c

Pistlar:

16. febrúar 2017 kl. 18:15

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Nú hitnar undir sprittinu

Ég hef, svo sem eins og áður hefur komið fram í skrifum mínum hér, fylgst nokkuð með umræðunni um boðað áfengisfrumvarp. Í þessari umræðu endurspeglast í raun íslensk umræðuhefð og rökræða síðustu áratuga. Umræðan er að mestu tekin á tilfinningalegum nótum og mikið gert af því að fara í manninn en ekki málefnið. Nú eða hitt að settar eru fram illa rökstuddar fullyrðingar í stað rökstuðnings, þá reyna menn að gefa skoðunum sínum vægi með því að leggja áherslu á stöðu sína í samfélaginu og eða menntun. Í einhverjum tilfellum bæði. Því má segja að það sé að hitna undir sprittinu.  

Nú vill ég taka fram svo það fari ekki á milli mála að ég er engin talsmaður áfengis eða áfengisneyslu. Þvert á móti hef ég allan vara á, sjálfur uppalinn og umkringdur aðstæðum þar sem verstu hliðar áfengis og neyslu þess hafa verið til staðar. Ég er hinsvegar talsmaður þess að verslunarrekstur hverskonar og þjónusta eigi frekar að vera í höndum einstaklinga en ríkisins. Það snýst að miklu leiti um valdveitingu og traust.

Ég trúi því að einstaklingur sem fær leyfi til sölu á vöru eins og áfengi leggi sig allan fram um að veita viðskiptavinum sínum bestu mögulegu þjónustu um leið og hann virðir þær reglur sem honum ber að starfa eftir. Hann gangi til náða að kvöldi hugsandi um það hvernig gera megi betur fyrir viðskiptavininn á morgun heldur en í dag. Ég vill líka taka fram að ég er á engan hátt að leggjast gegn því frábæra starfi sem samtök eins og SÁA vinna. Ég ber ómælda virðingu fyrir því starfi sem þar er unnið. Hef sjálfur orðið vitni af því hvernig samtökin umturnuðu lífi nákominna ættingja til betri vegar. Nóg um það.

Aftur að umræðunni. Ég hef undanfarna daga séð ýmsar greinar í blöðum þar sem borin eru fram rök af vel menntuðum einstaklingum sem virðast ekki standast einföldustu kröfur vísinda- og menntasamfélagsins. Tökum dæmi:

Í morgun stökk fram á ritvöllinn aðili sem titlar sig geðlækni, hann ritar meðal annars:

„Reynsla vestrænna þjóða af því að einkavæða áfengissölu er á eina leið: áfengisneysla eykst með tilheyrandi aukningu á áfengistengdu heilsutjóni og samfélagsböli.“

Stór fullyrðing sem ég hef ekki fundið bitastæð rök fyrir og hef þó leitað. Þó kann vel að vera að rökin séu til. Ég tel það eðlilega kröfu þegar vel menntað fólk setur fram svona fullyrðingar þá sé vísað í ritrýnda fræðigrein úr viðurkenndu fræðariti málflutningi þeim sem settur er fram til stuðnings. 

Embætti land­lækn­is hef­ur ít­rekað and­stöðu sína við væntanlegt frum­varp. Í frétt í Morgunblaðinu kem­ur fram að embættið telur mik­il­vægt að skoða heild­ar­mynd­ina og hafa heil­brigðis­sjón­ar­mið að leiðarljósi áður en tvær af þrem­ur virk­ustu for­varn­araðgerðum Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar eru af­numd­ar, þ.e. tak­mörk­un á aðgengi og bann við aug­lýs­ing­um, segir landlæknir. 

Þarna fellur embættið í þá gryfju að gefa sér að aðgengi og birting auglýsinga séu séu tvær af þremur virkustu forvarnaraðgerðum þjóðarinnar í áfengismálum. Ég er algerlega ósammála þeirri fullyrðingu. Ég hef hér í annarri grein hér bent á að aukið aðgengi á mettum markaði og markaði þar sem ekki hefur tekist að uppfylla eftirspurn eru sitt hvor hluturinn. Margir, þar á meðal landlæknisembættið virðast rugla þessu saman. Hitt er að allar viðurkenndar ritrýndar rannsóknir sem ég hef fundið á tengslum auglýsinga og aukinnar áfengisneyslu benda til þess að tengslin þar á milli séu lítil eða engin. 

Til er fjöldi rannsókna sem kanna þessi tengsl áfengisauglýsinga og neyslu. T.d. gerðu Makowsky og Whitehead rannsókn á afléttingu á 58 ára gömlu banni á áfengisauglýsingum í Saskatchewan í Canada sem var aflétt 3 október 1983.

Leyfðar voru auglýsingar á bjór og víni í útvarpi og í sjónvarpi og bjór, vín og sterkt áfengi mátti auglýsa í dagblöðum og tímaritum. Við rannsóknina voru notaðar mánaðarlegar sölutölur á áfengi frá 1981 til 1987. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að eftir að auglýsingabanninu var aflétt jókst sala á bjór en sala á sterku áfengi minnkaði.

Aflétting auglýsingabannsins hafði engin áhrif á sölu á víni og heildar áfengisneyslu í Saskatchewan þrátt fyrir tilkomu áfengisauglýsinga (Makowsky og Whitehead, 1991). 

En það er líka eins og það gleymist alltaf hver tilgangur áfengislaganna er.  Hann er ekki að vinna gegn neyslu áfengis heldur misnotkunar þess.  

Ef við teljum að rétt sé að koma í veg fyrir neyslu áfengis sé rétta leiðin til þess að minnka misnotkun. Ættum við að gera róttækar breytingar á ÁTVR í þá átt sem Ásdís Halla Bragadóttir hefur lagt til. Hún vill að útibúum verði fækkað. Opnunartími styttur. Þá verði alltaf lokað um helgar og einnig á sumrin. Í viðtali við DV lýsir Ásdís því sem sinni persónulegu skoðun að áfengi og tóbak sé illa misnotað í samfélaginu. Þess vegna þurfum við að finna leiðir til að stemma stigu við því. Rangt sé að lifa í þeirri blekkingu að sérstök áfengisverslun á vegum ríkisins leysi vandann.

Virðingarvert, hreint og beint viðhorf þar sem ekki er verið að blekkja fólk eða nota vafasöm rök. En ég persónulega er á móti svona aðgerðum. Mín skoðun er að forvarnir og fræðsla séu besta leiðin til þess að ná árangri í því að minnka misnotkun. Í nýju boðuðu frumvarpi er gert ráð fyrir fimmföldun á framlagi til fræðslu og forvarna. Það er að mínu viti mun áhrifameiri leið en að takmarka aðgengi líkt og Ásdís Halla leggur til. 


Viðauki skrifaður 21. febrúar 2017,
Vegna þessara orða minna hér að ofan „sjálfur uppalinn og umkringdur aðstæðum þar sem verstu hliðar áfengis og neyslu þess hafa verið til staðar.“ vill ég taka eftirfarandi fram.

Eins og þeir vita sem til mín þekkja er ég alinn upp eftir 7 ára aldur af ömmu minni sem var mikil sóma kona og reglusöm með afbrigðum. Tilvitnunin hér að ofan á því engan veginn við um hana sem var mín stoð og stytta alla tíð. Mér þykir leitt að orð mín skulu mögulega hafa misskilist og vill biðja alla hlutaðeigandi afsökunar á því að hafa ekki skýrt hug minn nægilega vel. 

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur