c

Pistlar:

2. október 2015 kl. 19:20

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Bullsýður á katli!

Ketill Sigurjónsson orkubloggari og talsmaður Landsvirkjunar skrifar hér á mbl.is pistil sem ber heitið „Strönduð orka og lítil arðsemi“. Í þessum pistli eins og oft áður slær Ketill um sig með fullyrðingum sem í besta falli geta talist bull – en ná þó tæpast þeim hæðum. Katli er m.a. tíðrætt um sérhagmunagæslu og áróður í skrifum sínum. Sannleikurinn er hins vegar sá, að hann sér sjálfur alfarið um þá hlið málsins og ruglar um leið vísvitandi með hugtök.

Í þessum pistli segir hann meðal annars „… bara á síðustu átta árum nam rekstrarhagnaður Norðuráls (EBITDA) meira en einum milljarði USD. Þetta er í reynd að megninu til auðlindaarður af nýtingu íslenskra orkuauðlinda. Staðan í dag er sem sagt sú að þarna þjónar arðurinn af nýtingu umræddra vatnsafls- og jarðvarmaauðlinda fyrst og fremst þeim tilgangi að halda uppi hlutabréfaverði Century Aluminum.“ 

Rétt er hér að minna lesendur á að skammstöfunin EBITDA stendur fyrir Earnings Before Interest, Taxes, Depreciation and Amortization eða á íslensku, afkoma fyrirtækja áður en tekið er tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta.

Þarna gefur greinarhöfundur sterklega til kynna að eigendur Norðuráls hafi leyst til sín þetta fé. Hann spilar vísvitandi á tilfinningar þeirra sem ekki hafa þekkingu á því að greina á milli EBITDA annarsvegar og hagnaðar hinsvegar. 

Með sömu aðferðafræði og Ketill beitir í grein sinni get ég slegið fram eftirfarandi fullyrðingu með réttu: Bara á síðustu átta árum nam rekstrarhagnaður Landsvirkjunar (EBITDA) meira en tveimur komma tveim milljörðum USD án þess að eigendur fyrirtækisins hafi notið góðs af þessum hagnaði. Þvert á móti hefur verð á raforku til heimila og fyrirtækja landsins hækkað.

Að slá um sig með tölum um framlegð (EBITDA) líkt og ég geri í dæminu hér að ofan og Ketill gerir í pistli sínum, gefur falska mynd, hvort sem um Norðurál eða Landsvirkjun er að ræða.  Þetta eru stór fyrirtæki með umtalsverðar fjárfestingar í mannvirkjum og vélbúnaði og þar af leiðandi með miklar afskriftir og fjármagnskostnað sem eðlilegt er. Eðlilegra væri  í slíkum samanburði að horfa til sambands fjármunamyndunar og fjárfestingar. Þar gengur dæmið ágætlega upp hjá báðum fyrirtækjum, en þó sýnu betur hjá Landsvirkjun miðað við áætlað verðmæti fyrirtækisins. Það er ánægjulegt að sjá gríðarlega verðmætaaukningu Landsvirkjunar síðustu 10 ár en eins og allir vita byggist sú verðmætaaukning að langstærstum hluta á orkusölu til álvera. Þar munar sjálfsagt mest um álverðstengdan samning við Alcoa.

Fullyrðingar Ketils og töluleg framsetning hans í umræddum pistli eru því eins og svo oft áður vísvitandi falskar og áróðurskenndar. Svari því nú hver sem vill, í hverra þágu hann lætur svona bull frá sér fara. 

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur