„Þú varðst fyrir misnotkun Tinna”

Ljósmynd/freyjur.is

Stúlka að nafni Tinna Ingólfsdóttir segir sögu sína á vefnum Freyjur.is, hvernig hún var misnotuð á netinu og hvernig hún náði að synda í land. Hér fyrir neðan er brot úr pistlinum:

„Þú varðst fyrir misnotkun Tinna.”

Þetta sagði mamma mín við mig fyrir rétt rúmlega ári síðan. Mér hafði aldrei nokkurn tímann dottið í hug að ég hefði orðið fyrir einhvers konar misnotkun. Ég tók bara vondar ákvarðanir og var hálfviti. Það var nefnilega búið að vara mig við, ég vissi alveg að ég ætti ekki að senda strákum á internetinu nektarmyndir af mér. En sannleikurinn er sá að ég varð fyrir misnotkun.

Mér var sagt að ég væri æðisleg og frábær fyrir að senda þessar myndir og hrósin sem ég fékk fyrir líkama minn og fegurð voru meiri og fleiri en ég hafði nokkurn tímann fengið frá jafningjum mínum fyrir nokkuð annað. Ég hefði gert hvað sem er fyrir þessa (að mér fannst) jákvæðu athygli, enda var ég óvinsæl, þótti skrýtin og rugluð, auk þess að vera lögð í svo leiðinlegt einelti að þegar ég komst ári fyrr inn í Menntaskólann á Akureyri þá grét ég úr gleði og létti. Ég trúði því svo blindandi að þessir strákar (sem kom í ljós að voru ekki alltaf strákar, heldur líka fullorðnir menn) væru vinir mínir, að ég meira að segja hjálpaði einum þeirra að læra fyrir stærðfræðipróf oftar en einu sinni.

Í fyrsta skiptið sem ég sendi einhverjum nektarmynd á netinu var á ég 13 ára. Ég rændi myndavél foreldra minna og notaði tölvuna hennar mömmu. Ég man ekki hvað maðurinn sem ég sendi myndirnar heitir, ég man ekki einu sinni hvað hann þurfti að spyrja mig oft (ég held þrisvar) en ég man að hann var með mynd af bláum sportbíl í prófíl á MSN og að mér fannst hann æðislega skemmtilegur. Tangarhaldið sem þessi strákur eða maður (ég veit ekkert hversu gamall hann var) hafði á mér var ótrúlegt. Hann sagði mér hversu falleg og æðisleg ég væri, en nokkrum mínútum síðar spurði hann af hverju ég væri ekki búin að raka á mér píkuna, hlutur sem mér hafði ekki dottið í hug fyrir það, og ég fór í algjöran mínus yfir því að vera að bregðast þessum félaga og fór beinustu leið að raka á mér píkuna.

Svona hélt þetta áfram í tæplega tvö ár, þar til ég byrja með strák sem krafði mig ekki um slíka hluti og studdi mig frábærlega (takk Gísli), þegar sumar myndirnar komust í mikla dreifingu á internetinu þar sem þær eru enn. Viðbrögðin hjá nýju skólafélögum mínum í MA létu ekki á sér standa og ég fékk að heyra athugsemdir eins og „Gaman að sjá þig í fötum!” nánast daglega, þó auðvitað hafi flestir séð sér sóma í því að vera ekki að nudda mér upp úr þessu. Þetta var veturinn 2007-8 og um sumarið 2008 komast myndirnar til foreldra minna. Útprentaðar, settar í ófrímerkt umslag og rennt inn um dyralúguna heima hjá mér. Ég hljóp berfætt niður götuna og ætlaði að fleygja mér út í sjó, en pabbi minn náði mér við endann á henni.

Síðar í pistlinum kemur eftirfarandi fram:

Ég var barn. Allar nektarmyndirnar sem eru til af mér á netinu eru teknar og sendar áður en ég varð 15 ára. Ég var einmana unglingsstelpa, sem þráði fátt meira en að vera venjuleg, vinsæl og að vera stelpa sem stákarnir yrðu skotnir í. Þó svo að ég vissi að þetta ætti ég ekki að gera, þá var þráin og löngunin í vináttu og viðurkenningu of sterk, svo ekki sé minnst á öll hvatningarorðin frá „vinum” mínum á netinu. Ég gaf engum þessara manna leyfi til að áframsenda þessar myndir, eða setja þær fyrir allra augu á internetið. Ég hélt að ég væri að gera þeim persónulegan greiða, því að þeir væru svo ofboðslega hrifnir af mér, en í rauninni var ég að framleiða fyrir þá barnaklám á kostnað geðheilsu minnar.

Það var brotið á mér og minni friðhelgi með því að opinbera þessar myndir, burtséð frá því hvort ég sendi þær í fyrsta lagi. Það er það sem ég vil minna á. Þeir sem hafa lent í því að nektarmyndir af þeim eru opinberaðar á netinu án þeirra samþykkis eru þolendur.

Við þurfum nefnilega ekki bara að kenna fólki að senda ekki af sér nektarmyndir, við þurfum líka að kenna fólki að ef það fær slíkar myndir í hendurnar þá ber það ábyrgð á því að þær séu ekki misnotaðar.

HÉR er hægt að lesa pistilinn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál