hefur hann fjárfest í forvitnilegum framtíðarverkefnum. Þar má nefna félag hans Blue Origin sem hyggst hasla sér völl í geimnum og ferðum honum tengdum. Þar fetar Bezos í fótspor auðmanna eins og Richard Branson og Elon Musk. Blue Origin er metið á um einn milljarð dala, talsvert minna en SpaceX fyrirtæki Musk. Bæði þessi fyrirtæki hafa á stefnu sinni að lækka umtalsvert kostnað við geimferðir. Bezos sagði á ráðstefnu síðasta vor að hann hygðist selja hluti í Amazon að virði ein milljarður dala á ári til að fjármagna Blue Origin. Miðað við hækkun á gengi Amazon ætti það lítið að skerða auð hans!

En ekki eru öll fjárfestingaverkefni Bezos með arðsemi að leiðarljósi. Í það minnsta var litið svo á að ýmis önnur sjónarmið en arðsemi ein og sér hafi ráðið þegar hann setti 250 milljónir dala í rekstur bandaríska stórblaðsins Washington Post árið 2013. Blaðið skilaði loksins hagnaði undir hans stjórn á síðasta ári og hann væntir þess að árið 2017 verði einnig hagnaður. Tengsl fjölmiðla og auðmanna eru vitaskuld alltaf viðkvæm og engum dylst að Washington Post hefur beitt sér mjög gegn Donald Trump núverandi Bandaríkjaforseta. Bezos hefur reynt að forðast umræðu um ritstjórnarstefnu blaðsins en látið sér umhugað um reksturinn. Hann hefur látið hafa eftir sér að leiðin til þess að koma dagblaði í hagnað sé ekki í gegnum niðurskurð heldur aukna vöruvöndun og betri blaðamennsku. Því hefur hann látið blaðið ráða nýja blaðamenn og eflt tæknideild blaðsins. Bezos hefur einnig látið hafa eftir sér að hann telji að neytendur verði að greiða fyrir fréttir ef þeir eigi að geta treyst þeim.

Bezos á einnig 3% í Business Insider og 2% hlut í Aimmune Therapeutics.amazon

Umdeildir auðmenn

Fræg eru ummæli W. H. Vanderbilts, bandaríska járnbrautakóngsins, sem var spurður árið 1883 hvort hann ræki hraðlestir almenningi til gagns? Vanderbilt svaraði: „Fjandinn hirði almenning“. Þvert á móti kvaðst hann reka lestir til að skapa arð en ekki almenningi til heilla. Svo má vitaskuld deila um hvort að endingu hafi rekstur Vandebilts nýst almenningi en líklega myndi engin auðmaður láta svona ummæli frá sér fara í dag.

Sem gefur að skilja er Bezos umdeildur maður. Margir hafa gagnrýnt starfsmannastefnu fyrirtækisins og verkalýðsfélög í Bandaríkjunum hafa horn í síðu hans. Amazon rekur mun mannaflsfrekari starfsemi en hefðbundin tæknifyrirtæki og hefur ráðið mikinn fjölda fólks undanfarin misseri. Heildarstarfsmannafjöldi fyrirtækisins nálgast nú um 400.000 manns, þrisvar sinnum fleiri en hjá Microsoft, svo dæmi sé tekið. Í Bandaríkjunum einum starfa 280.000 manns hjá Amazon. Það segir sig sjálft að ýmislegt kemur upp í starfsmannamálum á svo fjölmennum vinnustað. Amazon telur mikil tækifæri í sjálfvirkni og félagið hefur fjárfest gríðarlega í slíkri tækni og hefur meðal annars uppi áform um að senda vörur til viðskiptavina með drónum.

Miðað við marga aðra auðmenn hefur Bezos haft hægt um sig þegar kemur að mannúðarmálum og fjárútlátum því tengdu. Hafa verður þó í huga að hann er yngri en bæði Bill Gates og Warren Buffett sem hafa báðir látið til sín taka á þeim vettvangi eins og lesa má hér.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.