c

Pistlar:

9. apríl 2007 kl. 20:22

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Konur eru konum bestar

Karlar eru frá Mars – Konur frá Venus....eða var það öfugt? Gildir einu. Við getum öll verið sammála um að konur og karlar eru í eðli sínu ólík þó svo að grunnþarfirnar séu þær sömu. Þannig er það og þannig verður það. Enda í sjálfu sér ekki svo eftirsóknarvert að konur temji sér alla eiginleika karla og karlar alla eiginleika kvenna. Þeir geta hins vegar lært heilmikið af okkur, og líka við af þeim.
Mér finnst kominn tími í baráttunni fyrir jöfnum rétti karla og kvenna að við konur stöldrum aðeins við og lítum á nokkur atriði í fari karla sem við getum notað til þess að ná enn meiri árangri.
Konur...
  • hættum að gagnrýna hvora aðra. Hvenær sérðu hóp stráka sitja fyrir framan sjónvarpið og gagnrýna bindi eða jakkaföt þáttastjórnandans? Verum ánægðar með velgengni annarra kvenna sem koma fram á opinberum vettvangi. Þær eru sönnun þess að við getum náð langt og við ættum fremur að nota þær sem fyrirmyndir. Einbeitum okkur að inntaki þess sem þær eru að segja og lítum framhjá hvernig því er pakkað inn.
  • nýtum okkur tengslanet okkar í enn ríkara mæli. Strákarnir virðast eiga auðveldara með þetta en við konurnar. Þeir hræðast ekki að taka upp símann og biðja vin eða kunningja um að leggja sér lið við eitthvað ákveðið málefni. Biðja um greiða. Til þess er tengslanetið, til að biðja um greiða og koma málum áleiðis á skjótari máta en ella. Hættum að hræðast þetta konur! Það er ekki klíkuskapur að biðja um aðstoð. Strákarnir geta þetta, við getum það svo sannarlega líka. Nýtum okkur þekkingu vinkvenna okkar og verum „konum bestar“.
  •  hættum að taka hluti persónulega. „Þetta er ekkert persónulegt“, þýðir akkúrat að það býr ekkert persónulegt að baki. Gagnrýni á störf, leiðbeiningar um það sem betur má fara í því sem við erum að gera o.s.frv. er akkúrat það sem það er. Ekkert meira, ekkert persónulegt. Það er ekki árás á þig sem persónu ef einhver segist ósáttur við það sem þú ert að gera í starfi eða vill að þú gerir hlutina á annan hátt. Við eigum eftir að lenda í árekstrum og rimmum í starfi, í pólitík og frístundum. Aðgreinum okkar persónu frá þeim árekstrum og rimmum og við komum til með að eiga miklu auðveldara með því að halda okkar striki og ná árangri. Munur á kynjunum í þessu tilliti sést greininlega í þáttum Donalds Trumps, The Apprentice. Kvennaliðin hafa oft verið við það að liðast í sundur eftir erfitt verkefni á meðan karlaliðin leggja deilur dagsins til hliðar og spila saman körufbolta. Þetta er nefnilega ekkert persónulegt!
  • hættum að draga ályktanir út frá orðum eða gjörðum annarra. Okkur konum hættir stundum til að leggja merkingu í orð viðmælanda okkar út frá látbragði, raddblæ o.s.frv. Við hugsum með okkur „hvað meinar hann/hún með þessu“ og leggjum aðra merkingu í orð viðmælandans en tilefni er til. Hættum að draga slíkar ályktanir. Spyrjum hreint út hvað viðmælandinn er að meina. Hlustum á orðin og spyrjum nánar út í þau. Þetta er sérstaklega mikilvægt í því töluvpóstfári sem nú ríkir í viðskiptum. Þar má oft túlka hluti á marga vegu. Spyrjum þangað til við skiljum hvert viðmælandinn er að fara og spörum okkur óþarfa heilabrot. Þetta er eina sviðið þar sem karlmenn hagnast á skorti á tilfinningalegu innsæi J.
  • verum óhræddar við að vera konur. Verum óhræddar við að vera við sjálfar. Með því að hafa trú á því sem við erum að gera sýnum við umhverfi okkar að það skuli hafa trú á okkur líka. Það er allt sem til þarf.  
Áður birt á tikin.is
Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira