c

Pistlar:

10. febrúar 2012 kl. 9:26

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Hvert er þitt meðaltal?

Ég er lánsöm kona. Ég er umkringd snillingum. Allt í kringum mig  er fólk sem ég get lært af og getur hjálpað mér að vaxa. Fjölskyldan mín leikur þar lykilhlutverk, vinir mínir sem ég met mikils og vinnufélagar. Viðskiptavinir mínir eru svo sér kapítuli útaf fyrir sig. Af þeim hef ég að líkum lært meira en af nokkrum öðrum og meira en á allri minni skólagöngu samanlagt.

Fyrir nokkrum árum lærði ég að ég er meðaltal þeirra sem ég umgengst. Því öflugra fólki sem ég eyði tíma með því öflugri verð ég sjálf. Við heyrum gjarnan neikvæðu birtingarmyndina af meðaltalskenningunni, „hann lenti í slæmum félagsskap“ en jákvæða hliðin getur ekki síður verið afdrifarík.

Ég vil meina að ég hafi „lent í góðum félagsskap“, þess vegna er ég sú sem ég er í dag. En ég er langt frá því að vera hætt. Ég er sífellt að leita leiða til að hækka meðaltalið mitt.

Meðaltalshugmyndin er komin frá Jim Rohn heitnum sem margir leita hvatningar hjá. Jim Rohn var „motivational speaker“ af gamla skólanum.  Fyrir um áratug var ég kynnt fyrir honum og þá og þegar hækkaði meðaltal mitt umtalsvert. Með orðum Jim Rohns:  

„Þú verður stöðugt að spyrja þig þessara spurninga: hverja er ég að umgangast? Hvað eru þeir að gera mér? Hvað fá þeir mig til að lesa? Hvað fá þeir mig til að segja? Hvert fá þeir mig til að fara? Hvað fá þeir mig til að hugsa? Og það sem mestu skiptir,  hver verð ég vegna þessa? Spurðu þig svo stóru spurningarinnar: Er það ásættanlegt?“

Líttu í kringum þig. Er meðaltal þeirra sem þú umgengst ásættanlegt meðaltal? Ef ekki, hvað þarftu að gera til að hækka meðaltalið? Gríptu til aðgerða og gerðu það sem þú þarft að gera til að verða betra eintak af sjálfum/sjálfri þér því þinn eigin vöxtur er það besta sem þú getur gert fyrir fólkið sem í kringum þig er. Þú getur lagt þitt af mörkum og hækkað þeirra meðaltal!

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira