„Takk fyrir að segja mér alltaf sannleikann“

Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt.
Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt. mbl.is/Golli

„Eitt af því sem er svo dýrmætt í þessu lífi eru góðir vinir. En það er samt ekkert sjálfsagt að eiga góða vini og því ætti maður aldrei að taka þá sem sjálfsögðum hlut. Það felst ekki heldur nein heppni í því að eiga góða vini. Því flest veljum við sjálf þá sem við viljum hafa í kringum okkur. Góður vinur getur ýmsu breytt enda segir í góðum dægurlagatexta; „traustur vinur getur gert kraftaverk“. Ég held að það séu svo sannarlega orð að sönnu,“ segir Jóna Ósk Pétursdóttir í sínum nýjasta pistli. 

„Vinir spila stórt hlutverk í lífi okkar. Þess vegna er svo ómetanlegt að hafa góðan kjarna stuðningsríkra vina í kringum sig. Þeir sem maður velur að hafa sem næst sér hafa óneitanlega áhrif á hvers konar manneskja maður er og hvernig maður mótast og þróast. Á sama hátt á maður sjálfur þátt í þeirra mótun. Mikilvægt er að umvefja sig fólki sem hefur jákvæð áhrif á mann, sem maður getur treyst og umfram allt fólki sem sýnir manni stuðning.

Með tímanum lærir maður líka hverjir eru vinir manns og með hverjum manni finnst gott að vera. Sumir hafa einfaldlega betri áhrif á mann en aðrir. Sú staða getur líka auðveldlega komið upp að vinir sem þú hélst að yrðu með þér til eilífðar eru farnir að hafa neikvæð áhrif á þig. Þá þarf oft að taka af skarið þótt erfitt sé. Maður lærir svo lengi sem maður lifir.“

Jóna Ósk segir að fólk átti sig yfirleitt betur á því hverjir séu vinir í raun þegar eitthvað bjáti á. 

„Í fyrrnefndum dægurlagatexta segir einnig „enginn veit fyrr en reynir á hvort vini áttu þá“. Er ekki frekar mikið til í þessu? Alla vega eru þeir ófáir sem hafa upplifað slíkt. Oft er það nefnilega þannig að þegar þú gengur í gegnum erfiðleika eða eitthvað bjátar á hjá þér þá áttarðu þig enn betur á því hverjir eru raunverulegir vinir þínir. Á erfiðum stundum eru það einmitt þessir vinir sem standa með þér og hjálpa þér að rísa upp aftur. Talið er að við getum talið hina sönnu traustu vini okkar á fingrum annarrar handar.

En munum við alltaf eftir því að þakka þessum góðu vinum okkar fyrir allt? Til að bæta úr því er hér að neðan listi með 20 atriðum sem flest okkar geta eflaust sagt við sína vini. Sumt af þessu virðist kannski lítilvægt en höfum í huga að allt er þetta síður en svo sjálfsagt.“

Tuttugu þakkir:

Takk fyrir að vera til staðar – í gegnum súrt og sætt.

Takk fyrir að hugsa svona oft til mín.

Takk fyrir að segja mér alltaf sannleikann.

Takk fyrir að sykurhúða ekki hlutina.

Takk fyrir allar ógleymanlegu samverustundirnar og fyrir að gera þær einstakar.

Takk fyrir að hlusta alltaf á mig og ræða málin til hlítar.

Takk fyrir nærgætnina og að nota hlý orð í minn garð.

Takk fyrir að samgleðjast mér alltaf.

Takk fyrir að mæta mér á miðri leið.

Takk fyrir alla gullhamrana.

Takk fyrir að gefa þér tíma fyrir mig.

Takk fyrir að vita og skynja þegar eitthvað bjátar á hjá mér.

Takk fyrir að leggja þig fram við að skilja mig í stað þess að dæma mig.

Takk fyrir að takast á við vandamálin með mér.

Takk fyrir alla smáu hlutina sem þú gerir og skipta mig svo miklu máli.

Takk fyrir að taka mér eins og ég er.

Takk fyrir að vilja eyða tíma með mér og ekki síst fyrir að hafa gaman af því.

Takk fyrir að hafa trú á mér.

Takk fyrir að þykja virkilega vænt um mig.

Takk fyrir að vera þú – sem er ansi hreint mikilvægt.

Jóna Ósk Pétursdóttir.
Jóna Ósk Pétursdóttir. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál