Gerir fjölskylduna bilaða með jólatónlist

Gissur Páll syngur hér á útgáfuhófi fyrir diskinn Aría sem …
Gissur Páll syngur hér á útgáfuhófi fyrir diskinn Aría sem hann er að gefa út með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Mummi Lú

Söngvarinn Gissur Páll Gissurarson er mikið jólabarn. Hann byrjar gjarnan að hlusta á jólatónlist í nóvember, fjölskyldu sinni til mæðu, og syngur sjálfur jólalög um allar trissur í desember. Versta jólagjöf sem Gissur hefur fengið er kryddjurtapottur, sú gjöf endaði í ruslinu.

Ert þú mikið jólabarn?

Já, heldur betur. Amerísku jólalögin hljóma hér alla daga í desember, meira að segja stundum smá í nóvember. Held það geri alla aðra á heimilinu smá bilaða.

Hvenær byrjar þú að skreyta heima hjá þér?

Stefnan er alltaf tekin á 1. desember en svona í raunveruleikanum þá er skrautið komið upp rétt fyrir jól. Það fylgir starfinu. Nú var eldri dóttir mín þó búin að búa til ýmiskonar skraut sjálf þannig að við vorum aðeins fyrr á ferðinni þetta árið.

Áttu þér uppáhalds jólalag?

Heldur betur! Ég á nokkur – Ó helga nótt með hinum og þessum flytjendum, The Christmas Song (...chestnuts roasting on an open fire) með Nat King Cole og síðan Í dag er glatt í döprum hjörtum sem er úr Töfraflautunni.

Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Ætli það séu ekki skíði sem ég fékk í jólagjöf frá foreldrum mínum þegar ég var í kringum 5 eða 6 ára. Spenningurinn var svo mikill að ég held ég hafi náð að eyðileggja parketið í stofunni.

En sú versta?

Svona kryddjurtapottur sem ég fékk frá tveimur af yngri bræðrum mínum. Ég reyndi að rækta smá basilíku í eldhúsglugganum, sem gekk ekki – hún myglaði bara. Hugmyndin góð, potturinn fínn en hann fór beint í ruslið.

Hvernig og hvenær verslar þú jólagjafirnar?

Alltaf eitthvað heimagert, þessi jólin gaf ég öllum áritaðan disk frá mér – mjög hentugt þar sem ég var að gefa út diskinn Aría með Sinfóníuhljómsveit Íslands. En að öllu gamni slepptu þá eru gjafainnkaupin samstarfsverkefni á heimilinu og þær því keyptar víða.

Hvað borðar þú á jólunum?

Mat og mikið af honum. Oftast rjúpu eða fashana og eitthvað skemmtilegt meðlæti eins og waldorfsalat. Svo er mjög mikilvægt að vera með heimagerða ísinn í eftirrétt, hann klikkar aldrei.

Eftirminnilegustu jólin?

Ein jólin sem ég og konan mín eyddum saman á Ítalíu. Það var æðislegt að upplifa jólamenninguna þar, en að sama skapi er alltaf frekar erfitt fyrir jólabarnið að vera frá stórfjölskyldunni. Þetta var kannski smá eins og fyrri hlutinn af nýju Icelandair auglýsingunni.

Hvað er það besta við jólin að þínu mati?

Stéttarfélagi tenóra reiknast til að þetta sé afkastamesti mánuður ársins. En að öllu gamni slepptu þá er fátt skemmtilegra en að syngja jólatónlist og fá að vera partur af jólaundirbúningi fólks – þegar öllu er á botninn hvolft snúast jólin um að njóta góðra stunda með fjölskyldunni.

Gissur Páll gat lítið notar kryddjurtapottinn sem hann fékk í …
Gissur Páll gat lítið notar kryddjurtapottinn sem hann fékk í jólagjöf frá bræðrum sínum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál