Leikur þú lausum kynlífshala?

Ragga Eiríksdóttir.
Ragga Eiríksdóttir.

Ragnheiður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur hefur opnað vefinn raggaeiríks.com en þar er að finna áhugavert efni um kynlíf. Í nýjasta pistli sínum skrifar Ragnheiður, eða Ragga eins og hún er kölluð, um fjöllyndi.

„Þegar kemur að því að ræða um ástarsambönd, lengri eða skemmri, sem fleiri en tveir einstaklingar eru aðilar að er okkar stórprýðilega íslenska tunga fremur fátæk. Það sama er uppi á teningnum þegar talið berst að öðrum óhefðbundnum hneigðum og fyrirbærum í kynlífi. Við eigum til dæmis ekki til neina góða þýðingu fyrir orðið polyamory sem skýtur æ oftar upp kollinum í skrifum um sambönd og samlíf og það að vera polyamorous, að geta elskað og átt í ástarsamböndum við fleiri en einn einstakling í einu. Orðið þýðir „að elska fleiri en einn”, forskeytið poly- þýðir fjöl- og tillagan að þýðingu sem mér líst best á er orðið „fjölelskandi”. Þessi ást getur verið kynferðisleg, tilfinningaleg, andleg eða einhver samsetning af framangreindu allt eftir löngunum og samkomulagi þeirra einstaklinga sem eiga í sambandi. Þeir sem skilgreina sig sem fjölelskandi eru opnir fyrir því að vera í fleiri en einu sambandi í senn, jafnvel þó að staðan sé ekki þannig alltaf.

Já, ég veit það, nú eruð þið farin að hugsa sem svo að þetta sé aldeilis þægileg afsökun fyrir þá sem hafa áhuga á að stunda framhjáhald af kappi; svo er þó ekki. Framhjáhald felur í sér svik og pretti þar sem framhjáhaldarinn gengur á bak orða sinna og brýtur samning um trúnað í hefðbundnu einkvænissambandi. Formerkin skipta hér öllu máli og það samkomulag sem aðilar sambands hafa gert með sér. Framhjáhaldarinn er hvorki heiðarlegur við sjálfan sig né þá sem hann elskar, hann segir eitt en gerir annað og endar svo á að særa allt og alla þegar allt kemst upp um síðir – og trúið mér, ALLT kemst upp um síðir. Í fjölelskandi samböndum þurfa allir aðilar að vera sammála og það gengur ekki að annar aðilinn í sambandi opni það ef hinn veit ekki af því. Aftur á móti er sá sem er fjölelskandi heiðarlegur í sínum samböndum. Ef kona á tvo elskhuga/kærasta þá vita þeir hvor af öðrum og ganga inn í sambandið á þeim forsendum. Enginn segist vera einnar konu maður ef hann er það ekki. Lykilorðin eru hreinskilni, samningar og samskipti.

Fjölelskandi sambönd eru eitt afbrigði opinna sambanda, þau þurfa samt ekki að vera galopin því oft ríkir trúnaður milli þriggja eða fjögurra einstaklinga og það er alls ekkert verið að ríða úti um allan bæ utan þess hóps. Sum pör stunda kynlífsleiki með öðrum pörum eða einstaklingum (swing), pör sem stunda kynlíf með öðrum sitt í hvoru lagi, sambönd þriggja sem ganga í allar áttir (allir með öllum), sambönd þriggja sem ganga í tvær áttir (þá er einn aðili í 2 samböndum), sambönd fjögurra, fimm, sex… Svo eru þessi sambönd allt frá því að vera ekki kynferðisleg og upp í að snúast algjörlega um kynlíf. Algengara er þó að samböndin innihaldi kynlíf enda hlýtur það að vera miklu skemmtilegra!“ segir Ragga í pistli sínum.

Hún bendir á að fjöllyndi sé ein tegundin.

„Aðilar í sambandi setja sér reglur um að ákveðið fjöllyndi sé leyft. Par getur ákveðið að stunda saman kynlíf með öðru/m pari/pörum af og til, til dæmis alltaf á þriðjudagsmorgnum eða að fyrsti mánudagur í hverjum mánuði er frjáls og þá fara þau út sitt í hvoru lagi og leika lausum kynlífshala. Á ensku er til fyrirtaks orð yfir þetta en það er monogamish, sem er afleiða af orðinu monogamy sem þýðir einkvæni á íslensku. Kynlífspistlahöfundurinn Dan Savage (www.savagelove.com) er höfundur hugtaksins og æstasti talsmaður þess. Ég er að leita að góðu íslensku orði yfir þetta… en málið snýst sem sagt um að vera í venjubundnu sambandi við eina manneskju en hafa ákveðið leyfi til að stunda kynlíf utan sambandsins. Dan vill meina að í sumum tilfellum geti smáskammtar af kynlífi með öðrum verið akkúrat það sem sambönd þurfa til að lifa af. Stundum er svakalegt misræmi milli kynlífsáhuga – annar aðilinn runkar sér daglega og vill að auki njóta ásta að minnsta kosti einu sinni á dag á meðan hinn er algjörlega sáttur við að fá það tvisvar í mánuði og þarf ekki meira. Yfirleitt hafa ráðgjafar tilhneigingu til að taka afstöðu með þeim sem er minna graður og segja að þessi æsti þurfi bara að runka sér aðeins meira, hafa þolinmæði og fara út að hlaupa eða í kalda sturtu. En hvað um fólk sem lendir í svona aðstæðum sem endast svo árum skiptir. Er réttlátt að ætlast til þess að sá graði þurfi bara að kyngja kynhvötinni og bíða eftir einhverju sem aldrei verður? Væri mögulega meira réttlæti í því að opna smáglufu, ríða pínulítið til hliðar, svo að allir verði glaðir?

Hvernig veit ég?

En hvernig er best að byrja? Því miður er ekki til nein skotheld aðferð til að hefja líf sem fjölelskandi einstaklingur. Þó er til dálítið af bókum sem eru skrifaðar af fólki sem lifir á þennan hátt og sumar þeirra hafa að geyma ágætis ráð og reynslusögur. Fólk sem er poly lýsir því gjarnan sem miklum létti þegar ákveðið var að stíga skrefið og viðurkenna kenndirnar fyrir heiminum, mæta bara í fermingarveisluna með alla kærastana og kynna þá fyrir frænkunum. Góð bók til lestrar fyrir áhugasama er til dæmis The Ethical Slut eftir Dossie Easton og Catherine A. Liszt.

Reglur og ráð

Hér eru nokkur atriði til að hafa í huga ef  þið hafið áhuga á að koma út úr kústaskápnum sem fjölelskandi einstaklingar og byrja að dæla ást ykkar út í alheiminn:

  • Vertu með sjálfa/n þig á hreinu. Þekktu takmörk þín og vertu búin/n að hreinsa allar ógeðslegar fortíðarbeinagrindur úr sálarskápnum þínum. Sérstaklega þær sem tengjast samböndum, ást og kynlífi. Farðu til sálfræðings/geðlæknis/í kynlífsmeðferð ef þér gengur illa upp á eigin spýtur.

  • Segðu sannleikann. Jú, það getur verið erfitt sérstaklega ef þú heldur að það muni fæla núverandi ástmann/konu frá þér. Ef þú ætlar að lifa poly-lífi þá er ekki til öflugri eyðileggingarkraftur en einmitt lygin. Svo getur líka borgað sig að bíða eftir rétta félaganum frekar en að springa á limminu og  leiðast út í framhjáhald og rifrildi við kærasta/ustu þinn/þína sem vill ekki að vera í opnu sambandi.

  • Ef þú finnur rétta fólkið til að vera með, taktu þá ábyrgð á sjálfum þér frá upphafi. Ef þú lendir í tilfinningalegum sárum dugar  ekki að skella skuldinni á þann eða þá sem eru eða voru með þér í sambandinu. Það ert alltaf þú sem tekur ákvörðunina um að fara út í samband.

  • Ekki reyna að ýta einhverjum út í samband af þessu tagi. Viljinn til gjörða verður að vera jafn og slagsíða er óæskileg. Á sama hátt skaltu aldrei láta til leiðast til þess eins að þóknast maka þínum. Þetta er eitthvað sem ÞIG verður að langa og getur örugglega verið helv… skemmtilegt ef svo er í pottinn búið!

  • Talaðu endalaust við alla þína kærasta/kærustur og forðastu að láta óleyst vandamál og leiðindi hlaðast upp. Þetta er auðvitað mikilvægt í öllum samböndum en sérstaklega hér þegar líf margra flækjast saman.

HÉR getur þú lesið pistilinn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál