Næsta ár kallar á betri fjárhag

Sigríður Elín Olsen hefur starfað sem spámiðill síðan árið 2004.
Sigríður Elín Olsen hefur starfað sem spámiðill síðan árið 2004.

Sigríður Elín Olsen hefur starfað sem spámiðill síðan árið 2004. Hún kveðst alltaf hafa séð umhverfið öðruvísi en flestir og elskað andleg málefni. „Ætli fólk sem er í andlegum málum sé bara ekki svolítið öðruvísi þenkjandi fólk, annars veit ég það ekki,“ segir Sigríður sem kveðst þó vera ósköp venjuleg kona að öðru leyti. „Ég á fjölskyldu, ég á góða vini og hef áhugamál sem varla teljast öðruvísi en hver önnur. Ég sæki samt í kyrrðina og rólegheitin frekar en hitt.“

Sigríður eignaðist fyrst tarotspil árið 2002 og fékk þá brennandi áhuga á andlegum málum. „Ég hef alltaf verið næm og haft þetta í mér áður en ég hellti mér út í þetta. Við það að opna alveg fyrir þessa hæfileika hefur skyggnigáfan mín bara magnast. Ég er búin að fara á ótal námskeið til að læra að fara rétt með skyggnigáfuna og miðlunina sem ég starfa með. Það er svo margt sem við getum fundið og lært ef við gefum okkur tíma,“ útskýrir Sigríður sem trúir því að allir hafi skyggnigáfu. „Það þarf bara að trúa því og virkja hana.“

Fær skilaboð að handan

„Ég tek á móti fólki og tengi mig inn á viðkomandi, legg spilin mín og nota hæfileikana mína líka til að sjá og heyra að handan. Þar sem ég er miðill þá fæ ég oftast einhvern til mín að handan sem er þá með skilaboð fyrir þann sem ég er að spá fyrir,“ segir Sigríður aðspurð í hverju starf hennar felist. Sigríður kveðst ekki alltaf nota Tarot-spil en henni finnst það þó gott því þau veita henni öryggistilfinningu. Sigríður býður einnig upp á svokallaða fjarspá sem hún segir vera vinsæla. „Hún virkar þannig að fólk sendir mér fæðingardag sinn og ár og ég tengi mig inn á viðkomandi og sendi svo lesturinn með tölvupósti. Þetta virkar svo vel að ég hef nóg að gera. Sumir komast ekki til spákonu, sumir búa erlendis eða í sveitinni og þá er þetta tilvalinn kostur,“ segir Sigríður.

Sigríður segir það fólk sem vill vita eitthvað um framtíðina, börnin sín, heimilið, ástina, vinnuna, peningamálin og heilsuna leita til sín. Hún segir konur vera í algjörum meirihluta. „Um 95 prósent af fólki sem vill fá spá hjá mér eru konur. Karlar virðast minna láta spá fyrir sér.“

Sér betri fjárhag á næsta ári

„Þetta er erfið spurning. Það er svolítið krefjandi að tengja sig inn á næsta ár en samt skemmtilegt,“ segir Sigríður þegar hún er spurð út í það hvernig árið 2015 líti út. „Það gæti eitthvað nýtt og spennandi verið á leiðinni inn á landbúnaðarsviðið. Einhver nýjung á sviði ræktunar korns, byggs eða þess háttar. Það mun slá svolítið í gegn.“ Sigríður er bjartsýn hvað varðar næsta ár. „Ég skynja að á seinni hluta ársins 2015 komi eitthvað í ljós sem mun gefa okkur nýja von gegn þessu neikvæða sem virðist hafa herjað á okkur undanfarið. Ég sé líka byggingar og aukinn og betri fjárhag svona opinberlega séð. Ég vil segja að næsta ár sveiflist svolítið upp og niður en endi svo uppi,“ útskýrir Sigríður.

Áhugasamir geta sett sig í samband við Sigríði á heimasíðunni draumur.is. Sigríður heldur einnig úti Facebook-síðunni Spámiðlun Sigríðar.

Sigríður Elín Olsen notast meðal annars við Tarot-spil þegar hún …
Sigríður Elín Olsen notast meðal annars við Tarot-spil þegar hún spáir fyrir fólki.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál