c

Pistlar:

19. október 2016 kl. 11:13

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Heitt olíunudd framkallar gæsahúð og heldur húðinni ungri!

Við sem erum svo lánsöm að hafa komist í heitt olíunudd hjá sérhæfðum Ayurveda nuddara vitum fátt notalegra. Um okkur flest fer hreinlega gæsahúð við tilhugsunina. Að ekki sé minnst á okkur ofurheppnu sem höfum komist í svokallaða Shiodhara nuddmeðferð. Stundum kölluð meðferð fyrir þriða augað. Þegar volg olía er látin drippa taktfast á ennið. Það er ólýsanlega nærandi upplifun og “möst” að prófa einhvern tímann á lífsleiðinni. Meðferðin virkar gegn allskyns streitu, m.a. áfallastreitu og flugþreytu.

Ayurveda_1024x1024Í sömu andrá tölum við gjarnan um hversu tímabært það sé að fá Ayurveda nuddstofu til Íslands. Það myndi bæta lífsgæði okkur margra sem búum meirihluta ársins við kalt og þurrt loftslag og mikla vinda. Heitt olíunudd er eins og sniðið fyrir okkur sem búum á Íslandi.

Talað er um í Ayurveda að vata frumefnið (haust/vetur, vindar, þurrt loftslag) sé tengt húð og liðamótum. Þannig megi t.d. sjá fyrir sér leðurskó eða tösku í vindi og þurru loftslagi. Þetta sé einfalt, ef við berum ekki nærandi olíu á leðrið springur það, en á móti kemur geti leðrið orðið glansandi fínt ef við berum á það reglulega, nuddum og nærum vel.

Þar sem við búum ekki ennþá svo vel að hafa Ayurveda nuddstofu á íslandi er til önnur frábær lausn sem felst í því að mastera Abhyanga heimanuddið sem er auðvelt að gera með góðum olíum (sem vel að merkja geta líka verið án jurta en umfram allt lífrænar og ætlaðar húð). Og það auðvitað miklu ódýrara en að fara á nuddstofu. Heimaolíunudd er í raun frábær leið til að halda húðinni fallegri og heilbrigðri og liðunum mjúkum.

Vandaðar lífrænar grunnolíur sem innhalda virkar lækningajurtir eru ein af undirstöðuþáttum Ayurveda. Mælt er með daglegu sjálfsnuddi upp úr heitri olíu. Með því að nudda okkur daglega eða minnsta kosti 2x til 3 x í viku á vindasömum tímum sem þessum lítur Ayurveda svo á að ráða megi bót á allskyns kvillum sem með tíð og tíma gætu leitt til sjúkdóma. Olíunudd er ein besta leiðin til að koma í veg fyrir sjúkdóma segir Ayurveda fræðunum.

Kærleikur í eigin garð!
Minnst er á góð áhrif daglegs sjálfsnudds undir heitinu Abhyanga í hinum 5000 ára gömlu vedísku ritum. Lagt er til 15 mínútna nudd á hverjum einasta morgni (eða kvöldi) upp úr heitri olíu. Annars vegar til að tryggja góða daglega líðan og hins vegar styður það óneitanlega við aukna núvitund og “self-compassion” eða kærleik í garð okkar sjálfra.

Það sem einnig kemur skýrt fram í vedísku textunum um Abhyanga er hin mikla áhersla á að við fáum tækifæri til að frásoga lækningajurtirnar í gegnum okkar stærsta líffæri, húðina. Mælt er með að þú nuddir þig hátt og lágt og látir þá olíuna og jurtirnar sem henta þér frásogast vel inn í líkamann. Þannig áttu að ná að vinda ofan af þér, nærast líkamlega og andlega og losa líkamann við uppsöfnuð eiturefni.

Það besta við sjálfsnudd:
Eykur blóðflæði, ekki síst til okkar fíngerðu taugaenda

Róar taugakerfið

Bætir svefn

Mýkir liði og dregur úr stífleika

Eykur núvitund

Hreinsar og þéttir húð

Eykur teygjanleika húðar

Gefur húðinni ljóma

Formar líkamann

Eykur lífsþrótt

Nokkur góð ráð til að bera olíu á líkamann!
Hitaðu olíuna undir heitri vatnsbunu eða settu í vatnsbað, líkt og þegar þú ert að bræða súkkulaði eða smjör.  Hafðu hana vel heita. Það er notalegra. Komdu þér í núvitundarástand. Vertu með sjálfri/um þér. Hafðu hugann við þann líkamspart sem þú ert að bera á hverju sinni.

Sittu eða stattu á handklæði og vertu í herbergi sem er hlýtt og notalegt, sem oftast er inn á baði. Gott er að taka frá sérstakt handklæði sem þú notar eingöngu fyrir olíunuddið. Notaðu lítið af olíu í einu og nuddaðu vel þar til hún fer inn í húðina.  Gerðu eins og almennt er ráðlagt, byrjaðu á fótunum (og já iljunum líka) og nuddaðu uppeftir líkamanum í hringlaga hreyfingum. Notaðu báðar hendur. Þeir sem eru háir í vata orku ættu að hafa hreyfinganar mýkri en kafa týpurnar kröftugri. Pitta líkamsgerðin er þar á milli.

Höfuð og fætur! Við höfuðið er best að byrja á enninu og gagnaugum og fikra sig upp að hárinu. Það er róandi að nudda höfuðleðrið vel, sérstaklega fyrir vata sem eru gjarnan viðkvæmari þar en aðrir. Ef þú ert með sítt hár er gott ráð að setja olíu í dropateljara og nudda svo hársvörðinn. Það er afskaplega gott að setja olíu í allt hárið af og til – ekki endilega á hverjum degi- og sofa með hana. Daginn eftir er trikkið að setja fyrst sjampó í hárið áður en það er bleytt. Þannig náum við olíunni úr.

Þegar maður nuddar fæturnar er best að sitja á handklæði á gólfinu og gefa sér tíma til að nudda ristar og iljar. Ef þú nuddar þig að kvöldi er mjög gott að sofa með olíuna á fótunum en fara þá í bómullarsokka upp í rúm. Nætursvefninn verður betri – vittu til.

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira