Ertu í slæmu sambandi?

Ljósmynd/Pixabay

Þekkir þú óhamingjusöm pör og hugsar hvers vegna í ósköpunum þau hætti ekki saman?

Fólk getur sagt að það vilji gott samband sem virkar á eðlilegan hátt en verið um leið í óheilbrigðu sambandi sem á sér enga von. Stundum helst fólk saman ef reiði, hræðsla eða annað óheilbrigt er límið sem heldur sambandinu gangandi.

Þegar vinur þinn, fjölskyldumeðlimur eða samstarfsmaður kvartar stöðugt undan slæmu sambandi hefur þú tvo kosti: að segja honum að hann eigi betra skilið og að hann sé gáfaður, góður og svo framvegis eða þú getur neitað að tala um málið.

Það er fín lína á milli þess að sýna stuðning og að valtað sé yfir mann með stöðugum kvörtunum um hversu slæmt sambandið er. Hugsanlega ættir þú að segja vini þínum að sækja ráðleggingar til ráðgjafa eða fagmanns í stað þess að leita sífellt til þín.

Þetta einkennir óheilbrigt samband sem þjáð er af reiði:

1. Hlutirnir eru ekki alltaf eins og þeir sýnast. Til dæmis gæti sá sem virðist vera háður hinum aðilanum haft stjórnina í raun. Mjög erfitt er að sjá hvor hefur yfirhöndina í samböndum en oftast er sá sem skipuleggur alla hluti í sambandinu sá sem hefur yfirhöndina. 

2. Þeir sem eru hlédrægir og góðlegir geta hugsanlega ekki tjáð reiði. Það þýðir þó ekki að þeir finni ekki fyrir reiði innra með sér. Þeir eiga erfitt með að tjá reiði sína en reiði brýst alltaf fram, sama á hvaða hátt fólk velur að tjá reiði sína. Reyndu að beina reiði þinni að því eða þeim sem olli reiðinni og gerðu það á eðlilegan hátt. Tjáðu þeim að þú sért ósátt/ur eða gerðu eitthvað í hlutunum.

3. Reiðin brýst alltaf fram. Hvort sem það er í gegnum orð eða gjörðir mun reiðin alltaf brjótast fram. Best er að tjá reiðina strax og hún kemur upp svo að hún kraumi ekki undir niðri í langan tíma og bitni á þeim sem eiga hana ekki skilið. Haltu þó ró þinni og reyndu að beina reiðinni þangað sem hún ætti að fara.

4. Sá sem gerir allt er stjórnandinn í sambandinu. Sá sem gerir minna í sambandinu er háður þeim aðila sem gerir meira. Hvort sem það er að stjórna heimilishaldinu, fjármálunum, ala börnin upp, skipuleggja fjölskylduviðburði, ákveða hvert fjölskyldan fer í frí og fleira þá er sá sem skipuleggur allt með stjórnina. Þegar einn stjórnar, skipuleggur allt og veit hvar allt er þá er hinn aðilinn honum háður sem gæti verið ástæðan fyrir því að fólk helst í óheilbrigðu sambandi. Ósjálfstæði eða leti gæti verið ástæðan fyrir því að fólk lætur maka sinn sjá um öll mál.

5. Fólk sem er háð öðrum er reitt fólk. Fólk sem kann ekki að tjá reiði sína og byrgir hana inni er oftar en ekki háð öðrum og það að vera háður öðrum skapar enn meiri reiði. Þetta er ákveðinn vítahringur, sá sem er háður annarri manneskju er reiður yfir því að vera háður henni en hann er háður henni vegna þess að hann getur ekki tjáð reiði sína á annan hátt en að tjá hana makanum. Ímyndaðu þér aðstæður þar sem valtað er yfir einstaklinginn og hann gerir ekkert í því, kemur svo heim og reiðin brýst út gegn makanum. Þesskonar samband er óheilbrigt. 

6. Pör skapa sér munstur eða gera með sér samninga. Þetta verður óheilbrigt þegar markmiðið með þessu munstri eða þessum ósögðu samningum er að fela óholla vana eins og framhjáhald, of mikla eyðslu eða áfengis- eða vímuefnaneyslu. En hafa skal í huga að það þarf alltaf tvo til að dansa tangó og það þarf líka tvo til að halda áfram dansinum. 

7. Þegar rifrildin snúast alltaf um það sama er undirliggjandi samningur beggja aðila til staðar. Fullorðið fólk er í samböndum af fúsum og frjálsum vilja. Og eins óheilbrigð og sum sambönd geta verið hafa báðir alltaf eitthvað upp úr krafsinu á því að vera í sambandinu. Nokkrar ástæður fyrir því að fólk helst saman eru til dæmis börn, trú, skömmin við að hætta saman, tíminn sem fólk hefur eytt í sambandið og fleira en versta ástæðan er sú að sumt fólk trúir því einfaldlega að það eigi illa framkomu og andlegt ofbeldi skilið. Um leið og þú kemst að því að þú átt gott skilið þá fyrst geta breytingar orðið á, sjálfstraustið mun lagast og þú lærir að segja nei. Með tímanum muntu einnig komast að því að enginn samfélagslegur titill, efnislegar eignir né utanaðkomandi pressa réttlætir þína óhamingju. Ef þú ert ósátt en heldur sambandinu samt áfram eru þú og maki þinn með samning sem segir til um að hlutirnir séu einfaldlega eins og þeir eru. Þú riftir ekki samningnum fyrr en þú gengur út úr sambandinu.

8. Báðir aðilar eiga hlut að máli. Slæmir samningar sem fólk gerir sín á milli þýða að báðir aðilar eiga hlut að máli og báðir aðilar fara á bak við hlutina. Ef sannleikurinn er grafinn er raunveruleikinn lygi og til þess að halda lyginni á lífi verða báðir aðilar að halda áfram að ljúga.

9.  Lygi veldur skömm sem veldur reiði. Þetta getur verið reiði út í sjálfan þig fyrir að fara ekki eftir eigin gildum eða reiði út í maka þinn fyrir að breyta ekki óheilbrigðum vana sínum eða hegðun. Þegar þú reiðist maka þínum færðu bæði útrás fyrir reiðina og þarft ekki að kljást við hana ein/n.

10. Að stjórna reiðinni. Andlega heilbrigt fólk lærir hvernig eigi að stjórna, sætta sig við og þola reiði sína. Um leið og reiði er viðurkennd í öllum sínum formum og unnið er á reiðinni geturðu yfirgefið sambandið ef það er þinn vilji.

11. Þorðu að vera ein/n. Hinsta ástæðan fyrir því að þú getir loks yfirgefið sambandið, ef það er þinn vilji, er að nú ertu ekki lengur hrædd/ur um að vera ein/n með þinni eigin reiði þegar þú hefur unnið á reiðivandanum.

Heimild: Psychology Today

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál