c

Pistlar:

24. janúar 2016 kl. 10:59

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Þegar það róast

Það þarf engum að segja að hraðinn í lífi nútímamannsins hefur margfaldast á síðustu áratugum.Multitasking Við höfum í hendi okkar ótrúlegt magn upplýsinga og áreitið fylgir okkur nánast hvert sem við förum. Skilaboðin um hið fullkoma líf dynja á okkur úr öllum áttum og búa til pressu sem er ómögulegt að standa undir. Konur í dag eiga að vera í krefjandi störfum en um leið líta vel út (hafið þið prófað að reyna að léttast um nokkur kíló eftir fertugt…það er rugl erfitt og tekur engan smá tíma), hugsa vel um heimilið (það þýðir að þrífa og þvo – hvað ætli þvottafjallið sé þungt á ársbasis fyrir
 5 manna fjölskyldu þar sem allir stunda íþróttir? 2 tonn???), elda góðan mat (að halda úti matarbloggi er kostur!) og kunna að búa til bæði hrákökur og marens, já og grænan djús, eiga vel til höfð börn sem læra alltaf heima og fara með hollt og gott nesti í skólann, vera í góðu sambandi við makann, rækta sambandið við vinkonurnar, vera færar um að toppa sig milli ára í aðventukransagerð, taka þátt í hjólreiðabrjálæðinu sem tröllríður öllu, og jafnvel taka þátt í þríþraut, í það minnsta vera í gönguhóp og fara reglulega í fjallaferðir, halda garðinum vel við, senda heimagerð jólakort, stunda skíði á veturna, og svo er það sumarbústaðurinn….og hægt væri að halda áfram.

Það sér það hver heilvita maður (og kona) að það er ekki nokkur leið að standa undir þessu öllu. Í ofanálag eigum við að vera hamingjusamar og vinna í okkur sjálfum. Setja okkur markmið (meira að segja skrifa þau niður), vera meðvitaðar um langanir okkar og þrár. Fara reglulega út fyrir þægindahringinn. Vera leiðtogar í eigin lífi og séum við  með mannaforráð í okkar störfum eigum við að vera að kynna okkur nýjustu strauma og stefnur í leiðtogafræðum og vera frábærir stjórnendur. Hvenær eigum við að hafa tíma til þess spyr sá sem ekkert veit. Ég má kallast góð ef ég næ á nokkurra mánaða fresti að raspa á mér hælana í baði, hvað þá meir!

Í öllu þessu brjálæði er auðvelt að missa tökin og berast með straumnum. Taka einfaldlega við þeim verkefnum sem erill dagsins hendir að okkur og áður en við vitum af er komið kvöld og hvorki tími né orka til nokkurs annars en að hreyta ónotum í kallinn og fara örmagna í háttinn. Ég sem ætlaði að vera búin að skoða þessa grein sem vinnufélagarnir voru að tala um, eða setja mér markmið fyrir næsta ár, eða skoða hvernig mér gekk að ná markmiðunum frá því í fyrra (æ já ég hafði ekki tíma í að setja mér markmið, ætlaði alltaf að gera það þegar það róaðist – alveg rétt), ég ætlaði að vera búin að skoða þetta jóganámskeið sem Bogga frænka fór á og var svo hrifin af og kíkja á heilsubloggið með uppskriftunum að heilsudrykkjunum sem á að vera svo sniðugt að byrja daginn á (muna að kaupa gúrku og sellerí). Síðasta hugsunin áður en augun lokast rétt eftir að höfuðið leggst á koddann er hvað eftir annað: ,,Ég fer í þetta þegar það róast” og við það róast hugurinn og við hverfum inn í draumalandið.

Þegar það róast. Í alvöru. Erum við ennþá að kaupa það. Einmitt. Förum aðeins yfir þetta:  Það. Mun. Aldrei. Róast. Það verður ekki svo að við komum einn daginn til með að eiga afgangs hellings tíma sem við getum notað með sjálfum okkur til að íhuga hvaða skref við viljum stíga næst, skoða langanir og þrár, lesa greinarnar og bækurnar sem við vitum að er gott fyrir okkur að lesa, og allt hitt. Við verðum meðvitað að taka frá tíma til þessara hluta. Við verðum að setja þá á dagskrá. Það verður alltaf þvottur, eldamennska, vinna, heimanám, jól, páskar, sumarfrí…

Gefðu þér tíma fyrir þig. Taktu hann frá og smátt og smátt hættirðu að hugsa um það semdaydreaming þú ætlar að gera ,,þegar það róast”, þú verður meðvitaðri um í hvað þú verð tímanum og orkunni, þú verður við stjórnvölinn og lætur síður berast með straumköstunum sem myndast í erli dagsins. Það er léttir. Meðvitað líf er auðveldara líf og kannski geturðu þá hugsað um eitthvað annað en það sem þú átt eftir að gera rétt áður en þú hverfur inn í draumalandið. Það væri gott.

www.kvennahelgi.is

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira