c

Pistlar:

29. janúar 2017 kl. 12:35

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Bestu ráðin á tímum flensu og orkuleysis

Ertu með flensuna, kvef, síhnerrandi og alltaf að snýta þér? Er hálsbólgan að hrjá þig eða bara almennur slappleiki? Margir glíma um þessar mundir við einhverja útgáfu af slappleika. Í besta falli orkuleysi. Þá er gott að vita að jógafræðin búa yfir mögnuðum ráðum sem geta létt fólki lífið og flýtt upprisu. Margar aðferðanna hafa vísindin þegar bakkað upp. En á meðan hin virta læknavísindastofnun Mayo clinic ráðleggur mikla vatnsdrykkju sem komi í veg fyrir ofþornun og losi um stíflur leggja hin fornu Ayurveda lífsvísindi til mikið af heitu vatni í sama og jafnvel ennþá áhrifaríkari tilgangi.

andlitsufa með engifer.Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna, eru nefnilega ögn nákvæmari og segja líkamann eiga mun auðveldara með frásoga heitt vatn en volgt eða kalt.

Hér er rökstuðningurinn:

Heitt vatn skoli burtu ama (eiturefnun) sem létti á ónæmiskerfinu

Heitt vatn næri slímhúðina um leið og það losar okkur við umfram slím.

Heitt vatn róar vata frumefnin sem búa í okkur öllum (þó í misstórum hlutföllum). Ofan á það bætist að vata er kalt og þurrt, eins og veturinn á Íslandi. Því er tvöföld ástæða fyrir Íslendinga að hafa vatnið heitt fremur en kalt eða volgt.

Ef flensan er á fyrstu stigum ráðleggur Ayurveda fræðingurinn John Doullard nokkra sopa af heitu vatni á 10 til 15 mínútna fresti í þrjá daga. Það geti snúið á flensuna.

Larissa Hall Carlson, skólastjóri hins virta Kripalu Ayurveda skóla í Massachusetts í Bandaríkjunum, ráðleggur okkur að láta fæðuna vera meðal okkar á flensutímum. Hún mælir með hreinun, heitum, léttum og einföldum mat og mikið af jurta- og grænmetisseyðum og teum. Og jafnframt mikið af vel elduðu grænmeti sem er á uppskerutíma. “Forðist þunga og massíva fæðu sem erfitt er að melta. Það eru mjólkurvörur, kaldir djúsar, kjöt og sætabrauð. Forðist einnig kaldan, frosin og þurran mat og líka hráfæði sem getur verið erfitt að melta, “ segir Larissa á heimasíðu Kriplau.

Gott að væta kverkarnar upp úr saltvatni. Saltvatnið losar um slím og hreinsar burt bakteríur og sveppi úr hálsinum. Mayo Clinic tekur undir það og segir saltvatn róa sáran háls og draga úr kláða.
Leysið ¼ til ½ tsk af salti (helst himalaya insk: pistlahöfundar) upp í 1 bolla af heitu vatni, segir á vefsíðu Mayo Clinic. Að baki þessum ráðleggingum liggur rannsókn sem birt var í The American Journal of Preventive Medicine. Um var að ræða samaburðarrannsókn. Annar hópurinn sem skolaði háls sinn þrisvar á dag var 40% fljótari að jafna sig af sýkingum í hálsi vegna kvefs eða flensu í samburði við þá sem ekki skoluðu á sér hálsinn upp úr saltvatni.

Borðaðu eða drekktu engifer. Margar vísindalegar rannsókir sýna og sanna að engifer dregur úr flensueinkennum, sljóleika og flökurleika og jafnvel úr vöðva- og beinverkjum. Ayurvedafræðnum hafa einmitt alltaf vitað að engifer er eitt öflugasta meðalið við kvefi. Engifer er beiskur í eðli sínu, sem dregur úr kafa, þessu blauta og þunga, sem býr í okkur öllum en fer gjarnan úr jafnvægi þegar við veikjumst.
Hitt er annað mál að það er ekki skynsamlegt að taka margar tegundir verkjalyfja á sama tíma og engifer. Því engiferinn er líka blóðþynnandi.

Í remidíu bók Vasant Lad Ayurvedalæknis er frábært ráð sem gagnast hefur mörgum vel. En það snýst um að fara í engifer andlitsgufu sem léttir á ennisholum og lungum. Sjóðið 1 tsk af fínsöxuðum lífrænum engifer í ½ lítra af vatni í stutta stund. Takið af hellunni. Þegar vatnið hefur kólna örlítið er gott setja blönduna í hitaþolna skál og handklæði yfir hausinn. Andið að ykkur gufunni í nokkrar mínútur. Endurtakið ef þess þarf.

Og auðvitað ráðleggja jógarnir líka djúpa öndun. Það dregur úr stífleika í brjóstkassann. Larissa á Kripalu jógasetrinu segir Drigha Pranayama, eða þriggja hluta öndun, áhrifaríkasta. Hún hefur áhrif á sefkerfið okkar, eða parasympatíska taugakerfið. Hér lýsir Larissa öndunni vel.

Ef við erum ekki komin á bólakaf í flensuna er gott að fyrirbyggja og passa vel upp á D-vítamínið, C-vítamínið, fá sér olífulauf, góðar olíur, taka inn bólgeyðandi túrmerk og hafa engifer alltaf innan seilingar. Það er afskaplega gott að styrkja ónæmiskerfið á meðan harðasti veturinn gengur yfir. Í Ayruveda fræðunum er alltaf ráðlagt að passa upp á að matur, vítamín og bætiefni séu lífræn og án aukaefna eða nastís. Þau valda ama (uppsöfnun eiturefna) í líkamanum og geta sannarlega verið ein af undirrótum þess að flensan leggst harðar á suma en aðra. Best er að hafa agni eða meltingareldinn skíðlogandi, ama geti sannarlega verið til ama.

Heimildir m.a.:

http://www.mayoclinic.org/

https://kripalu.org/

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira