Ekki láta spila með þig

Ljósmynd/Pixabay

Hvað getur þú gert til þess að annað fólk valti ekki yfir þig og spili með tilfinningar þínar? 

Eftirtalin atriði eiga við þá einstaklinga sem ekki geta beðið um það sem þeir vilja nema með því að reyna að stjórna öðru fólki með tilfinningum sínum. Leiðirnar sem þeir nota munu aðeins særa þig og þína andlegu heilsu. 

1. Engin hreinskilni. Það er tilgangslaust að reyna að vera hreinskilinn við þann sem spilar með fólk tilfinningalega. Sá sem það gerir reynir að sýna öfgafullar eða gervilegar tilfinningar þegar hann hefur gert eitthvað af sér til þess að komast undan sök og koma samviskubitinu eitthvað annað. Segjum sem svo að vinur þinn gleymdi afmælinu þínu og þú segðir viðkomandi hvernig þér liði með það (þér hefði sárnað). Vinurinn myndi þá svara á þá leið að hann ætti svo erfitt núna, færi jafnvel að gráta eða kæmi með afsakanir til að reyna að koma inn samviskubiti hjá þér. Treystu eigin innsæi og tilfinningum til að reyna að forðast þetta.

2. Falskur vilji. Sá sem spilar með fólk tilfinningalega setur þetta upp á þann veg að hann sé bara að reyna að hjálpa. Ef þú biður viðkomandi að gera eitthvað mun hann alltaf segja já, það er að segja ef hann býðst ekki til að gera það áður en þú spyrð. Þegar kemur að því að framkvæma hlutinn máttu búast við því að heyra kvalafult dæs eða skringilega framkomu líkt og einstaklingurinn vilji ekki hjálpa til.

Til dæmis ef þú biður vin þinn að gera eitthvað fyrir þig og hann segir já en dæsir svo þegar kemur að því að framkvæma hlutinn, líkt og hann vilji ekki hjálpa þér. Hann mun þá reyna að snúa þessu upp á þig og segist að sjálfsögðu vilja gera hlutinn fyrir þig og láta líta út fyrir að þú sért vanþakklát/ur. Lausnin er að um leið og þeir segja já við að hjálpa skaltu strax setja alla ábyrgðina í þeirra hendur þannig að þú þurfir ekki að spyrja aftur.

3. Hver sagði hvað. Að segja eitthvað en neita svo að hafa nokkurn tímann sagt það er týpísk leið þess sem spilar með annað fólk tilfinningalega. Ef þú ert í sambandi þar sem þið þurfið stöðugt að fara yfir hver sagði hvað og eruð ósammála um það sem sagt var ertu í sambandi með manneskju sem spilar með tilfinningar annarra. Sá sem spilar með tilfinningar annarra er snillingur í að snúa hlutunum við, rökræða, réttlæta og útskýra allt þannig að sökin falli á alla aðra en hann sjálfan. Ef þér er farið að finnast þú þurfa að skrifa öll samtöl niður er kominn tími til að endurhugsa hlutina um hvort þú viljir vera í sambandinu.

4. Sektarkennd. Þeir sem spila með tilfinningar annarra eru snillingar í að koma samviskubiti yfir á aðra. Þeir geta látið þig finna til sektarkenndar fyrir að hafa sagt eitthvað eða ekki sagt eitthvað, fyrir að vera tilfinningasamur eða ekki nægilega tilfinningasamur, fyrir að gefa af þér og vera annt um eitthvað svo eitthvað sé nefnt. Þeir sem spila með tilfinningar annarra halda því yfirleitt leyndu hvað þeir raunverulega vilja fá. 

5. Baktal. Þeir sem spila með aðra leika ljótan leik. Þeir nálgast viðfangsefnin ekki beint en munu baktala þig og að lokum munu aðrir í kringum þig segja þér hvað þeir sögðu um þig. Þannig nota þeir aðra til að koma skilaboðunum til skila. Þeir segja við þig það sem þau halda að þú viljir heyra en gera svo annað sem grefur undan því.

6. Úlfaldi úr mýflugu. Ef þú ert með hausverk mun sá sem spilar með tilfinningar annarra vera með heilaæxli. Það er allt miklu verra í lífi þess sem spilar með tilfinningar annarra. Sama hverju þú reynir að lýsa fyrir honum þá hefur hann alltaf lent í því sama og er líklega að ganga í gegnum það líka núna en hjá honum er það tíu sinnum verra. Það er erfitt að eiga í sambandi við þann sem spilar með tilfinningar annarra vegna þess að hann mun alltaf afvegaleiða öll samtöl og snúa þeim að sjálfum sér. Ef þú lætur hann vita af þessu verður hann líklegast virkilega sár og kallar þig sjálfselska/n eða segir jafnvel að þú sért alltaf í sviðsljósinu en ekki hann.

7. Stjórnsemi. Þeir sem spila með aðra eiga það til að stjórna tilfinningalegu andrúmslofti í kringum þá sem umkringja hann. Þegar sá sem spilar með tilfinningar annarra er reiður eða sár finnst það í andrúmsloftinu og aðrir viðstaddir eiga það til að bregðast þannig við með að hugga einstaklinginn eða reyna að láta honum líða betur. Ef þú ert lengi í sambandi með þess konar manneskju muntu sjá að þarfir þínar sitja alltaf á hakanum og þú verður háð/ur manneskjunni og gleymir því jafnvel að þú hafir þínar eigin þarfir.

8. Engin ábyrgð. Þeir sem spila með tilfinningar annarra hafa enga ábyrgðartilfinningu. Þeir taka enga ábyrgð á sjálfum sér og eigin gjörðum og allt snýst um hvað aðrir hafa gert þeim. Ein leið til að finna út hvort manneskja spilar með tilfinningar annarra er sú að þeir munu strax þegar þeir kynnast fólki deila persónulegum upplýsingum sem gera þig dolfallinn og láta þig vorkenna þeim. Í fyrstu muntu sjá þessa manneskju sem viðkvæma og tilfinningalega opna en seinna meir kemstu að því að einstaklingurinn hefur alltaf einhver vandamál til að komast yfir. 

Heimild: The Mind Unleashed

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál