c

Pistlar:

6. desember 2017 kl. 16:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heimsmeistaramót í fjáraustri

Þegar vetrarólympíuleikarnir voru haldnir í Sotsjí (e. Sochi) við Svartahafsströnd Rússlands fyrir tveimur árum var kostnaðurinn við undirbúning þeirra jafn mikill og kostnaðurinn við alla vetrarólympíuleika fram að því. Ekki nóg með það - leikarnir í Sotsjí urðu dýrustu ólympíuleikar allra tíma og eru þá sumarleikar meðtaldir. Af þessu má sjá að í Rússlandi Pútíns er ekki horft í aurinn, sérstaklega ekki þegar heimurinn er að horfa á. Auðvitað var um að ræða mikla  sýndarmennsku í Sotsjí og líklega verður enn meira af slíku í sumar. Hin napra staðreynd er hins vegar sú að Rússland hefur ekki efni á fjáraustri sem þessu. Kjör almennings eru ekkert til að hrópa húrra fyrir og velferðarkerfið er á brauðfótum. En mótmæli eru kannski ekki svo hávær.hm russ

Framundan er önnur svona metkeppni í fjáraustri. Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu verður háð í Rússlandi næsta sumar. Þar verður Ísland meðal 32 þátttökuþjóða eins og flestum Íslendingum ætti að vera kunnugt. Ísland og Panama taka nú þátt í keppninni í fyrsta sinn á meðan þekktar knattspyrnuþjóðir og Ítalía, Bandaríkin og Holland verða víðs fjarri. Bandaríkjamenn eru nú fjarverandi í fyrsta sinn síðan 1986 og er það áfall fyrir fjárhag keppninnar og mátti þó ekki við miklu. Nú fyrir nokkrum dögum voru síðan fréttir af því að FIFA ætti í vandræðum með að loka styrkjasamningum, sérstaklega meðal innlendra aðila.  

Dýrir leikvangar

Í upphafi hugðust Rússar halda heimsmeistaramótið í 13 borgum og til stóð að 16 leikvangar yrðu til reiðu fyrir keppnina. Allir áttu þeir að sjálfsögðu að standast kröfur FIFA sem verða strangari og kostnaðarsamari með hverri keppni. Nú hefur keppnisborgunum verið fækkað í 11 og leikvöngunum í 12. Nokkrir verða endurbyggðir en flestir þó reistir frá grunni. Ljóst er að kostnaðurinn verður stjarnfræðilegur og bygging óperuhúsa bliknar í samanburði. Þannig er talið að bygging leikvangsins í Sankti Pétursborg kosti ein og sér um einn milljarð Bandaríkjadala eða ríflega 100 milljarða íslenskra króna.  Það þótti ógnarupphæð í knattspyrnuheiminum, eða allt þar til fór að fréttast af kostnaði af byggingu nýs leikvangs fyrir enska úrvalsdeildarliði Tottenham. Kostnaður við nýjan leikvang Tottenham er nú áætlaður um ein milljarður punda eða um 140 milljarðar króna og verður þar með dýrasti leikvangur Evrópu. Þessi nýi völlur Tottenham er byggður fyrir 61.500 áhorfendur sem er tvöfalt það sem gamli völlurinn, White Hart Lane, tók. Leikvangurinn er hannaður með það í huga að hann geti einnig hýst NFL leiki í framtíðinni og er hugsaður fyrir margvíslega sýningarstarfsemi að auki. En ljóst er að verðið setur ný viðmið og stjórnendur Chelsea eru nú að vinna nýjar kostnaðaráætlanir fyrir nýjan heimavöll Chelsea. Er talið að Roman Abramovich, eigandi Chelsea, geti ekki verið minni maður.  

Kostnaðurinn margfaldast

En víkjum sögunni aftur til Rússlands. Kostnaður við leikanna í Sotsjí fimmfaldaðist frá upphaflegum áætlunum og varð að lokum um 50 milljarðar Bandaríkjadala. - 10 milljörðum dala hærri en kostnaðurinn við sumarleikana í Peking sem eru þeir dýrustu sem ráðist hefur verið í. Til að gæta sanngirni þá má segja að aðstaðan í Sotsjí nýtist að hluta nú þar sem borgin er ein þeirra sem hýsa HM í knattspyrnu.

HM 2014 í Brasilíu er dýrasta keppnin til þessa. Hafa verður þó í huga að samanburður á kostnaði við stórmót getur verið nokkur villandi, enda afar misjafnt hversu umfangsmiklar framkvæmdir er ráðist í. Töluverður munur getur verið á nauðsynlegum framkvæmdum við innviði viðkomandi landa og misjafnt er hversu stór hluti er fjármagnaður af einkaaðilum.

Í febrúar síðastliðnum greindu skipuleggjendur í Rússlandi frá því að kostnaðaráætlunin hefði verið hækkuð um 350 milljónir dala. Nú í lok október var bætt um betur og kostnaðaráætlunin hækkuð um 600 milljónir dala. Heildarkostnaðurinn er nú farin að nálgast 12 milljarða dala. Ríkissjóður mun fjármagna um 60% kostnaðarins, 14% fellur á sveitastjórnir og afgangurinn skiptist á milli opinberra og hálfopinberra aðila. Forsætisráðherrann Dmitry Medvedev hefur haft það skemmtilega hlutverk að kvitta upp á reikningana. Pútín mun síðan taka heiðurinn ef vel tekst til.

En svo skal böl bæta að benda á annað verra. Gera má ráð fyrir því að þegar reikningarnir fara að sjást frá olíuríkinu Qatar, sem halda mun HM 2022, sé líklegt að kostnaður við leikana 2018 hverfi í skuggann. Qatar hyggst verja um 200 milljörðum dala í leikana 2022 og það met verður líklega ekki slegið í bráð.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.